Alþingismenn virðast flestir ætla að velja á milli tveggja kosta í stöðunni síðar í vikunni, samkvæmt greinargerð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa, sem birtist á vef þingsins síðdegis í dag. Líklegast er að annað hvort verði ákveðið að láta seinni talningu atkvæða í Borgarnesi gilda og staðfesta þar með kjörbréf þau sem gefin voru út af landskjörstjórn 1. október – eða boða til uppkosningar í kjördæminu.
Möguleikinn á að láta fyrri talningu atkvæða gilda er nefnilega sleginn út af borðinu í greinargerð nefndarinnar. Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata ákvað að standa ekki að greinargerð nefndarinnar, en hann tekur þó líka undir þessa skoðun annarra nefndarmanna.
Hin eiginlega kjörbréfanefnd, sem kjörin var í dag og er skipuð sömu þingmönnum og undirbúningsnefndin, mun skila meirihluta- og minnihlutaálitum sem þingmenn munu taka afstöðu til við atkvæðagreiðslu á fimmtudag.
Segja útilokað að láta fyrri talningu gilda
Bæði Karl Gauti Hjaltason og Lenya Rún Taha Karim, sem voru við það að verða þingmenn samkvæmt fyrstu kynningu lokatalna að morgni sunnudagsins 26. september settu fram þá kröfu að sú niðurstaða ætti að fá að standa sem endanlegar lokatölur. Það fellir undirbúningsnefndin sig þó ekki við, samkvæmt greinargerðinni.
Bent er á að landskjörstjórn hafi talið sér skylt að byggja úthlutun þingsæta á skýrslu yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi um úrslit kosninganna, sem fór eftir „seinni talningu“, en nokkur mismunur var á atkvæðafjölda flokka á milli fyrstu talningar og þeirrar seinni.
Það að láta fyrri talninguna gilda, segir undirbúningsnefndin, kæmi fyrst til greina ef litið væri svo á að slíkur annmarki hefði verið á varðveislu kjörgagna á umræddum tíma að ætla mætti að hann hefði áhrif á úrslit kosninganna.
„Jafnvel þó svo komist væri að slíkri niðurstöðu er ekki sjálfgefið að þar með skuli niðurstöður fyrri talningar standa enda ómögulegt að sannreyna þær tölur út frá þeim kjörgögnum sem fyrir liggja,“ segir í greinargerð nefndarinnar, þar sem segir að úrlausn slíks álitamáls verði ekki jafnað til þess þegar Alþingi úrskurði um einstaka vafaatkvæði sem geti haft áhrif á úthlutun þingsæta.
Nefndin segir að það beri að „líta til þess að annmarki af framangreindum toga varðar gildi kosninga í heilu kjördæmi“ og að slík mál fari samkvæmt skýrum lagafyrirmælum:
„Úrskurði Alþingi kosninguna í Norðvesturkjördæmi ógilda skal uppkosning fara fram.[...] Ekki verður séð samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum eða öðrum lagareglum að við slíkar aðstæður komi til álita að láta fyrri tölur standa,“ segir í greinargerð nefndarinnar.