Átta prósent þjóðarinnar fylgdist ekkert með fréttum sem tengdust kosningabaráttunni í aðdraganda síðustu kosninga. Áhugaleysið var mest hjá yngra fólki, en 16 prósent 18 til 25 ára sögðust ekkert hafa fylgst með umfjöllun um íslensk stjórnmál á meðan að á kosningabaráttunni stóð.
Þetta kemur fram í greininni „Kjósendur eftir kreppu: Breytingar, flökt og stöðugleiki í Alþingiskosningunum 2021“ eftir Agnar Frey Helgason, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Ólaf Þ. Harðarsonar, prófessor emeritus við sömu deild, Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor við deildina, Evu H. Önnudóttur, prófessor við stjórnmálafræðideild og Huldu Þórisdóttur, sem er dósent við sömu deild. Greinin birtist í tímaritinu Stjórnmál & stjórnsýsla fyrir skemmstu. Þar greina höfundar síðustu þingkosningar út frá nokkrum lykilvísum fengnum úr kjósendakönnun Íslensku kosningarannsóknarinnar (ÍSKOS).
Þetta var í fyrsta sinn sem spurningar um fjölmiðlanotkun voru hluti af rannsókninni og því liggja ekki fyrir samanburðartölur.
Fleiri ungir nota samfélagsmiðla en sjónvarp
Könnunin, sem lögð var fyrir eftir að kosningarnar voru afstaðnar, sýndi einnig að 48 prósent svarenda eyddu hálftíma eða minna á dag í að fylgjast með fréttum af íslenskum stjórnmálum í aðdraganda kosninganna sem fram fóru í september í fyrra.
Mikill munur er á notkun milli kynslóða. Þannig noti yngri aldurshópar samfélagsmiðla mun meira til að nálgast upplýsingar um kosningarnar en þeir eldri. Í yngsta kjósendahópnum, 18 til 25 ára, var notkun á samfélagsmiðlum til slíkra verka (20 prósent) til að mynda meiri en notkun á sjónvarpi til að nálgast upplýsingar (15 prósent).
Í greininni segir að þessi staða endurspegli þróun á fjölmiðlanotkun alþjóðlega og að rannsaka þurfi þessa þróun á næstu árum hérlendis þar sem rannsóknir sýni að aukin netnotkun, sérstaklega þegar um er að ræða samfélagsmiðla, við að nálgast pólitískt efni geti leitt af sér lýðræðislegar áskoranir. Efni sem er sett fram á samfélagsmiðlum sé mun oftar birt án síu og án þess að búið sé að ganga úr skugga um að það sem haldið sé fram sé satt. Mun auðveldara sé að dreifa röngum eða villandi upplýsingum stafrænt en í gegnum hefðbundna fréttamiðla, þar sem blaðamenn séu í hlutverki hliðvarða og búist sé við því að þeir gangi úr skugga um að upplýsingarnar sem þeir setji fram séu sannar.