Stefnt er að því að byggja 3.500 til 3.700 nýjar íbúðir á Blikastaðalandinu í Mosfellsbæ, en samningar þessa efnis voru undirritaðir á milli bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ og Blikastaðalands ehf., félags sem er í endanlegri eigu Arion banka, fyrr í dag.
Fjöldi íbúða í þessu nýja hverfi slær nærri fjölda allra íbúðareininga sem eru í Mosfellsbæ í dag, en samkvæmt tölum frá Þjóðskrá eru fullbúnar íbúðir í bænum rúmlega 4.400 talsins. Þetta er þó langtímaverkefni og ætla má með að uppbygging hverfisins taki 15-20 ár, samkvæmt því sem haft er eftir Þorgerði Örnu Einarsdóttur framkvæmdastjóra Blikastaðalands ehf. í frétt RÚV.
Í markaðstilkynningu frá Arion banka kemur fram að vonir standi til þess að aðalskipulagsvinna klárist á þessu ári og að deiliskipulag fyrsta áfanga uppbyggingarinnar liggi fyrir innan tveggja ára.
Stefnt er að því að um 20 prósent nýrra íbúða í hverfinu verði sérbýli og einnig er stefnt að uppbyggingu 66 þúsund fermetra atvinnuhúsnæðis. Sá fermetrafjöldi kann þó að minnka ef ákveðið verður að byggja upp fleiri íbúðir sem sérstaklega verða hugsaðar fyrir 55 ára og eldri, en í dag er gert ráð fyrir að þær verði um 150 talsins.
Blikastaðalandið er stærsta óbyggða svæðið innan vaxtarmarka höfuðborgarsvæðisins, en skipulagssvæðið sem hér um ræðir er alls um 90 hektarar og gert er ráð fyrir að landið sem hægt verði að nýta til fyrirhugaðrar uppbyggingar nýs íbúðasvæðið sé um 80 hektarar.
Borgarlína í gegnum mitt skipulagssvæðið
Í sameiginlegri tilkynningu Blikastaðalands ehf. og Mosfellsbæjar segir að hverfið verði hannað frá grunni sem fjölbreytt og blönduð byggð þar sem fólk eigi að geta sinnt helstu erindum fótgangandi eða með almenningssamgöngum, en fyrirhuguð lega Borgarlínu er þvert í gegnum Blikastaðalandið og hefur verið kölluð forsenda fyrir uppbyggingu landsins, meðal annars af bæjarstjóra Mosfellsbæjar.
Landið er á sveitarfélagamörkum við Reykjavík og afmarkast af Hlíðargolfvelli í norðri, Korpúlfsstaðavegi og Vesturlandsvegi í suðri, núverandi byggð í Mosfellsbæ í austri og Úlfarsá í vestri. Kjarninn fjallaði á síðasta ári um vestari hluta Blikastaðalandsins, vestan Korpúlfsstaðavegar, þar sem fasteignafélagið Reitir er að skipuleggja mikla uppbyggingu á atvinnuhúsnæði.
Greiða sex milljarða byggingaréttargjald
Blikastaðaland ehf., félagið sem er í endanlegri eigu Arion banka, mun taka þátt í kostnaði við innviðauppbyggingu í nýja hverfinu með bæði beinum fjárframlögum og afhendingu eigna.
Samkvæmt tilkynningu greiðir félagið Mosfellsbæ um 6 milljarða króna byggingarréttargjald sem deilist hlutfallslega niður á heildarfjölda íbúðareininga á svæðinu við útgáfu byggingarleyfis í hverjum áfanga fyrir sig og mun félagið einnig leggja bænum til um 1 milljarð króna vegna þátttöku í uppbyggingu íþróttamannvirkis á svæðinu, sem deilist niður á framkvæmdatíma þess mannvirkis.
Þá mun félagið afhenda Mosfellsbæ til eignar 40 einbýlishúsalóðir og einnig afhenda bænum 80 prósent af söluverði tiltekinna lóða fyrir atvinnuhúsnæði og 60 prósent af söluverði lóða fyrir íbúðir sem hugsaðar eru fyrir 55 ára og eldri. Að öðru leyti mun allur byggingaréttur ásamt tilheyrandi lóðaréttindum tilheyra Blikastaðalandi ehf., samkvæmt því sem segir í tilkynningu Arion banka.
Gömlu húsin á Blikastaðabýlinu munu áfram standa þar og mun Blikastaðaland ehf. annast standsetningu þeirra eins og mögulegt er „til hagsbóta fyrir íbúa svæðisins og Mosfellsbæjar.“
Í samningnum er kveðið á um Mosfellsbær muni eignast allt landið endurgjaldslaust til eignar eftir því sem þróun svæðisins miðar áfram, þar með talið grunneignarrétt allra lóða. Einnig var samið um að Blikastaðaland ehf. muni annast framkvæmdir við gatnagerð, opin svæði, leikvelli, götulýsingar, holræsi og vatnslagnir í samstarfi við bæjarfélagið. Félagið hefur þó heimild til að falla einhliða frá þeirri skuldbindingu og mun þá greiða gatnagerðargjöld til Mosfellsbæjar eftir skilmálum sem nánar er kveðið á um í samningnum.
Í fréttatilkynningu er haft eftir Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra Mosfellsbæjar að það sé fagnaðarefni að þetta mikilvæga uppbyggingarverkefni sé nú leitt til farsælla lykta.
„Ég veit ekki til þess að stærri samningur um uppbyggingu íbúðahverfis hafi verið gerður hér á landi, enda er um að ræða tímamótasamning sem skiptir núverandi og verðandi Mosfellinga og Blikastaðaland afar miklu máli. Samningurinn tryggir farsæla uppbyggingu hér í Mosfellsbæ, uppbyggingu sem er til þess fallin að efla þjónustu og lífsgæði Mosfellinga og efla samfélag okkar á alla lund. Þá verður ekki framhjá því litið að uppbygging á landi Blikastaða verður lykilþáttur í að tryggja gott lóðaframboð á höfuðborgarsvæðinu sem mætir þeirri eftirspurn eftir húsnæði sem við höfum fundið svo vel fyrir í okkar vexti síðustu ár. Blikastaðir eru mikilvægur hluti bæjarins okkar og það verður mjög ánægjulegt að sjá nýtt og skemmtilegt hverfi byggjast upp á þessu fallega landi milli fella og fjöru á næstu árum,“ er einnig haft eftir bæjarstjóranum.
Verðmætt land sem rataði úr hlutaeigu ríkisins fyrir slikk
Saga Blikastaðalandsins er um margt áhugaverð. Það var í eigu Íslenskra aðalverktaka (ÍAV) fram til ársins 2008 er það var selt á heila 11,8 milljarða króna, til félags sem síðar fór á hausinn með þeim afleiðingum að landið rataði í eigu Arion banka.
Einungis fimm árum áður en ÍAV seldi landið, eða árið 2003, höfðu helstu stjórnendur ÍAV keypt 40 prósent hlut íslenska ríkisins í ÍAV á einungis tæpa tvo milljarða króna.
Eigendur ÍAV greiddu ríkinu þannig einungis einn sjötta hluta af söluverði einnar af helstu eignum fyrirtækisins þegar þeir keyptu um 40 prósent hlut í því fimm árum áður. Morgunblaðið sagði frá þessu árið 2009.
Í dómsmáli sem var höfðað vegna útboðs ríkisins vegna sölu ÍAV, sem fór alla leið upp í Hæstarétt þar sem einkavæðingarferli félagsins var dæmt ólögmætt, sökuðu stefnendur eigendur ÍAV um að hafa vísvitandi vanmetið virði Blikastaðalandsins.
Samkvæmt því sem kemur fram í frétt Morgunblaðsins létu eigendur ÍAV endurmeta Blikastaðalandið eftir að þeir keyptu hlut ríkisins og var það þá metið á um þrjá milljarða króna. Í kjölfarið greiddu nýju eigendurnir sér 2,3 milljarða króna í uppsafnaðan arð. Sú arðgreiðsla var þannig hærri en upphæðin sem þeir greiddu fyrir allan hlut ríkisins ári áður.