Vefsíðan Humans of New York, sem hefur 15,3 milljónir fylgjenda á Facebook, er þessa dagana að birta frásagnir flóttamanna sem freista þess að hefja nýtt líf á nýjum stað, eftir flótta frá stríðshrjáðum svæðum, einkum Sýrlandi, Írak og Afganistan.
Margar frásagnir sem birst hafa á vefsíðunni eru átakanlegar, en spegla um leið ömurlegan veruleika fólks sem nú flýr í milljónatali stríðshrjáð svæði. Talið er að um 20 til 25 milljónir séu nú á flótta frá heimilum sínum, ýmist innan eða utan landamæra heimalanda sinna. Verst er ástandið í Sýrlandi þar sem um helmingur af ríflega 22 milljónum íbúa hefur flúið heimili sín vegna borgarstyrjaldarinnar í landinu. Að minnsta kosti 250 þúsund manns hafa látið lífið í Sýrlandi frá því hún hófst og meira en 800 þúsund slasast.
Í nýjustu frásögninni á vefnum lýsir ung kona því hvernig hún og maður hennar reyndu í örvæntingu að komast til Evrópu á þétthlöðnum báti, en samtals voru 152 um borð í bátnum. Margir vildu snúa við þegar þeir sáu hversu lítill báturinn var, en smyglarar sögðu þá að enginn gæti fengið endurgreitt ef hann hætti við förina. Þar sem þau höfðu fórnað aleiguna til þess að komast á leiðarenda, lögðu þau í hann með bátnum.
“My husband and I sold everything we had to afford the journey. We worked 15 hours a day in Turkey until we had enough...Posted by Humans of New York on Monday, September 28, 2015
Á leiðinni fórst báturinn, og fólk reyndi að synda í land. Eiginmaður konunnar örgmagnaðist á leiðinni og drukknaði, en björgunarbátur fann konuna í tæka tíð og bjargaði henni.
Frásagnir sem þessar eru tíðar af svæðinu við Miðjarðarhaf, þessa dagana, en nú dvelja um 300 þúsund manns í flóttamannabúðum í Grikklandi og Ítalíu. Þjóðir heimsins leita nú leiða til þess að efla neyðaraðstoð við flóttamenn en enn sem komið er hún órafjarri því að teljast fullnægjandi.