Ef vindorkuver Zephyr Iceland verður reist á Brekkukambi í Hvalfjarðarsveit mun það gjörbreyta útsýni gesta sjóbaða Skúla Mogensen í Hvammsvík. Hann er vægast sagt ósáttur við áformin. Í umsögn sem lögmaður sendir fyrir hans hönd segir að matsáætlun Zephyr um framkvæmdina sé haldin „stórkostlegum annmörkum“. Í henni sé farið vítt og breitt yfir ýmis atriði sem varða áformað vindorkuver en „forðast að snerta á kjarna málsins“. Hann er sá að mati Skúla að áformin einkennist af „einhvers konar firringu“.
Þeta megi ráða t.d. af því að ætlunin sé að byggja orkuverið á 647 metra háu fjalli, að hver vindmylla verði svo um 250 metrar á hæð sem samsvarar 3,3 Hallgrímskirkjuturnum. Þær munu því teygja sig í um 900 metra hæð yfir sjávarmáli. „Ætlunin er að gera þetta rétt hjá höfuðborgarsvæðinu og í námunda við helstu útivistarsvæði borgarbúa og öll þau helstu svæði sem ferðamenn leita helst til.“
Umhverfismat Zephyr Iceland á vindorkuveri í landi bæjarins Brekku í Hvalfjarðarsveit hófst í sumar með kynningu á matsáætlun sem auglýst var á vef Skipulagsstofnunar. Verið myndi telja 8-12 vindmyllur, verða 50 MW að afli, og vegna hæðar sinnar yfir sjávarmáli blasa við víða að – allt frá sveitinni sem það yrði byggt í upp á Langjökul og Skjaldbreið.
Tugir íbúa og sumarhúsaeigenda í nágrenninu sendu inn athugasemdir um matsáætlunina og gagnrýna þeir allir fyrirætlanir Zephyr harðlega líkt og Kjarninn hefur fjallað ítarlega um. Verið er aðeins eitt af mörgum sem fyrirtækið áformar á Íslandi. Zephyr Iceland er í meirihluta eigu norska fyrirtækisins Zephyr AS.
Lögmaður Skúla segir hann hafa fjárfest verulega í vistvænni ferðaþjónustu í Hvammsvík og að hann yrði „óþyrmilega fyrir barðinu á því ef þessi áform myndu raungerast“. Tilvist versins myndi orka sem „stórkostlegur hemill“ á fjárfestingu í ferðaþjónustu í Hvalfirði og víðar enda myndi sjást til vindmyllanna frá Húsafelli, lengst innan úr Norðurárdal, frá Langjökli, Þórisjökli, frá Skjaldbreið, frá Gjástykki við Þingvelli og ofan af Mosfellsheiði.
„Í þessu myndi felast ómældur skaði, langt umfram ávinning af framkvæmdum, sem framkvæmdaaðilar virðast ekki leggja raunhæft mat á með nokkrum hætti,“ segir í umsögninni.
Þá séu ótalin ýmis önnur umhverfisáhrif sem hljótast myndu af vindorkuverinu. Þekkt sé að vistkerfi og víðerni landsins eru mun viðkvæmari fyrir hvers kyns raski eftir því sem leitað er hærra yfir sjávarmál. „Sætir samkvæmt þessu furðu að engir aðrir valkostir séu teknir til skoðunar en sá sem kynntur er og hann borinn saman við svonefndan „núllkost“.“ Fjölmargir aðrir valkostir hljóti að vera til staðar en að byggja vindorkuver á toppi Brekkukambs.