Yfirvöld á Kúbu hafa látið alla 53 pólitísku bandarísku fangana lausa eins og þeir gengust við að gera í tímamótasamkomulagi sínu við Bandaríkin sem kynnt var fyrir jól. Þetta staðfesta bandarískir embættismenn við Reuters-fréttastofuna.
Samningur Kúbu og Bandaríkjanna sem kynntur var 17. desember síðastliðinn er upphaf aukinna samskipta og viðskipta landanna eftir meira en 50 ára viðskiptabann Bandaríkjanna við Kúbu. Lausn fanganna á Kúbu er sögð hafa sett jákvæðan tón fyrir viðræður embættismanna frá báðum löndum í næstu viku þar sem koma á samskiptum landanna í eðlilegt horf á ný.
Mikil leynd hefur ríkt um lausn fanganna og nöfn þeirra hafa enn ekki verið birt. Það hefur sett vatn á myllu efasemdamanna um nánari samskipti landanna og þeirra sem gagnrýnt hafa Bandaríkjastjórn fyrir að beita ekki nægum þrýstingi á Kúbu í mannréttindamálum.
Reuters hefur enn fremur eftir bandarísku embættismönnunum að forsetaembættið muni leggja þinginu til lista yfir alla þá fanga sem látnir hafa verið lausir og að það sé þingsins að ákveða hvort nöfn fanganna verði gerð opinber.
Bandaríkin hafa þegar látið þrjá kúbverska fanga lausa en þeir höfðu verið dæmdir fyrir njósnir í Bandaríkjunum. Þá hefur bandaríska hjálparstarfsmanninum Alan Gross verið sleppt úr haldi kúbverskra yfirvalda, en sá hafði verið fangelsaður fyrir njósnir.
Alan Gross hafði setið í kúbversku fangelsi í fimm ár þegar hann var látinn laus í desember síðastliðnum.