Samkeppnishamlandi aðgerðir Mjólkursamsölunnar (MS) voru þaulskipulagðar var þeim ætlað að koma keppinautum hennar út af markaði, samkvæmt forsvarsmönnum Mjólku og Mjólkurbúsins Kú. Í fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla í dag segja þeir yfirlýsingar MS um að aðgerðir hennar hafi verið gerðar í góðri trú „í besta falli hlægilegar.“
Líkt og Kjarninn greindi frá síðastliðinn fimmtudag komst Hæstiréttur að því að MS hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína og mismunað viðskiptaaðilum sínum með því að að selja hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða á hærra verði til keppinauta en til eigin framleiðsludeildar og tengdra aðila. MS var gert að greiða alls 480 milljónir króna í ríkissjóðs vegna þeirra samkeppnislagabrota.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar sendi Mjólkursamsalan frá sér fréttatilkynningu þar sem fullyrt var að aðgerðir hennar hefðu verið í góðri trú og að MS hafi alltaf talið sig vera að vinna í samræmi við lög. Mjólkursamsalan bætir einnig við að hagræðing í mjólkurðinaðinum vegna lagabreytinga sem heimiluðu verkaskiptingu og samstarf afurðarstöðva í mjólkuriðnaði hafi skilað milljarða króna ávinningi til samfélagsins á hverju ári.
Forsvarsmenn Mjólku og mjólkurbúsins Kú draga þessar yfirlýsingar hins vegar í efa í fréttatilkynningu sinni: „Aðgerðir MS voru þaulskipulagðar og þeim ætlað að koma keppinautum MS út af markaði og gera þá ógjaldfæra með alvarlegum afleiðingum fyrir starfsfólk þeirra, lánadrottna og eigendur. Kalla verður eftir ábyrgð þeirra sem stýrðu þessari aðför með svo illgjörnum og óvægnum hætti,“ segir í yfirlýsingunni. Einnig bæta þeir við að yfirlýsingar MS um að aðgerðir þeirra hafi verið gerðar í góðri trú „í besta falli hlægilegar.“
Þeir segja einnig að meint hagræðing sem eigi að hafa náðst vegna undanþáguákvæða frá samkeppnislögum hafi ekki skilað sér í vasa neytenda og því síður til bænda: „Verð á mjólkurvörum er síst lægra hér landi en á erlendum mörkuðum þar sem fyrirtæki bænda hafa ekki notið þeirrar gríðarlegu verndar sem MS hefur notið á undanförnum árum með tollavernd og undanþáguheimildum frá samkeppnislögum, í raun einokunarstöðu.“