Reykjavíkurborg leggst alfarið gegn frumvarpi um að auka veg kristinfræðikennslu í grunnskólum landsins. Umrætt frumvarp var lagt fram af öllum þingmönnum Miðflokksins, ásamt Sjálfstæðismönnunum Brynjari Níelssyni og Ásmundi Friðrikssyni. Fyrsti flutningsmaður þess er Birgir Þórarinsson og var því útbýtt 9. október í fyrra. Birgir mælti svo fyrir því 18. febrúar síðastliðinn og málið er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd.
Verði frumvarpið að lögum yrði kennslan eins og var fyrir gildistöku grunnskólalaga frá árinu 2008, sem felldu hana niður. Þingmennirnir vilja að heiti námsgreinarinnar trúarbragðafræði verði breytt í kristinfræði og trúarbragðafræði og telja að nám á því sviði sé mikilvægt til skilnings, umburðarlyndis og víðsýni. „Nemendur verða að vera búnir undir að lifa í fjölbreyttu lýðræðislegu samfélagi og takast á við margvísleg úrlausnarefni sem þeirra bíða í breyttum heimi,“ segir í greinargerð sem fylgir frumvarpinu.
Á meðal þeirra raka sem þingmennirnir nota til að rökstyðja þörfina fyrir aukna áherslu á kristinfræðikennslu í skólum er að hér á landi fari innflytjendum sem komi frá ólíkum menningarheimum fjölgandi. Það auki að mati þingmannanna kröfur um umburðarlyndi og gagnkvæma virðingu. „Með vaxandi fjölgun íslenskra ríkisborgara sem eru af erlendu bergi brotnir eykst nauðsyn þess að brjóta niður múra á milli menningarheilda og trúarhópa og auka þar með umburðarlyndi. Slíkt er best gert með sérstakri fræðslu um ríkjandi trú landsins, kristni, og almennri fræðslu um trúarbrögð heimsins og þar með menningu og siði þjóða og þjóðarbrota. Til að slík fræðsla verði að gagni og nái að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi þarf hún að ná til allra.”
Getur ýtt undir þröngsýni og fordóma
Í umsögn Reykjavíkurborgar, sem er sú fyrsta sem berst um frumvarpið, eru gerðar margháttaðar athugasemdir við frumvarpið. Þar segir meðal annars að mikilvægt sé að „fjalla almennt um trúarbrögð og lífsskoðanir án þess að kennslan gefi einni trú eða ákveðnum lífsskoðunum meira vægi en öðrum trúarbrögðum eða lífsskoðunum. Slík nálgun getur ýtt undir þröngsýni og fordóma. Með því að leggja sérstaka áherslu á fræðslu um kristna trú er óbeint verið að senda nemendum og kennurum þau skilaboð að kristni sé mikilvægari eða á einhvern hátt betri en önnur trúarbrögð eða aðrar lífsskoðanir. Í frumvarpi þessu felst því gífurleg mótsögn, enda fráleitt að halda því fram að nemendur öðlist aukið umburðarlyndi og virðingu fyrir öðrum með „sérstakri fræðslu um ríkjandi trú landsins, kristni“, umfram önnur trúarbrögð eða lífsskoðanir. Reykjavíkurborg er því alfarið á móti þeirri nálgun að heiti námsgreinarinnar trúarbragðafræði verði breytt í kristinfræði og trúarbragðafræði og telur þá aðferð ekki til þess fallna að styðja við víðsýni og efla mannskilning.“
Í samantekt umsagnarinnar segir að Reykjavíkurborg telji að hlutlægni verði að einkenna alla kennslu um trúarbrögð og lífsskoðanir í grunnskólum ef nemendur eiga að öðlast umburðarlyndi og gagnkvæma virðingu fyrir skoðunum annara. Að öðrum kosti getur kennsla um trúarbrögð orðið þess valdandi að ýta undir þröngsýni og fordóma. „Reykjavíkurborg leggst því alfarið gegn þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpi þessu.“
Telja að kristinfræði fái minna vægi en önnur trúarbrögð
Kristinfræði hefur ekki verið til sem sérstakt fag í grunnskólum landsins frá árinu 2008. Töluverðar breytingar voru svo gerðar á almenna hluta aðalnámskrár grunnskóla 2011. Þá var Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra en hún er í dag forsætisráðherra.
Í breytingunum fólst meðal annars að trúarbragðafræði er ein af níu námsgreinum sem falla undir það sem er skilgreint sem samfélagsgreinar. Kennarar frá frelsi til þess að skipta þeim tíma sem gefin er á milli þeirra greina.
Flutningsmenn frumvarpsins segjast hafa rætt við fólk við vinnslu þess sem segi að sá tími sé og naumt skammtaður. „ Ekkert opinbert samræmi er milli skóla landsins um hversu mikinn tíma þeir nýta í hvert fag innan samfélagsfræðinnar. Kom það fram af hálfu viðmælenda að dæmi eru þess að kristinfræði fái minna vægi í trúarbragðafræði heldur en önnur trúarbrögð.“
Forsenda skilnings á vestrænu samfélagi
Miðflokksmennirnir, og Sjálfstæðismennirnir tveir, telja að áhersla á kristna trú umfram önnur trúarbrögð sé nauðsynleg vegna þess að menning Íslands tengist sögu hennar.
Í greinargerðinni segir að eðlilegt hljóti að teljast að fjallað sé ítarlegast um þau trúarbrögð sem ríkjandi séu í samfélaginu. „Þekking á kristni og Biblíunni er forsenda skilnings á vestrænni menningu og samfélagi. Þekking á eigin trú er forsenda til skilnings á trú annarra og leið til umburðarlyndis. Skólanum er ætlað að miðla grundvallargildum þjóðfélagsins, sem hér á landi eru byggð á kristnum rótum. Fræðsla í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði miðlar nemendum þekkingu á eigin rótum.“
Þingmennirnir telja að kennslan muni hjálpi nemendum að setja kristinfræðinámið í stærra þekkingarlegt samhengi. Þeir muni þannig öðlast siðfræðilegan, siðferðilegan og félagslegan þroska. „Öðlist getu til að skilja viðhorf trúarbragða gagnvart einstaklingi, samfélagi og umhverfi. Læri að bera virðingu fyrir fólki af annarri menningu og trú. Geti tekið upplýstar ákvarðanir og rökstutt þær.“
Fækkað í þjóðkirkjunni
Þeim landsmönnum sem eru í þjóðkirkjunni hefur fækkað hratt síðastliðin misseri. Í byrjun árs 2009 náði fjöldi þeirra mettölu, en þá voru 253.069 landsmenn í henni. Frá þeim tíma hefur þeim fækkað jafnt og þétt og eru nú 229.653. Hlutfall íbúa landsins sem er skráð í þjóðkirkjuna var 62,2 prósent í byrjun febrúar síðastliðins.
Það þýðir að fjöldi þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjuna hefur dregist saman um 23.416 frá ársbyrjun 2009. Það eru fleiri en allir núverandi íbúar Garðabæjar og Seltjarnarness samanlagt.
Íbúar landsins voru 368.590 um síðustu áramót. Íbúum landsins hefur fjölgað um 49.222 frá byrjun árs 2009. Frá þeim tíma, á rúmum tólf árum, hafa því 72.638 íbúar landsins valið að ganga úr, eða ekki í, þjóðkirkjuna.
Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Siðmennt í byrjun árs 2020 eru rúmlega 54 prósent landsmanna hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju og 25,7 prósent í meðallagi hlynnt honum. Rúmlega 20 prósent eru andvíg aðskilnaði.
Í könnuninni var einnig spurt hvort að fólk teldi sig eiga samleið með þjóðkirkjunni. Alls sögðust 48,7 prósent að þeir ættu litla eða enga samleið með henni en 25,7 prósent sögðu að þeir ættu nokkra samleið. Alls sögðu 25,5 prósent aðspurðra að sú samleið væri fremur eða mjög mikil.