Norska ríkisstjórnin hefur kynnt áform um stórtæka uppbyggingu vindorkuvera á hafi úti, en til stendur að nærri tvöfalda orkuvinnslu landsins fram til ársins 2040 með byggingu um 1.500 vindmylla undan ströndum Noregs.
Markmiðið er eftir tæp 20 ár verði uppsett afl í vindorkuverum úti á hafi 30 GW (30.000 MW), ýmist botnföstum eða fljótandi. Það er um tífalt meira en samanlagt afl allra vatnsaflsvirkjana og orkuvera á Íslandi er í dag.
Stóran hluta orkunnar á að flytja úr landi með strengjum til annarra ríkja Evrópu samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ætlar Noregur því að gerast stórtækur útflytjandi endurnýjanlegrar raforku.
Í tilkynningu stjórnvalda segir að útflutningur raforkunnar sé í raun óumflýjanlegur, þar sem dreifikerfi raforku ráði engan veginn við þá stórauknu raforkuframleiðslu sem senn fer í hönd.
Fram að þessu höfðu norsk stjórnvöld þegar boðað að ráðist yrði í uppbyggingu vindorkuvera á hafi úti á tveimur svæðum í Norðursjó með heildar afl upp á 4,5 GW. Fyrsta áfanga þeirrar uppbyggingar á að bjóða út síðar á þessu ári.
Í tilkynningu stjórnvalda er haft eftir Jonas Gahr Støre forsætisráðherra að þessi áætlun stjórnvalda marki tímamót í iðnaðar- og orkusögu Noregs.
Stjórnarandstaðan ekki sannfærð
Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins NRK af málinu eru þó ekki allir sannfærðir um áætlunina sem ríkisstjórn Verkamannaflokksins og Miðflokksins kynntu í morgun. Talsmenn Græningja, Hægriflokksins og Sósíalíska vinstriflokksins slá fram efasemdum.
Græningjar settu það á oddinn í kosningabaráttunni í fyrra að fasa út olíu með því að setja upp vindmyllugarða á hafi úti með sama uppsetta afl og stjórnvöld segjast ætla sér nú, eða 30.000 MW, en Græningjar vildu að stefnt yrði að því marki fyrr eða fyrir árið 2030. Talsmaður flokksins segir við NRK að 2040 sé langt undan og að stjórnvöld ættu að setja fram skýr, töluleg markmið um þá uppbyggingu sem horft sé til fyrir árið 2030.
Sósíalíski vinstriflokkurinn segir að óljóst sé hvernig eigi að ná þessum markmiðum ríkisstjórnarinnar. „Þetta er of slappt,“ er haft eftir talsmanni flokksins í frétt NRK.
Nikolai Astrup þingmaður Hægriflokksins, sem var við völd í Noregi þar til í fyrra, segir að það sé gott að stjórnvöld hafi sett sér þessi markmið, þrátt fyrir að hraðinn í áætluninni sé of lítill.
„Það mikilvægasta er hvað stjórnvöld ætla að gera til að ná markmiðum sínum og það segja þau ekkert um,“ hefur NRK eftir Astrup.