Gyðingasöfnuðurinn á Íslandi fagnar nýju frumvarpi um breytingu á almennum hegningarlögum sem bannar afneitun helfararinnar. Þetta kemur fram í umsögn safnaðarins við frumvarpið sem rabbíninn Avraham Feldman sendir til Alþingis fyrir hönd safnaðarins. Avraham segist vera ánægður með lagabreytingartillöguna, honum finnist hún mikilvæg og hann styðji hana heilshugar.
Í umsögninni er afneitun helfararinnar sögð vera hatursorðræða sem geti leitt til upprisu og framgangs nasisma. Það sé á ábyrgð alls mannkyns að tryggja það að rasismi og hatur fái ekki þrifist í samfélaginu. Því megi ná fram með aukinni menntun og fræðslu auk þess sem gefa þurfi fjölbreytni og umburðarlyndi hátt undir höfði. Þá sé mikilvægt að stöðva nasisma um leið og vart verður við hann.
Sekt eða fangelsisvist í allt að tvö ár.
Með frumvarpinu er lagt til að ný grein fari inn í almenn hegningarlög og er greinin á þessa leið: „Hver sá sem opinberlega afneitar, gróflega gerir lítið úr, eða reynir að réttlæta eða samþykkja þjóðarmorð sem framin voru á vegum þýska nasistaflokksins í síðari heimsstyrjöldinni skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“
Frumvarpið var lagt fram í janúar af þingflokki Samfylkingar, Andrési Inga Jónssyni, þingmanni Pírata sem þá var utan flokka, og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, þingkonu Viðreisnar. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Takmörkun tjáningarfrelsisins standist stjórnarskrá
Sérstaklega er vikið að tjáningarfrelsinu í greinargerð frumvarpsins og rök færð fyrir því hvers vegna sú takmörkun á tjáningarfrelsinu sem fólgin er í frumvarpinu standist stjórnarskrá. Í fyrsta lagi er sagt að frumvarpið fullnægi lagaáskilnaði þriðju málsgreinar 73. greinar stjórnarskrárinnar til að takmarka tjáningarfrelsið. Í þeirri málsgrein er að finna þrjú skilyrði fyrir því að tjáningarfrelsinu séu settar skorður: „Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“
Þá er í greinargerðinni sagt að frumvarpið hafi þann tilgang að vernda réttindi eða mannorð annarra, sem er eitt af skilyrðunum sem minnst var á áður, þar sem frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir að brotið sé gegn æru og mannorði þeirra sem urðu fyrir glæpum helfararinnar. Einnig er sagt að takmörkunin samræmist lýðræðishefðum því hún felur í sér bann við því að afneita opinberlega einna verstu glæpum sem framdir hafa verið gegn mannkyni, eins og segir í greinargerð. Nauðsynlegt sé að „standa vörð um sögu þessara hörmunga sem áttu sér stað á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og koma í veg fyrir að unnt verði að grafa undan henni, gera lítið úr, rangfæra eða falsa svo að slíkir atburðir endurtaki sig aldrei.“
Refsivert að afneita helförinni í fjölmörgum Evrópuríkjum
Vísað er í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Pastörs gegn Þýskalandi frá árinu 2019 í greinargerðinni. Pastörs dró í efa tilvist helfararinnar í ræðu sem hann flutti árið 2010 en hann var þingmaður í Þýskalandi. Pastörs var í kjölfarið dæmdir í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa brotið gegn þýskum hegningarlögum með tjáningu sinni. Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að bann við tjáningu Pastörs samræmdist mannréttindasáttmála Evrópu.
„Mannréttindadómstóll Evrópu taldi fullyrðingar hans fela í sér vanvirðingu gagnvart fórnarlömbum helfararinnar. Í dóminum kom meðal annars fram að Pastörs hefði viljandi haft í frammi ósannindi til að varpa rýrð á gyðinga og þær ofsóknir sem þeir urðu fyrir í seinni heimsstyrjöldinni. Jafnframt taldi Mannréttindadómstóllinn að með sakfellingunni hefðu viðbrögð þýskra yfirvalda verið í samræmi við meðalhóf og ekki farið í bága við áskilnað um að þau væru nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi,“ segir í greinargerð.
Þá eru þar talin upp þau Evrópuríki sem hafa gert það refsivert að afneita eða réttlæta helförina, þjóðarmorð eða stríðsglæpi. Það eru Austurríki, Belgía, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Ísrael, Liechtenstein, Litáen, Lúxemborg, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Rússland, Slóvakía, Spánn, Sviss, Tékkland, Ungverjaland, Úkraína og Þýskaland.
Ein umsögn um frumvarpið svert
Áður hefur verið fjallað um umsögn sem barst um frumvarpið sem er á „Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, ritskoðunardeild“ en umsögnin er öll svert. Í svari Rögnu Árnadóttur við fyrirspurn Kjarnans um ástæður þess að umsögnin sé svert kemur fram að umsögnin sé birt eins og hún barst Alþingi. Hún hefur því verið send inn yfirstrikuð.
Í frétt RÚV frá því fyrr í þessum mánuði segir að umsögn um svipað efni hafi verið fjarlægð af vef Alþingis í desember. Sú umsögn var send inn við þingsályktunartillögu um sérstakan minningardag um fórnarlömb helfararinnar. Lagaskrifstofa Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að útiloka að í umsögninni fælist hatursorðræða. Því var lagt til að Alþingi birti ekki þá umsögn enda bannað með lögum að breiða út hatursorðræðu.