Á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudag voru kynnt áform um skipun vinnuhóps um greiningu á arðsemi íslensku bankanna. Málið heyrir undir Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, en hún fer með málefni banka- samkeppnis- og neytendamála í ríkisstjórninni.
Samkvæmt heimildum Kjarnans á hópurinn, sem hefur enn ekki verið skipaður, að skoða þjónustu- og þóknanatekjur íslensku bankanna og bera þær saman við sambærilegar tekjur banka á hinum Norðurlöndunum. Búist er við því að starfshópurinn verði að störfum í nokkra mánuði.
Þjónustu- og þókanatekjur eru einn stærsti pósturinn í tekjum banka. Þar er um að ræða þóknanir fyrir t.d. eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf en líka ýmis gjöld sem bankarnir innheimta af þjónustu sem þeir veita heimilum og fyrirtækjum landsins.
Þessar tekjur uxu gríðarlega á síðasta ári. Hjá Landsbankanum fóru þær úr 7,6 í 9,5 milljarða króna og jukust því um 25 prósent milli ára. Þar skipti meðal annars máli að samningum um eignastýringu fjölgaði um fjórðung milli ára. Þjónustu- og þóknanatekjur Íslandsbanka hækkuðu um 22,1 prósent og voru samtals 12,9 milljarðar króna. Hreinar slíkar tekjur Arion jukust um 26,7 prósent og voru 14,7 milljarðar króna.
Samtals voru því hreinar þjónustu- og þóknanatekjur bankanna þriggja 37,1 milljarður króna.
Vill að Samkeppniseftirlitið skoði hegðun bankanna
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, fjallaði um þessi mál í grein sem hann skrifaði í Vísbendingu í mars síðastliðnum.
Þar sagði hann fákeppni ríkja í flestum atvinnugreinum á Íslandi, vegna smæðar hagkerfisins og fyrirkomulags gengismála. Af þeirri fákeppni skapast renta sem eykur ráðstöfunartekjur þeirra sem ráða yfir fákeppnisfyrirtækjunum og skekkir smám saman dreifingu eigna.
Í því samhengi nefndi Gylfi greiðslumiðlun, en samkvæmt honum skiptir miklu máli fyrir lífskjör Íslendinga að til sé ódýr innlend leið til að miðla greiðslum. Til þess að svo megi verða sagði Gylfi að stjórnvöld þurfi þá að koma slíkri greiðslumiðlun á fót eða ákvarða hvaða verð fjármálafyrirtæki megi rukka fyrir hana. Reynist það ómögulegt ætti að hafa beint eftirlit með miðluninni líkt og tíðkast í öðrum löndum.
Gylfi sagði einnig að mikill hagnaður bankanna í fyrra veki athygli, sem hefði verið mun minni ef ríkisstjórnin hefði ekki styrkt fyrirtæki í ferðaþjónustu og tengdum greinum. „En þá er varla sjálfsagt að eigendur bankanna haldi veislu í lok farsóttar með arðgreiðslum vegna góðs gengis á tímum þegar samfélagið var lamað.“
Á sama tíma og arðsemi bankanna hafi verið mikil hafi þeir einnig lækkað rekstrarkostnað sinn með því að skera niður í starfsemi útibúanna sinna og með því að fækka starfsfólki. „En hvar liggur ábatinn af minni kostnaði bankanna? Hefur vaxtamunur verið minnkaður eða þjónustugjöld lækuð? [...] Full ástæða er fyrir Samkeppniseftirlit að rannsaka hegðun bankanna eins og eftirlitið fór ofan í saumana á rekstri olíufélaganna fyrir nokkrum árum.“