Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hefur óskað eftir því að skrifstofa Alþingis kanni hvar formleg mörk liggja varðandi trúnað um það sem fram kemur á lokuðum nefndarfundum Alþingis. Þetta kemur fram í grein sem þingmaðurinn ritar á Vísi í dag.
Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa sakað bæði Jón Þór og Andrés Inga Jónsson þingmann Pírata um að hafa brotið trúnað eftir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk á sinn fund lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu til þess að ræða símtölin sem hún átti við dómsmálaráðherra á aðfangadag.
Bæði Jón Þór og Andrés Ingi telja að orð þeirra í fjölmiðlum hafi ekki falið í sér trúnaðarbrest. „Mér dettur helst í hug að Óli Björn hafi ekki hlustað á viðtal Ríkisútvarpsins við mig, þó hann treysti sér til að halda því fram að ég hafi þar endursagt og túlkað orð gests á lokuðum nefndarfundi. Það gerði ég ekki,“ skrifaði Andrés Ingi á Facebook fyrr í dag.
Þar sagði hann viðbrögð Óla Björns úr öllu hófi. „Það sem ég sagði var að á fundinum hafi komið fram atriði sem þurfi að skoða nánar. Það er það sem ég sagði, sama hvernig Óli Björn reynir að snúa því, en ég sem nefndarmaður hlýt ég að geta tjáð mig um framhald umfjöllunar máls í þingnefnd,“ sagði Andrés Ingi.
„Ef að hófstilltu ummælin mín í gær teljast sem trúnaðarbrestur þá held ég að Alþingi sé vandi á höndum - því að það myndi binda hendur alþingismanna nokkuð svakalega ef þeir mega ekki tala á almennum nótum um störf þingnefnda Alþingis,“ segir Jón Þór í grein sinni á Vísi í dag.
Þar segir hann enn fremur að hann telji brýnt að fá úr því skorið hvenær trúnaður um það sem fram fari á nefndarfundum geti talist rofinn og hvenær ekki. Hann hafi upplýst forseta Alþingis um málið.
Ekki einu meintu trúnaðarbrestir vikunnar
Trúnaðarbrestur í nefndarstörfum Alþingis hefur verið nokkuð í deiglunni í vikunni. Á þriðjudag sendi heilbrigðisráðuneytið frá sér yfirlýsingu þar sem Helga Vala Helgadóttir þingkona Samfylkingar og formaður velferðarnefndar var sökuð um að hafa brotið trúnað með ummælum sínum um rekstur hjúkrunarheimila á vegum sveitarfélaga.
Hún sagði í samtali við Kjarnann að hún teldi sig ekki hafa brotið þingskaparlög, þar sem hún hefði ekki eignað neinum einstaklingi ummælin eða vitnað orðrétt til þeirra. „Óheimilt er að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi,“ segir um þetta atriði í þingskaparlögum.