Drífa Snædal, forseti ASÍ, áréttar í vikulegum pistli sínum að víst sé „nóg til“ en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sett spurningarmerki við slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til“ og vísað þeirri fullyrðingu á bug.
Bjarni var gestur markaðarins á Hringbraut þann 12. maí síðastliðinn en í því viðtali sagðist hann sjá í fjármálaráðuneytinu að það væri alls ekki nóg til. „Það vantar 300 milljarða á ári, til þess að það sé nóg til. Til þess að það verði nóg til þá þarf að auka umsvifin og passa upp á að það verði til verðmæt störf.“ Sagði hann á að til að hagvöxtur yrði á ný væri mikilvægt að halda rétt á spöðunum í efnahagsmálum.
„Áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur þessa lands fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til” legg ég til þessi viðbrögð í staðinn: Að innleiða skyldu á fyrirtæki um að greina frá launabili innan fyrirtækja og setja sér stefnu um ásættanlegt launabil. Enn fremur að lækka ofurlaun og taka á bónusum og ofurarðgreiðslum. Að sama skapi þarf fjármálaráðherra að svara því af hverju verið er að lækka gjöld á þá sem eru aflögufærir (fjármagnstekjuskatt, hlutabréfakaupendur, atvinnurekendur í gegnum tryggingargjald hvort sem þeir þurfa aðstoð eða ekki o.s.frv.) á meðan ríkissjóður er rekinn með tapi,“ skrifar Drífa.
„Veiking skattrannsókna er svo kapítuli út af fyrir sig þegar skattaundanskot eru metin af fjármálaráðuneytinu á 3 til 7 prósent af landsframleiðslu. Það má líka vinda ofan af markaðsvæðingu húsnæðismarkaðarins þannig að fólk hafi í raun möguleika á öryggi í sínu daglega lífi óháð tekjum. Krafan um mannsæmandi laun er krafan um öryggi, sanngirni og lífsgæði,“ heldur hún áfram.
Spyr hún jafnframt til hvers ráðamenn séu ef ekki til að skilja þetta grundvallaratriði í lífi almennings. „Ef ráðamenn og atvinnurekendur vilja fleiri góð ráð er af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há.“