Frá og með 15. júní mega 300 manns koma saman í stað 150 manns áður og tveggja metra reglan breytist í eins meintra reglu. Á sitjandi viðburðum eins og íþróttaviðburðum og leikhússýningum verður hins vegar engin nándarregla lengur, en öllum verður áfram skylt að bera grímu.
Opnunartími veitingastaða lengist um klukkustund og mega staðir nú hleypa gestum inn til miðnættis, en þurfa að vísa þeim út kl. 1.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið þessar breytingar á reglugerð um samkomutakmarkanir, en breytingarnar eru í samræmi við tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, samkvæmt því sem segir í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.
Þessar reglur eiga að gilda til 29. júní næstkomandi, en samkvæmt því sem ríkisstjórnin boðaði í afléttingaráætlun sinni á vordögum var stefnt að því að aflétta öllum sóttvarnaráðstöfunum innanlands seinni part júní.
Nokkuð í land að góðu hjarðónæmi yngri hópa
Þórólfur segir í minnisblaði sínu að „allt útlit“ sé fyrir að það verði hægt að aflétta aðgerðum frekar undir lok mánaðarins. En hann er líka á því að fara þurfi hægt í afléttingar þangað til búið verður að bólusetja enn fleiri landsmenn.
Nærri 200 þúsund manns hafa nú fengið a.m.k. eina bóluefnasprautu og rúmlega hundrað þúsund manns eru þegar fullbólusett. Rúmlega 90 prósent þeirra sem eru 50 ára og eldri hafa fengið a.m.k. eina sprautu en tæplega 50 prósent þeirra sem eru yngri en 50 ára.
Þórólfur sóttvarnalæknir segir í minnisblaði sínu að enn sé „nokkuð í land með að góðu hjarðónæmi verði náð meðal yngri einstaklinga“ en að útlit sé fyrir að 410 þúsund skammtar af bóluefni muni hafa borist hingað til lands fyrir lok júní, sem ætti að duga fyrir fullri bólusetningu 220 þúsund manns. Það væru um 60 prósent þjóðarinnar í heild.
Í minnisblaði Þórólfs segir að það þurfi að fara rólega í afléttingar á sóttvarnaaðgerðum innanlands þar til hærra hlutfall yngra fólks hefur verið bólusett – og bent er á að það taki um þrjár vikur að fá góða vernd eftir fyrstu bólusetningu.
Þórólfur segist telja mikilvægara að slaka á nándarreglunni en að auka mjög þann fjölda sem má koma saman. Hann lýsir í minnisblaðinu yfir nokkrum áhyggjum af bæði svokölluðum bresku og indverskum afbrigðum kórónuveirunnar og nefnir sérstaklega að það indverska „virðist vera að valda nýjum bylgjum víða“ eins og sjáist á fréttum frá Bretlandi.
„Mikil tilslökun á fjöldatakmörkunum getur gefið þau röngu skilaboð út í samfélagið að faraldrinum sé lokið og það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér hvað varðar útbreiðslu COVID-19,“ segir Þórólfur í minnisblaði sínu.