Skipulagsbreytingar, þar með talið uppsögn 120 stöðugilda, og niðurgreiðsla langtímalána, létti á rekstri Íslandspósts, sem skilaði 104 milljóna króna hagnaði í fyrra. Þetta er í fyrsta skiptið sem Íslandspóstur skilar hagnaði síðan árið 2017, en árið 2019 nam tap fyrirtækisins 551 milljón króna. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Íslandspósts fyrir síðasta ár.
Minni tekjur, enn minni kostnaður
Samkvæmt ársreikningnum minnkuðu tekjur fyrirtækisins á milli ára, og námu 7,5 milljörðum krónum í fyrra, miðað við 7,8 milljarða króna árið 2019. Hins vegar minnkaði rekstrarkostnaður fyrirtækisins enn meira, eða úr 7,5 milljörðum í 6,8 milljarða króna, á sama tíma.
Þar vógu þyngst laun og launatengd gjöld, sem lækkuðu um 437 milljónir á árinu. Þessi samdráttur náðist með fækkun stöðugilda hjá fyrirtækinu, en í lok síðasta árs voru þau 601, miðað við 721 í árslok 2019.
Hagnaður Íslandspósts í fyrra er svipaður að stærð og hagnaður fyrirtækisins árið 2016. Hann var þó ekki jafnstór og árið 2017, þegar hann nam rúmum 200 milljónum króna.
Líkt og Kjarninn hefur greint frá lét Birgir Jónsson af störfum sem forstjóri Íslandspósts í nóvember í fyrra. Birgir, sem starfað hafði hjá fyrirtækinu frá júnímánuði árið 2019, tjáði sig um brotthvarf sitt á LinkedIn-síðu sinni, en þar sagði hann stærstu rekstrarmál Íslandspóst hafa verið leyst og að hann fyndi sig ekki í stöðu sinni þegar pólitískari sjónarmið væru farin að skipta meira máli.
Nýr forstjóri félagsins er Þórhildur Ólöf Helgadóttir. Í fréttatilkynningu frá Íslandspósti sagði hún að rekstrarárangurinn væri alls ekki sjálfgefinn. „Árangur sem þessi er alls ekki sjálfgefinn, endurskipulagning og niðurgreiðsla langtímalána hefur létt umtalsvert á félaginu og okkur tókst með samstilltu átaki stjórnar og starfsfólks að bregðast við tekjuminnkun vegna minni inn- og útflutnings. Íslandspóstur er á réttri leið," bætti hún við.