Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi og aðalritstjóri 365 miðla, skrifar leiðara í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni „Dagblað segir fréttir.“ Með skrifum sínum vill Kristín bregðast við viðbrögðum sem tvær nýlegar fréttir Fréttablaðsins hafa fengið.
Sú fyrri lýtur að fullyrðingum Guðjóns St. Marteinssonar héraðsdómara um að Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari hafi vitað af ættartengslum meðdómara Guðjóns í málinu við Ólaf Ólafsson, sem hlaut þungan fangelsisdóm í Al-Thani málinu, við aðalmeðferð Aurum-málsins. Fullyrðingar Guðjóns stangast á við ummæli sérstaks saksóknara sem segist ekki hafa verið kunnugt um ættartengslin og hefur farið fram á sýknudómur yfir sakborningum í Aurum-málinu verði ómerktur sökum þeirra. Krafa sérstaks saksóknara verður tekin fyrir í Hæstarétti í vikunni.
Eftir að Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að meina verjendum í Aurum-málinu að kalla dómara málsins í héraði til skýrslutöku til að verjast ómerkingarkröfu sérstaks saksóknara, skrifaði aðalritstjóri 365 leiðara í Fréttablaðið sem vakti mikla athygli. Þar skrifar Kristín: „Það er nauðsynlegt að upplýsa hvort sérstakur saksóknari laug þegar hann sagðist ekki hafa vitað um tengsl Sverris og Ólafs Ólafssona. Niðurstaða Hæstaréttar er óboðleg og má ekki vera endahnútur þessa máls. Nú taka fjölmiðlar við.“ Niðurlag leiðarans vakti óneitanlega athygli, enda Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar Pálmadóttur aðaleiganda 365, á meðal sakborninga í Aurum-málinu.
Vísar gagnrýni á bug
Þá bregst Kristín sömuleiðis við gagnrýni sem fram hefur komið á forsíðufrétt Fréttablaðsins í vikunni í leiðaranum sem birtist í dag, þar sem Ingibjörg Kristjánsdóttir eiginkona Ólafs Ólafssonar fullyrti að dómur Hæstaréttar yfir eiginmanni hennar væri byggður á misskilningi.
„Fréttablaðið tók enga afstöðu í þessu máli, frekar en öðrum, heldur vann frétt upp úr grein Ingibjargar, og reyndi eftir fremsta megni að afla gagna um hvort ávirðingar hennar væru á rökum reistar. Svo reyndist vera. Er það ekki frétt?“ spyr Kristín í leiðaranum.
Þá vísar Kristín í nýlegt bakherbergi Kjarnans í skrifum sínum, þar sem þeirri spurningu var velt upp hvort það væri réttarmorð þegar bankamenn væru dæmdir í fangelsi og sömuleiðis merkingu ummæla hennar um að „nú taki fjölmiðlar við“ í ljósi stöðu hennar og eignarhalds fjölmiðlasamsteypunnar sem hún stýrir.
„Ef farið er að leikreglum og vandað til verka þá er það auðvitað ekki réttarmorð,“ skrifar aðalritstjóri 365. „Fjölmiðlum ber skylda til að segja frá því þegar málsmeðferð eða framgöngu valdhafa í opinberum málum er ábótavant. Þess vegna er það frétt þegar héraðsdómari sakar saksóknara um lygar, og þegar í ljós kemur að Hæstiréttur hefur farið mannavilt. Í slíkum frásögnum felast engar ásakanir um réttarmorð. Fréttablaðið tekur enga afstöðu til þess, heldur gegnir því hlutverki sem fjölmiðlar eiga að gegna. Að segja fréttir og veita valdhöfum opinbers valds aðhald. Aðrir geta svo dregið sínar ályktanir.“
Þá skrifar Kristín: „Sumum er tamt að reyna að lesa sérstaka fyrirætlan eða tilgang úr fréttaflutningi. Þá er gjarnan rýnt í fortíð fólks. Hvar hefur það unnið, hverjir eru vinir þess, hvaða flokk kýs það? Morgunblaðið fellur í þessa gryfju. Margur heldur mig sig. Fréttablaðið getur fullvissað lesendur um að það er ekki á neinni slíkri vegferð. Það segir fréttir, allar fréttir ekki bara sumar, og reynir að hafa þær sannar, hlutlausar og upplýsandi.“