Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu um að banna viðskiptahætti DV þegar dagblaðið auglýsti „frían“ iPad með áskrift að blaðinu. Aðeins stjórnvaldssekt að upphæð 300.000 krónur var felld niður í meðförum áfrýjunarnefndarinnar.
Áskrift að DV var 334,9 prósent dýrari en raðgreiðslur af iPad fyrstu þrjá mánuðina en 167,5 prósent restina af 36 mánaða binditímanum. Í úrskurði Neytendastofu sagði að „á grundvelli fyrrilggjandi gagna verði ekki annað ályktað en að kostnaður vegna iPad spjaldtölvunnar í áskriftarleið DV sé innifalinn í verði áskriftar.“
DV ehf. kærði ákvörðun Neytendastofu frá því í lok apríl um að banna auglýsingarnar. Neytendastofa taldi auglýsingarnar klárt brot gegn lögum um viðskiptahætti og markaðssetningu þar sem kveðið er á um að fullyrðingar auglýsinga þurfi að vera réttmætar undir öllum kringumstæðum. Auglýsingar um að iPad fylgi „frítt“ með áskrift og „í kaupbæti“ þóttu ekki uppfylla skilyrði lagana. Í kærunni fór DV fram á að ákvörðun Neytendastofu yrði felld úr gildi eða til vara að stjórnvaldsektin yrði lækkuð verulega. Hér að neðan má sjá eina af fjölmörgum auglýsingum DV þar sem iPad var auglýstur „í kaupbæti“ eða „frítt“.
Ef þú gerist áskrifandi að DV færðu glænýjan iPad í kaupbæti! Sjáðu meira hér: https://stage.dv.is/ipad/Posted by DV.is on 8. apríl 2015
Áfrýjunarnefnd neytendamála bendir á það í úrskurði sínum að ástæða bannsins hafi verið vegna þess að áskriftarverð sé eins hvort maður velji sér iPad eða ekki. Nefndin vísar svo í lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og regluegerð um viðskiptahætti til að sýna fram á að vörulýsingar með orðunum „ókeypis“, „frítt“, „án endurgjalds“ eða ámóta orðalagi séu óréttmætar þurfi neytandinn að greiða eitthvað annað en óhjákvæmilegan kostnað.
Lesa má úrskurð áfrýjunarnefndarinnar í heild sinni á vef Neytendastofu. Þar kemur fram að DV hafi ekki nýtt tíu daga frest til að svara athugasemdum Neytendastofu. Annað bréf var sent DV 14. apríl og þar farið fram á skýringar á því hvers vegna auglýsingum á vef DV hefði verið breytt þannig að í stað orðsins „frítt“ stæði nú „í kaupbæti“. Samkvæmt skilningi Neytendastofu félli breytt orðalag undir sama hatt. Enn barst ekkert svar frá DV svo ákvörðun var tekin 20. apríl að banna viðskiptahætti blaðsins.
Í kæru DV á banninu og stjórnvaldsektinni ber blaðið því við að Neytendastofa sé að bera saman tvær mismunandi áskriftarleiðir. DV hafi fallist á að orðanotkunin „frítt“ kunni að stangast á við lög en er ósammála því að „í kaupbæti“ sé ekki heldur í samræmi við lög. Þeir útreikningar sem Neytendastofa hafi lagt fram séu marklausir enda sé verið að bera saman verð á DV í prentuðu formi við verð fyrir aðgengi að DV á vefnum.
Úrskurður áfrýjunarnefndarinnar er hins vegar sá að DV hafi brotið gegn lögum um viðskiptahætti með því að auglýsa frían iPad. Stjórnvaldssektin er felld úr gildi með vísan til rökstuðnings DV um að tvær mismunandi áskriftarleiðir hafi verið bornar saman.