Dauða fiska og fugla tók að reka á fjörur við Santa Barbara í Kaliforníu um helgina. Hreinsunarstarf hófst þegar í stað enda ljóst að leki hafði komist að olíuleiðslu úti fyrir ströndinni og að hann var mikill. Nú er talið að í það minnsta 600 þúsund lítrar af hráolíu hafi farið í Kyrrahafið og að áhrifin á hið viðkvæma lífríki þess og votlendi strandarinnar eigi eftir að verða mikil.
Lekinn hefur orðið til þess að vekja enn eitt ákallið um að olíuvinnslu úti fyrir Kaliforníu verið hætt. Leiðslan sem um ræðir flytur hráolíu sem unnin er á borpalli fyrirtækisins Amplify Energy í Long Beach. Þrátt fyrir að olíu- og gasverð hafi hækkað síðustu misseri er fyrirtækið í kröggum enda vinnsla á þessum slóðum ekki talin arðbær til framtíðar. Hlutabréf í fyrirtækinu hrundu svo hratt við tíðindin og lækkuðu um 44 prósent í miklum viðskiptum í gær, mánudag.
Olíuleiðslan er yfir fjörutíu ára gömul en sérfræðingar benda á að endingartími þeirra sé yfirleitt ekki lengri en 25 ár. Rannsókn á lekanum mun því m.a. beinast að því hvort að Amplify Energy hafi sinnt nauðsynlegu viðhaldi á henni. Þekkt er að jarðskorpuhreyfingar sem eru tíðar á þessum slóðum geti valdið skemmdum á olíuleiðslum. Þær geta a.m.k. veikt þær en þessi tiltekni leki er hins vegar rakinn til mannanna verka. Talið er, að minnsta kosti núna og áður en lokaniðurstaða rannsóknar liggur fyrir, að akkeri flutningaskips hafi gert gat á leiðsluna.
Vegna flöskuhálsa í flutningum varnings um víða veröld hafa tugir gámaflutningaskipa þurft að bíða utan við hafnir Kaliforníu eftir að röðin komi að þeim. Þau hafa því varpað akkerum og líklega hefur eitt þeirra hafnað í olíuleiðslunni með fyrrgreindum afleiðingum.
Íbúar segjast hafa fundið olíufnyk í lofti þegar á föstudag. Margir tilkynntu lyktina til yfirvalda en töldu lítið hafa verið aðhafst fyrr en olíubrák fór að sjást í nokkurra kílómetra fjarlægð frá ströndinni á laugardag. Forstjóri Amplify Energy hafnar því að tilkynningar um olíulykt hafi borist fyrir helgi en slökkviliðsstjórinn í Newport Beach segir hins vegar að margar tilkynningar hafi streymt inn bæði á fimmtudag og föstudag. Hins vegar sagði hann slíkar tilkynningar ekki óalgengar og að formleg tilkynning um olíuleka hafi ekki borist fyrr en um miðjan dag á laugardag.
Hvað var gert þegar tilkynningar um olíulykt fóru að berast yfirvöldum verður eitt þeirra atriða sem verða rannsökuð að sögn lögreglunnar í Orange County. Samkvæmt tilkynningu hennar höfðu sjófarendur einnig vakið athygli yfirvalda á olíubrák aðfaranótt laugardagsins.
Enn eitt atriðið sem er gagnrýnt er að um leið og staðfestar fréttir af olíuleka bárust sendi Amplify Energy sjálft kafara á vettvang til að rannsaka hvaðan lekinn væri að koma. Saksóknari í Orange County segir þetta ekki rétt vinnubrögð og að slík rannsókn ætti alltaf að fara fram í samráði við strandgæsluna. „Fyrirtækið á ekki að leiða eigin rannsókn á [olíuleka] sem mun kosta okkur milljónir dollara og eyðileggingu á umhverfinu,“ hefur Reuters fréttastofan eftir saksóknaranum Todd Spitzer.
Olían hefur þegar breiðst út, þrátt fyrir umfangsmikið hreinsunarstarf, og sést í fjörum á stóru svæði, m.a. við bæinn Huntington Beach, sem er einn vinsælasti staður Bandaríkjanna til að fara á brimbretti. „Allir eru að spyrja sig hvernig þetta gat eiginlega gerst?“ segir brimbrettakappinn Marty Kish í samtali við Reuters.
Eitt af því sem vekur mestan ugg er að olían gæti komist inn í Magnolia-votlendið sem hefur notið verndar frá árinu 2008 eftir að fjársterkur einkaaðili keypti það. Þar er að finna um 90 fuglategundir, þar af um tíu sem eru í útrýmingarhættu.
Enn er borað eftir olíu og gasi á 23 stöðum úti fyrir ströndum Kaliforníu. Amplify Engery rekur þar þrjá borpalla. Orkufyrirtækin hafa frá því á fimmta áratug síðustu aldar byggt um 64 þúsund kílómetra af olíu- og gasleiðslum í hafinu við Bandaríkin. Margar þeirra eru komnar vel til ára sinna. Fyrr á þessu ári benti eftirlitsstofnun (Goverment Accountability Office, GAO) á að regluverki í kringum þessa innviði væri ábótavant. „Eftir því sem leiðslurnar eldast eykst hætta á skemmdum á þeim vegna aurskriða og rofs á sjávarbotni.“
Draga verður úr notkun jarðefnaeldsneytis
Damon Nogami sem starfar hjá umhverfissamtökunum Natural Resource Defense Council, segir að auðveldlega hefði hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta mengunarslys. „Þetta eru hamfarir. Ég held að allir ættu að verða brjálaðir yfir þessu.“ Hann segir að nú verði ríki heims að gyrða sig í brók og koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Langtímalausnin felist í því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þangað til það gerist verði að styrkja eftirlit, bæta regluverk og draga þá sem valda mengunarslysum af þessu tagi til ábyrgðar.