„Að mínu mati er því rétt að líta ekki á þau verkefni sem nú er staðið frammi fyrir vegna dýrra samgönguframkvæmda og orkuskipta í samgöngum sem vandamál. Þetta er einstakt tækifæri til að bæta nýtingu, ekki bara á mannvirkjum heldur líka tíma manna, draga úr mengun og jafnvel hvetja til hollara lífernis. Það væri hins vegar afleitt að ætla bara að fara að innheimta vegtolla þar sem það virðist líklegast til að skila einhverju fé eða miklu hefur verið tilkostað. Það er vond nálgun á viðfangsefnið.“
Þetta segir Gylfi Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í grein í síðasta tölublaði Vísbendingar þar sem hann fjallar um hvernig eigi að kosta framkvæmdir og rekstur vegakerfis landsmanna.
Hann bendir þar á að kostnaður samfélagsins af því að umferð fari um ný og fín jarðgöng sé ekkert afskaplega mikill, og að minnsta kosti ekki meiri en af því að sama umferð aki hefðbundna þjóðvegi. Stofnkostnaðurinn sé vissulega miklu meiri en hann sé þegar fallinn til og verður ekki endurheimtur.
Það sé eðlilega freistandi að nota vegtolla til að endurheimta þann stofnkostnað. „Það er hægt og það skilar pening í ríkissjóð. Ökumenn sýna gjöldunum einhvern skilning ef mannvirkið er glænýtt. En séu aðrar og hagkvæmari leiðir til þess að afla nauðsynlegs fjár í ríkissjóð þá á að nýta þær frekar.“
Þarf að horfa til áhrifa á markaði og þjóðfélagshópa
Gylfi segir að almennt ætti fjáröflun ríkissjóðs að byggja á öðrum sjónarmiðum en hvað skattheimtumenn komist upp með. „Það ætti að horfa til áhrifa á markaði og einstaka þjóðfélagshópa, kostnaðar við innheimtu o.fl. Ef lagt væri í slíka vinnu fyrir fjáröflun til vegakerfisins þá tel ég næsta víst að niðurstaðan yrði blanda af almennum notkunargjöldum, gjöldum til stýringar á umferð og mengunargjöldum. Það gæti ekki bara skilað nægu fé í ríkissjóð heldur einnig bætt nýtingu samgöngumannvirkja, dregið úr töfum án þess þó að kalla á endalausar nýframkvæmdir, sparað vegfarendum tíma og peninga og bætt umhverfið.“
Dugar skammt að líta á Víkurskarðið sem ríkisleyndarmál
Þetta skipti þó litlu máli í næstu tilraun til innheimtu vegtolla, sem fer fram í Vaðlaheiðargöngum sem voru vígð í lok árs 2018. „Þar er vegstyttingin miklu minni en í Hvalfjarðargöngunum og því freistandi að aka tignarlegt Víkurskarðið til að spara sér vegtollinn og sleppa við að kúldrast í dimmum göngum, nema þá auðvitað helst í illviðrum enda getur skarðið orðið ill- eða jafnvel ófært að vetri.
Það er afleitt fyrirkomulag að innheimta vegtoll við slíkar aðstæður. Raunar er Vaðlaheiði kennslubókardæmi um hvar ætti ekki að innheimta vegtolla – nema kannski ef líka hefði verið innheimtur vegtollur í Víkurskarði eða því jafnvel lokað.“
Það dugi skammt að líta á leiðina fram hjá vegtollinum í Vaðlaheiðargöngunum sem ríkisleyndarmál og banna skiltagerðarfólki að minnast nokkurs staðar á hana. „Þeir sem eru kunnugir staðháttum vita af henni og auðvitað líka snillingarnir hjá Google maps, sem gefa ökumönnum upp leiðir með og án vegtolla í óþökk Vaðlaheiðarvegagangatollinnheimtumanna.“
Hægt að beita vegtollum til að draga úr umferð á höfuðborgarsvæðinu
Frá hagrænu sjónarhorni sé mjög óheppilegt að vegtollar beini ökumönnum á leiðir sem væru dýrari án vegtollsins. Stundum sé vegtollum beinlínis beitt til að draga úr. „Það mætti t.d. gera á höfuðborgarsvæðinu með vegtollum á stofnbrautir sem anna illa álagi á tilteknum tíma dags eins og Hringbraut eða Miklubraut snemma á morgna og síðdegis.“
Slík gjaldheimta sé þó ekki gallalaus. „T.d. gæti vegtollur á Hringbraut beint umferð inn í hjáleiðir um íbúðahverfi sem væri afleitt. Sömuleiðis er allt eins víst að fyrirhugaður vegtollur um nýja Ölfusárbrú fyrir norðan Selfoss mun beina umferð í verulegum mæli yfir á gömlu brúna og þar með í gegnum bæinn. Til að koma í veg fyrir það væri þó hægt að innheimta vegtolla á báðum brúnum. Það væri kannski einfalt að útskýra fyrir hagfræðingum en líklega erfiðara að útskýra fyrir öðrum kjósendum. Svo mætti líka sprengja gömlu brúna í tætlur en það yrði enn erfiðara að útskýra fyrir öðrum en hagfræðingum.“
Málið vel leysanlegt og ýmsar útfærslur koma til greina
Málið sé þó vel leysanlegt. „Sé ekki ætlunin að nota vegtolla til að stýra umferð er einfaldast að rukka í hlutfalli við ekna vegalengd á ári. Ýmsar útfærslur koma til greina. Ég ætla ekki að reyna að rekja þær allar hér og kosti þeirra og galla. Sú einfaldasta er jafnt gjald á km fyrir alla. Það er nær örugglega ekki besta leiðin, m.a. vegna þess að bílar valda mismunandi álagi á vegakerfið eftir þyngd. Það væri hins vegar ekki flókið að raða bílum í gjaldflokka eftir þyngd. Þungaflutningabílar myndu þá t.d. borga miklu meira fyrir hvern km en léttir fólksbílar. Gjöld á eldsneyti gætu þá verið lækkuð eitthvað á móti, jafnvel fyrst og fremst orðið mengunargjöld til að endurspegla þann samfélagslega kostnað sem fylgir bruna á eldsneyti. Það væri í raun pólitísk ákvörðun hvernig ætti að stilla af annars vegar skattlagningu á eldsneyti og hins vegar gjöld fyrir ekinn km.“
Gylfi bendir á að Sigurður Ingi Friðleifsson hjá Orkustofnun hafi áætlað að hægt væri að lækka álögur ríkisins á eldsneyti um 79 krónur á lítrann ef lagt yrði á kílómetragjald upp á sex krónur á kílómetra, bæði á þá bíla sem brenna eldsneyti og aðra. „Rafmagnsbílar yrðu eftir sem áður mun ódýrari í akstri en eldsneytisbílar, þótt minna mundi muna en nú. Þótt slíkt kerfi væri einfalt og varla miklu dýrara í rekstri en núverandi gjaldheimta þá væri slæmt að nýta það ekki jafnframt til að stýra umferð, sérstaklega í þéttbýli. Líklega væri hægt að eyða flestum umferðarhnútum á höfuðborgarsvæðinu með skynsamlegri verðlagningu. Hún gæti bæði fært umferð einkabíla til í tíma og rúmi og búið til eðlilega hvata til að nota aðrar samgönguleiðir þar sem það er samfélagslega hagkvæmt. Það væri t.d. ekkert óskaplega flókin viðbót við þau GPS leiðsögukerfi sem margir nota nú þegar að láta þau ráðleggja fólki hvar og hvenær væri hagkvæmast að ferðast að teknu tilliti til vegtolla.“
Hægt er að lesa grein Gylfa í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.