Eignir vogunarsjóðsins Burlington Loan Management, stærsta einstaka kröfuhafa fallina íslenskra banka, á Íslandi jukust um 70 prósent á árinu 2013. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem skilað var inn til írsku fyrirtækjaskráarinnar á þriðjudag, þann 26. ágúst.
Alls eru heildareignir sjóðsins bókfærðar á 4,1 milljarði dala,um 480 milljarða króna á gengi dagsins í dag. Þær jukust um rúm 50 prósent á milli ára. Þarna er um að ræða það fé sem Burlington hefur eytt í að kaupa eignir. Staðan tekur ekki tillit til hversu mikið eignirnar hafa hækkað að markaðsvirði síðan að þær voru keyptar. Sú virðisaukning er mikil en mun ekki raungerast fyrr en sjóðurinn selur eignirnar.
Í ársreikningnum kemur fram að 18 prósent eigna sjóðsins séu á Íslandi. Kaupverð þeirra eigna er samkvæmt þessu 87 milljarðar króna og umfang keyptra eigna Burlington á Íslandi því aukist um 70 prósent frá árinu 2012. Sjóðurinn á einungis meiri eignir í Bretlandi, en 34 prósent eigna hans eru þar. Hlutfallslega jukust umsvif Burlington langmest á Íslandi á síðasta ári.
Eiga gríðarlegar eignir á Íslandi
Markaðsvirði eigna Burlington á Íslandi er mun hærra en 87 milljarðar króna. Miðað við væntar endurheimtir í þrotabú Glitnis eru virði krafna Burlington í bú bankans, samkvæmt nýjustu upplýsingum Kjarnans um umfang þeirra, til að mynda að minnsta kosti vel á þriðja hundrað milljarð króna.
Eignir Burlington á Íslandi eru gríðarlegar. Hann er stærsti einstaki kröfuhafi Glitnis, á meðal stærstu kröfuhafa Kaupþings, á umtalsverðar kröfur í bú Landsbankans, er á meðal eiganda ALMC sem seldi 67 prósent hlut sinn í Straumi fjárfestingabanka í júlí síðastliðnum, á beint 13,4 prósent hlut í Klakka (sem á 23 prósent í VÍS og allt hlutafé í Lýsingu) og keypti 26 milljarða króna skuldir Lýsingar skömmu fyrir síðustu áramót. Auk þess hefur sjóðurinn verið að kaupa hluti í Bakkavör í Bretlandi af miklum móð, en þær eignir eru skráðar sem breskar þótt aðrir stórir eigendur séu að mestu íslenskir og rætur fyrirtækisins liggi hérlendis.
Þetta er örstutt brot úr ítarlegri umfjöllun Kjarnans um Burlington. Lestu umfjöllunina í heild sinni í nýjasta Kjarnanum.