Framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina verða aukin um 6,1 milljarð króna frá því sem lagt var til í fjárlagafrumvarpinu sem var lagt fram í september. Um er að ræða rúmlega 20 prósent hækkun á framlögum til málaflokksins sem er hlutfallslega þriðja mesta hækkun allra málefnasviða milli umræðna um fjárlagafrumvarpið. Ástæðan er aðallega tvíþætt: aukning á endurgreiðslum til kvikmyndagerðar um fjóra milljarða króna vegna hækkunar á þeim í 35 prósent og hækkun á styrkjum til nýsköpunarfyrirtækja um 1,3 milljarð króna.
Með þessari aukning fara útgjöld ríkissjóðs til þessa málefnasviðs í heild í 34,3 milljarða króna og hækka um ellefu prósent frá því sem þau áttu að vera þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram í september.
Áætlaðir styrkir til nýsköpunarfyrirtækja hafa farið úr 1,3 milljarði króna í 13,8 milljarða króna á átta árum. Skatturinn hefur lýst yfir áhyggjum af því að fyrirtæki séu að svindla á styrkjakerfinu til að fá hærri styrki, en ekkert hefur verið gert til að mæta þeim áhyggjum hans. Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar, sem samanstendur af nefndarmönnum stjórnarflokkanna, segir þó að fjárlaganefnd stefni „að því að meta árangur og skilvirkni af auknum fjármunum á árinu 2023.“
True Detective kallar á milljarða úr ríkissjóði
Hið aukna framlag til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar er til komið vegna þess að sá 1,7 milljarður króna sem búið var að heita til þeirra dugir fjarri því til að hægt verði að standa við útgreiðslur á þeim vilyrðum sem áætluð eru á árinu 2023. Þess í stað verður heildarframlagið 5,7 milljarðar króna, eða rúmlega þrisvar sinnum það sem ríkisstjórnin áætlaði fyrir þremur mánuðum síðan.
Ástæða þessa er ákvörðun stjórnvalda að hækka endurgreiðslu vegna framleiðslukostnaðar kvikmyndaframleiðenda úr 25 í 35 prósent fyrir stærri verkefni. Ríkisstjórnin samþykkti frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um málið í maí og það var afgreitt sem lög frá Alþingi um miðjan júní. Innan kvikmyndageirans er almennt talið að framlagningu frumvarpsins hafi verið flýtt til að tryggja að framleiðsla á fjórðu þáttaröð True Detective færi fram hér á landi, en umfang þess er metið á níu til tíu milljarða króna. Ef efri mörk þess bils verður niðurstaðan munu 3,5 milljarðar króna af þeim 5,7 milljörðum sem ríkissjóður telur sig þurfa að greiða í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á næsta ári renna til bandaríska framleiðslufyrirtækisins HBO fyrir að taka upp þáttaröð hérlendis.
Í tilkynningu sem birtist á vef stjórnarráðsins í liðinni viku sagði að velta íslensks kvikmyndaiðnaðar hafi aukist um 85 prósent á síðustu fimm árum og nemi nú um 30 milljörðum króna á ársgrundvelli. Það sem af er þessu ári, fyrstu átta mánuði ársins, hafi veltan aukist um 2,9 milljarða króna eða um 25 prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Vel á fjórða þúsund einstaklinga starfi við kvikmyndagerð.
13,1 milljarður króna í endurgreiðslur vegna nýsköpunar
Þá þarf að sækja 1,3 milljarð króna til viðbótar við það sem áður var áætlað vegna uppfærslu á áætlun um styrki til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar.
Nýsköpunarverkefni sem hlotið hafa staðfestingu frá Rannís eiga rétt á sérstökum skattfrádrætti vegna rannsókna og þróunar. Með opinberum stuðningi er átt við skattfrádrátt og styrki frá opinberum aðilum, samanlagt. Njóti verkefnið opinberra styrkja hafa þeir áhrif á fjárhæð skattfrádráttar sem fæst endurgreiddur. Endurgreiðsluhlutfallið er 35 prósent í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en 25 prósent í tilviki stórra fyrirtækja. Hámark skattafrádráttar er 385 milljónir króna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og 275 milljónir króna hjá stórum fyrirtækjum.
Stuðningskerfi við nýsköpunarfyrirtæki er til skoðunar og úttektar af Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og er niðurstöðu hennar að vænta á árinu 2023.
Grunur um svindl
Endurgreiðslurnar hafa hækkað gríðarlega á skömmum tíma. Þær voru um 11,6 milljarðar króna í ár en 1,3 milljarður króna 2015. Þær hafa því aukist um 10,3 milljarða króna á sjö árum og gangi áætlanir fyrir næsta ár eftir munu þær hafa aukist um 11,8 milljarða króna á átta árum.
Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar segir að grundvallarbreytingar hafi verið gerðar í umhverfi nýsköpunar og með eflingu samkeppnissjóða sem hafi laðað fram mikla krafta sem byggja undir sókn til verðmætasköpunar og fjölgunar starfa. „Afar mikilvægt er að hefja vinnu við að meta árangur af auknum fjármunum og hvert við stefnum. Miklum vexti í málaflokknum fylgja vaxtarverkir sem nauðsynlegt er að leggja mat á. Fjárlaganefnd stefnir að því að meta árangur og skilvirkni af auknum fjármunum á árinu 2023.“
Kjarninn hefur greint frá því að Skatturinn hafi haft umtalsverðar áhyggjur af fyrirkomulagi endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar. Á meðal þeirra áhyggja sem settar voru fram í umsögn hans til Alþingis fyrir einu og hálfu ári síðan var að mikil þörf væri á eftirliti með útgreiðslu styrkjanna meðal annars vegna þess að „nokkur brögð hafa verið að því að við skattskil hafi almennur rekstrarkostnaður og kostnaður sem telja verður að tilheyri frekar eðlilegum endurbótum á fyrirliggjandi afurð sem viðkomandi fyrirtæki hefur tekjur af verið færður undir kostnað vegna staðfestra nýsköpunarverkefna.“
Þá eru ekki ákvæði í lögum sem heimila refsingar fyrir þá sem reyna að telja fram rangar upplýsingar til að fá meira fé úr ríkissjóði en tilefni var til. Að mati Skattsins var bent á að „misnotkun á þessum stuðningi með óréttmætum kostnaðarfærslum getur leitt til verulegra útgjalda af hálfu hins opinbera, í formi óréttmætra endurgreiðslna, auk þess að raska samkeppni á markaði.“
Kjarninn greindi frá því í nóvember að engar lagabreytingar hafi verið gerðar til að bregðast við þeim áhyggjum sem Skatturinn setti fram um fyrirkomulag endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar fyrir einu og hálfu ári síðan.