Um 7.370 erlendir ríkisborgarar fluttust til Íslands á fyrstu sex mánuðum ársins, þar af rúmlega 4.500 á öðrum ársfjórðungi, frá byrjun apríl til loka júní. Aldrei hafa fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til Íslands á einum ársfjórðungi.
Þá hafa einungis einu sinni áður fleiri erlendir ríkisborgarar flust til landsins á sex mánaða tímabili, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Það var á öðrum og þriðja ársfjórðungi árið 2017, en þá fluttust samtals 7.390 erlendir ríkisborgarar til landsins.
Árið 2017 var mikill uppgangur í efnahagslífinu, ekki síst í ferðaþjónustu. Hið sama á við nú, en eftir mögur ár faraldursins er mikil eftirspurn eftir vinnuafli í ferðaþjónustu og raunar fleiri atvinnugreinum og margir koma erlendis frá til starfa hér á landi.
Í ár bætist svo við straumur flóttafólks frá Úkraínu, en á öðrum ársfjórðungi fluttust alls 980 manns frá Úkraínu búferlaflutningum til Íslands, samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Erlendir ríkisborgarar 15,6 prósent landsmanna
Við lok annars ársfjórðungs voru alls 59.490 erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi, sem samsvarar 15,6 prósentum af heildarmannfjöldanum, sem kominn var upp í 381.370 manns í lok júní.
Hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúum landsins fer því áfram ört vaxandi, en í upphafi árs 2021 voru erlendir ríkisborgarar 13,9 prósent af mannfjöldanum á Íslandi. Árið 2017 fór hlutfallið í fyrsta sinn yfir 10 prósent og árið 2006 fór sama hlutfall í fyrsta sinn yfir 5 prósent. Bakgrunnur landsmanna er því sífellt að verða fjölbreytilegri.
Heilt yfir fjölgaði íbúum á Íslandi um 3.600 á öðrum ársfjórðungi, en á móti þeim fjölmörgu erlendu og íslensku ríkisborgurum sem fluttu til landsins (alls um 5.050 manns í heildina) fluttu um 1.450 manns í burtu frá landinu.