Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að tveir einstaklingar sem smitast hafa á síðustu tveimur dögum með breska afbrigðið af COVID-19 utan sóttkvíar gætu hafa smitað nokkurn fjölda manns, bæði á Landspítalanum og í Hörpu. Samkvæmt honum er full ástæða til að endurskoða fyrirhugaðar tilslakanir á sóttvarnaraðgerðum ef í ljós kemur að fleiri hafi smitast.
Þórólfur var á upplýsingafundi almannavarna í dag, ásamt Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni, en boðað var til fundarins fyrr í dag eftir að upp komst um smitin. Einn hinna smituðu starfar á dag- og göngudeild Landspítalans og einn mætti á tónleika með Víkingi Heiðari Ólafssyni í Hörpu síðastliðið föstudagskvöld.
Hluta dag- og göngudeildarinnar hefur nú verið lokað, en almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra gerir þó ekki ráð fyrir að smitið muni hafa frekari áhrif á starfsemi spítalans, eins og staðan er. Meira en þrjátíu einstaklingar, sjúklingar og starfsmenn eru komnir í sóttkví í tengslum við smitið.
Um tíu þeirra sem sátu næst hinum smitaða sem fór á tónleikana í Hörpu hafa verið settir í sóttkví, en allir tónleikagestir eru eindregið hvattir til að mæta í skimun fyrir veirunni á morgun. Þeir sem ætla að mæta í skimun í tengslum við tónleikana verða að bóka tíma í gegnum Mínar síður á Heilsuvera.is og velja þar „Tónleikagestur í Hörpu 5. Mars 2021.“
Á sama stigagangi
Samkvæmt Þórólfi tengjast bæði smitin óbeint einstaklingi sem kom erlendis frá þann 26. febrúar. Niðurstöður úr fyrstu landamæraskimun voru neikvæðar, en hann reyndist svo vera með COVID-19 í seinni skimun fimm dögum seinna. Á meðan á sóttkvínni stóð virðist sem einstaklingurinn hafi náð að smita tvo einstaklinga, þótt ekki megi sjá að hann hafi brotið sóttvarnarreglur.
Starfsmaður Landspítalans, sem greindist með COVID-19 í gær, býr í sama stigagangi í fjölbýli og þessi einstaklingur. Á upplýsingafundinum sagði Þórólfur þetta vera eina samganginn sem starfsmaðurinn gæti hafa haft við smitaðan einstakling.