Fjölmiðlafyrirtækið 365 og Filmflex hafa skrifað undir samkomulag um samstarf vegna viðskiptaréttinda félaganna tveggja, með samkomulaginu hafa bæði félög nú rétt til að bjóða viðskiptapakka hvors annars til viðskiptavina sinna. 365 getur nú boðið erlendar stöðvar, til að mynda Al-Jazeera News, Discovery Channel og fleiri stöðvar, til hótela, gistiheimila og gististaða sem bjóða viðskiptavinum sínum erlenda afþreyingu og Filmflex að sama skapi boðið enska boltann, meistaradeildina og Golfstöðina til veitingahúsa og sportbara. Frá þessu er greint á Vísir.is.
Filmflex er rétthafi á um 40 erlendra sjónvarpsstöðva hér á landi og 365 er með sýningarétt á ensku knattspyrnunni, meistaradeildinni, Formúlu 1 og fjölda risastórra golfmóta sem sýnd eru í sjónvarpi hér á landi, að því er fram kemur á Vísi.
„Þetta samstarf eykur framboð Filmflex til muna og styrkir okkur í þeirri sérhæfingu að bjóða eingöngu viðskiptaréttindi sjónvarpsstöðva. Nú bætast enski boltinn, meistaradeildin og Golfstöðin við flóruna og þá er vöruúrval okkar nærri fullkomnað,“ segir Hólmgeir Baldursson, forstöðumaður Filmflex, í samti við Vísi.
Hann segir að nú sé hægt að bjóða smærri gististöðum tímabundnar áskriftir með myndlyklum símafélaganna og því þurfi ekki lengur að setja upp móttökubúnað á hverjum stað.
„Það er ánægjulegt að með samstarfi við Filmflex séum við að gera hótelum og gististöðum möguleika að nálgast efni okkar á aðgengilegan og löglegan máta“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, í samtali við Vísi.