Þessa dagana nemur heimsmarkaðsverð á áli tæpum 2.600 Bandríkjadölum á hvert tonn eftir að hafa hækkað nær stanslaust síðasta eina og hálfa árið. Leita þarf aftur til ársins 2011 til að finna álíka hátt álverð.
Álrisarnir græða
Samhliða hækkuninni hafa rekstrarhorfur ýmissa álframleiðenda vænkast, auk þess sem hlutabréfaverð þeirra hefur hækkað töluvert á síðustu mánuðum. Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um skiluðu álrisarnir Alcoa og Rio Tinto methagnaði í síðustu ársfjórðungsuppgjörunum sínum. Hlutabréfaverð Alcoa hefur líka næstum því þrefaldast á síðasta ári í kauphöllinni í New York.
Meiri eftirspurn og minna framboð
Samkvæmt umfjöllun Financial Times um málið kemur verðhækkunin til vegna aukinnar eftirspurnar á heimsvísu, samhliða því að erfiðleikar hafi komið upp í álframleiðslu í Kína. Þar sem ál er notað í ýmsum neysluvörum, líkt og bjórdósum og rafbílum, fylgir heimsmarkaðsverð þess gjarnan hagsveiflum.
Á sama tíma hafa miklir þurrkar sem geisað hafa um Yunnan-hérað í Kína haft áhrif á framboðið á málminum á heimsvísu þar sem álverin hafa þurft að draga úr framleiðslu sinni til að ganga ekki á orkubirgðirnar. Samkvæmt Financial Times var búist við því að helmingurinn af öllum vexti í álframleiðslu þetta árið kæmi frá héraðinu.
Þrátt fyrir þessa miklu verðhækkun hefur útflutningur á áli frá Íslandi ekki aukist, en hann nam tæpum 395 þúsund tonnum á fyrstu sex mánuðum ársins, samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Þetta er minnsti útflutningur áls í árshelmingum talið í átta ár.