Notkun slævandi lyfja og svefnlyfja, melatóníns, þunglyndislyfja og örvandi lyfja hefur aukist hér á landi síðustu tíu ár, á meðan dregið hefur úr notkun róandi og kvíðastillandi lyfja, ef mið er tekið af afgreiðslu lyfja. Þetta er meðal þess sem fram kemur í fyrirspurn Evu Sjafnar Helgadóttur, varaþingmanns Pírata, til heilbrigðisráðherra um notkun geðlyfja.
Í svarinu eru gefnar upp tölur um fjölda notenda á hverja 1.000 íbúa. Þannig voru 117,5 af hverjum 1.000 íbúum afgreidd þunglyndislyf árið 2012 en árið 2021 fengu 162,5 af hverjum 1.000 íbúum þunglyndislyf. Fjölgunin nemur því 38,3 prósentum.
Konur fá þunglyndislyf afgreidd í ríkara mæli og fjölgaði afgreiðslum úr 150 á hverja 1.000 íbúa í 213,3 frá 2012 og nemur fjölgunin 42,2 prósentum. Fjölgunin hjá körlum er 33,9 prósent, úr 85,2 afgreiðslum á hverja 1.000 íbúa árið 2012 í 114,1 afgreiðslur á hverja 1.000 íbúa í fyrra.
Afgreiðslu örvandi lyfja fjölgað mest hjá 40-66 ára
Fjölgun afgreiðslna örvandi lyfja, svo sem ADHD-lyfja, fór á sama tíma úr 19,1 skammti á hverja 1.000 íbúa í 50,4 skammta. Afgreiðslum fjölgaði í öllum aldurshópum, þó minnst hjá yngsta aldurhópnum, 0-17 ára, en mest hjá næstelsta aldurshópnum, 40-66 ára. Árið 2021 fengu 78,7 af hverjum 1.000 börnum á aldrinum 0–17 ára afgreidd örvandi lyf, samanborið við 35,9 af hverjum 1.000 börnum árið 2012.
Afgreiðslum örvandi lyfja fjölgaði enn frekar í aldurshópunum þar fyrir ofan. Árið 2021 fengu 65,6 af hverjum 1.000 íbúum á aldrinum 18-39 ára afgreidd örvandi lyf, rúmlega þrefalt fleiri en árið 2012 þegar 21,3 af hverjum 1.000 íbúum á sama aldri fengu afgreidd örvandi lyf. Fjölgunin er enn meiri, hlutfallslega, í aldurshópnum 40-66 ára. Árið 2012 fengu 9,5 af hverjum 1.000 íbúum afgreidd örvandi lyf en í fyrra var fjöldinn kominn upp í 34,3 af hverjum 1.000 íbúum.
Ekki haldið utan um samfellda notkun einstaklinga á geðlyfjum
Eva Sjöfn spurði einnig hversu lengi viðkomandi einstaklingar hafa notað tiltekin geðlyf að meðaltali. Í svari heilbrigðisráðherra kemur fram að ekki er haldið sérstaklega utan um þess konar upplýsingar í lyfjagagnagrunni hjá Embætti landlæknis, heldur er farin sú leið að reikna meðalfjölda skilgreindra dagskammta á hvern notanda á ári fyrir tiltekinn lyfjaflokk.
Skilgreindur dagskammtur lyfs, DDD (e. Defined Daily Dose), er ætlaður meðaltals daglegur viðhaldsskammtur við helstu ábendingu hjá fullorðnum. Þannig má ætla að 1 skilgreindur dagskammtur lyfs samsvari einum degi í notkun af tilteknu lyfi.
Árið 2012 var meðalfjöldi dagskammta á hvern notanda af róandi og kvíðastillandi lyfjum 114,1 en árið 2021 var meðalfjöldi dagskammta á hvern notanda 99,8. Í öllum öðrum flokkum hefur afgreiðslum fjölgað milli ára.
Árið 2012 var meðalfjöldi dagskammta á hvern notanda af slævandi lyfjum og svefnlyfjum 231,9 en árið 2021 var meðalfjöldi dagskammta 255,3. Fjölgun á ávísunum á melatónín fór úr 158,6 dagskömmtum á hvern notanda árið 2012 í 269,7. Í svari ráðherra er vakin athygli á því að melatónín er frábrugðið öðrum svefnlyfjum að því leyti að það er ekki ávanabindandi.
Meðalfjöldi dagskammta þunglyndislyfja fjölgaði úr 327 árið 2012 í 365,6 árið 2021, eða um 11,8 prósent. Meðalfjölda dagskammta örvandi lyfja fjölgaði á sama tíma um 3,6 prósent, úr 364,7 skömmtum í 378.