Hvað eiga Skákdeild Breiðabliks, ADHD samtökin, Samband íslenskra kristniboðsfélaga, Rafíþróttadeild Keflavíkur og Samtökin '78 sameiginlegt? Jú, allt eru þetta félög sem eru á almannaheillaskrá Skattsins og hafa því rétt á frádrætti frá skattskyldum tekjum vegna gjafa og framlaga, allt að 350 þúsund krónum á ári.
Með lögum um félög til almannaheilla sem samþykkt voru á Alþingi á síðasta ári var heimilaður frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna gjafa og framlaga til lögaðila sem uppfylla tiltekin skilyrði og eru í almannaheillaskrá. Frádrátturinn getur numið samtals 350 þúsund krónum á almanaksári. Tæplega 300 félög hafa skilað inn umsókn á almannaheillaskrá Skattsins. 216 félög hafa verið samþykkt frá því að opnað var fyrir skráningu í lok síðasta árs og að minnsta kosti 77 umsóknir til viðbótar bíða samþykktar.
Við frumskráningu 1. nóvember í fyrra voru umsóknir 208 lögaðila samþykktar. Átta umsóknir til viðbótar hafa verið samþykktar og að minnsta kosti 77 umsóknir bíða samþykktar samkvæmt upplýsingum frá Skattinum.
Kjarninn hefur frá því í desember óskað eftir upplýsingum um þær umsóknir sem enn eru í samþykktarferli en aðeins fengið upplýsingar um fjölda þeirra, tæplega 80 talsins, en ekki frá hvers konar félögum umsóknirnar eru. Umsóknir sem borist hafa eftir áramót hafa ekki verið afgreiddar en samkvæmt upplýsingum frá Skattinum munu samþykktar umsóknir sem berast frá 1. janúar 2022 fá gildisdagsetningu sama dag og umsókn berst.
„Merkileg þáttaskil í þróun samtaka sem vinna að almannaheill“
Lögaðilum sem uppfylla tiltekin skilyrði er heimilt að sækja um skráningu á almannaheillaskrá Skattsins. Almennt er um að ræða óhagnaðardrifin félög sem í megindráttum reka ekki atvinnustarfsemi í skilningi skattalaga, heldur fyrst og fremst starfsemi með þjóðfélagslegan tilgang og samfélagsleg markmið að leiðarljósi. Meðal félaga sem hlotið hafa samþykki á almannaheillaskrá eru trúfélög, söfnuðir, íþróttafélög, björgunarsveitir og ýmis hjálparsamtök og styrktarfélög. .
Almannaheill, regnhlífarsamtök frjálsra félagasamtaka og séreignastofnana í almannaþágu, sögðu í tilkynningu í nóvember þegar lögin voru samþykkt að um væri að ræða „merkileg þáttaskil í þróun samtaka sem vinna að almannaheill á Íslandi“. Vonast samtökin að lögin muni hafa áhrif til góðs á starfsemi almannaheillasamtaka.
Meðal þeirra skilyrða sem lögaðilar þurfa að uppfylla til þess að gjafir eða framlög til þeirra skapi frádráttarrétt hjá gefanda er að um sé að ræða mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, starfsemi björgunarsveita, vísindalega rannsóknarstarfsemi, starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða, neytenda- og forvarnastarfsemi, starfsemi þjóðkirkjunnar, þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga. Móttakandi gjafar eða framlags þarf að vera skráður í almannaheillaskrá þegar gjöf er afhent eða framlag veitt.