Til stendur að ráðast í uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á nokkrum reitum þar sem Festi rekur í dag bensínstöðvar undir merkjum N1 og dagvöruverslanir undir merkjum Krónunnar. Byggingarmagnið á reitunum gæti samtals orðið á milli 25 og 30 þúsund fermetrar. Farið er yfir þessi áform í fjárfestakynningu frá Festi sem dreift var í kjölfar birtingar uppgjörs félagsins fyrir annan ársfjórðung þessa árs. Forstjóri félagsins segir að Festi ætli ekki að fara að hasla sér völl í byggingargeiranum, heldur muni félagið selja byggingarrétt.
„Við ætlum ekki að byggja þarna,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festis, í samtali við Kjarnann. „Við munum bara búa til deiliskipulag og selja byggingaraðilum, við erum ekki að fara í byggingarbransann.“
Festi heldur á byggingarrétti á reitunum sem um ræðir í kjölfar samkomulags sem félagið gerði við Reykjavíkurborg sem fjallaði um fækkun bensínstöðva. Í fjárfestakynningunni er farið yfir helstu atriði samkomulagsins. Reykjavíkurborg fellur frá því að rukka innviðagjöld og byggingarréttargjöld á þeim lóðum sem byggt verður upp á en gatnagerðargjöld þarf að borga fyrir þá fermetra umfram þá sem eru nú þegar byggðir. Þá gerir Reykjavíkurborg kröfu um að 20 prósent af íbúðunum verði leiguíbúðir og þar af verði fimm prósent að félagslegum íbúðum.
N1 rekur í dag 11 bensínstöðvar með 43 dælum með 82 bensín- og olíu byssum. Samkomulagið felur í sér að N1 fækki byssum um 29 til 37 prósent. Uppbygging á reitum félagsins er hluti af áformum um að fækka bensínstöðvum. „Það er bara hluti af orkuskiptunum að fækka stöðvum og styðja við samfélagið í því en við ætlum ekki að fara að byggja og selja íbúðarhúsnæði, það er ekki okkar bissness, það eru aðrir í því,“ segir Eggert Þór.
Setja upp bensíndælur við Krónuna á Granda
Í fjárfestakynningunni kemur fram að rekstri bensínstöðvar N1 á Ægisíðu verði hætt eigi síðar en 1. janúar 2023, þó ekki síðar en tólf mánuðum eftir að deiliskipulag fyrir lóðina sem og Fiskislóð 15 til 21, hvar Festi rekur eina af verslunum Krónunnar. Áætlað byggingarmagn á reitnum við Ægisíðu er á bilinu 13 til 15 þúsund fermetrar.
Lokun stöðvarinnar er að hluta til háð því að deiliskipulag við Fiskislóð 13-15 verði samþykkt en Reykjavíkurborg hefur heimilað félaginu að setja þar upp sjálfsafgreiðslustöð með tveimur eldsneytisdælum sem munu geta þjónustað fjóra bíla á samtímis. Félagið mun taka þær dælur í notkun eftir að rekstri á Ægisíðu verður hætt.
Gert er ráð fyrir að við Rofabæ 39, þar sem nú er ein af verslunum Krónunnar muni rísa rúmlega fjögur þúsund fermetrar af tveggja til fjögurra hæða íbúðarhúsnæði og við Stóragerði er gert ráð fyrir tæplega þrjú þúsund fermetrum af íbúðarhúsnæði á þremur til fjórum hæðum. Í dag er þjónustustöð N1 rekin við Stóragerði.
Þá er einnig gert ráð fyrir uppbyggingu við Elliðabraut í Norðlingaholti þar sem N1 er í dag með sjálfsafgreiðslustöð. Þar er gert ráð fyrir að Krónan opni verslun auk þess sem N1 mun halda úti tveimur dælum fyrir fjóra bíla. Byggingarmagn á reitnum við Elliðabraut er talið verða á bilinu fjögur til fimm þúsund fermetrar.