Kosningaþátttaka í síðustu alþingiskosningum, 25. september 2021, var mest á meðal kosningabærra einstaklinga sem hafa engan erlendan bakgrunn, 83 prósent, en minnst meðal innflytjenda, 42,1 prósent.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjum Hagtíðindum Hagstofunnar þar sem fjallað er um alþingiskosningarnar á síðasta ári. Hagstofa Íslands vinnur kosningaskýrslur eftir hverjar kosningar en þetta er í fyrsta sinn sem gerð er greining á bakgrunni þeirra sem taka þátt í alþingiskosningum, auk frambjóðenda.
Í alþingiskosningunum 25. september 2021 greiddu 203.898 atkvæði eða 80,1 prósent kjósenda, sem er lægri kosningaþátttaka en árið 2017 þegar hún var 81,2 prósent. Kosningaþátttaka kvenna var ívið meira en karla, 81,5 prósent samanborið við 78,7 prósent.
Nokkur breyting varð á fylgi stjórnmálasamtaka í alþingiskosningunum 2021 miðað við alþingiskosningar 2017. Framsóknarflokkur, Flokkur fólksins og Viðreisn bættu við fylgi sitt en fimm flokkar sem voru með þingmenn kjörna 2017 töpuðu fylgi, þ.e. Miðflokkurinn, Vinstrihreyfingin - grænt framboð, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar. Einn flokkur, Sósíalistaflokkur Íslands, var nálægt því að fá þingmenn kjörna 2021 en þau hlutu 4,1% fylgi.
Ríkisstjórnin hélt í síðustu kosningum og bætti við sig tveimur þingmönnum, þrátt fyrir að samanlagt heildarfylgi hennar hafi ekki vaxið mikið. Önnur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við í lok nóvember og hefur nú starfað í rúmt ár.
Kosningaþátttakan var breytileg eftir aldri og var hún minni á meðal yngri en eldri kjósenda. Kosningaþátttakan var mest hjá körlum á aldrinum 65-79 ára, þar sem hún var á bilinu 90,2-90,6 prósent og konum á aldrinum 60-74 ára þar sem hún var á bilinu 90,1-90,8 prósent.
Kosningaþátttaka mest hjá þeim sem hafa engan erlendan bakgrunn
Samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar er innflytjandi einstaklingur sem fæddur er erlendis og á foreldra, afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis.
Innflytjendur á Íslandi voru 52.541 talsins, eða 14,6 prósent af heildarmannfjölda, samkvæmt manntali ársins 2021. Alls bjuggu 24.160 erlendir ríkisborgarar í Reykjavík um síðustu áramót, eða rúmlega 44 prósent allra erlendra ríkisborgara sem skráðir eru til heimilis á Íslandi. Þeir eru nú tæplega 18 prósent allra íbúa höfuðborgarinnar en þar búa 36 prósent allra landsmanna.
Ef bakgrunnur kjósenda er skoðaður sést að kosningaþátttakan var mest á meðal kosningabærra einstaklinga sem engan erlendan bakgrunn hafa, eða 83,0 prósent. Næst mesta þátttaka var hjá þeim sem eru fæddir erlendis en báðir foreldrar fæddust á Íslandi, 76,1 prósent.
Kosningaþátttakan var 69,6 prósent hjá einstaklingum sem fæddir eru á Íslandi með annað foreldri sem fæddist erlendis og 55,3 prósent hjá þeim sem fæddir eru erlendis, með annað foreldri erlent.
Minnst var kosningaþátttakan hjá þeim sem fæddust á Íslandi en með báða foreldra sem fæddust erlendis, 49,2 prósent og, sem fyrr segir var þátttakan minnst meðal innflytjenda eða 42,1 prósent.
Innflytjendur 3,8 prósent frambjóðenda
Enginn innflytjandi á sæti á Alþingi en ef bakgrunnur frambjóðenda og kjörinna þingmanna í Alþingiskosningunum 2021 er skoðaður sést að innflytjendur voru 3,8 prósent frambjóðenda.
Enginn innflytjandi náði kjöri en 3,2 prósent varaþingmanna eru innflytjendur og hlutfallið er 1,6 prósent ef litið er til alþingis- og varaþingmanna.