Flestir Reykvíkingar sem taka afstöðu til þess hver eigi að vera næsti borgarstjóri nefnd Dag B. Eggertsson, núverandi borgarstjóra og oddvita Samfylkingarinnar. Alls telja 34 prósent að hann eigi áfram að sitja í embættinu.
Þetta kemur fram í könnun Prósents fyrir Fréttablaðið sem gerð var 5. til 9. maí en niðurstöður hennar voru birtar í dag. Það er hærra hlutfall en nefndi Dag í könnun fyrirtækisins sem birt var 28. apríl, en þá naut Dagur stuðnings 30 prósent aðspurðra í borgarstjórastólinn.
Dagur nýtur mest stuðnings í miðborginni, þar sem 59 prósent aðspurðra vilja hann áfram sem borgarstjóra, en hann leiðir í flestum hverfum borgarinnar. Frávikin eru að Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, leiðir í Breiðholtinu með 25 prósenta fylgi og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, í Grafarvogi með 24 prósent. Fleiri vilja sjá Dag sem borgarstjóra en ætla sér að kjósa Samfylkinguna.
Könnunin var netkönnun gerð 5. til 9. maí. Úrtak var 1.750 einstaklingar og svarhlutfallið 50,4 prósent.
Meirihlutinn bætir við sig samkvæmt nýjustu kosningaspá
Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar stærðfræðings heldur meirihlutinn í Reykjavík velli og Samfylkingin verður stærsti flokkurinn í Reykjavík á ný eftir kosningarnar sem fara fram næstkomandi laugardag. Fylgi hennar mælist 24,8 prósent sem myndi skila sex borgarfulltrúum.
Píratar mælast með 16,3 prósent fylgi sem myndi skila þeim fjórum borgarfulltrúum. Viðreisn fengi 7,4 prósent fylgi og héldi sínum tveimur fulltrúum og Vinstri græn 6,1 prósent, sem skilar Líf Magneudóttur, oddvita flokksins, að óbreyttu einni í borgarstjórn. Meirihlutinn virðist því, samkvæmt gerðum könnunum, ætla að bæta við sig fylgi frá kosningunum 2018 og fá 13 borgarfulltrúa, sem er einum fleiri en hann fékk í síðustu kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem fékk 30,8 prósent atkvæða fyrir fjórum árum, stefnir í afhroð en fylgi hans mælist 18,8 prósent. Það myndi skila fimm borgarfulltrúum í stað þeirra átta sem flokkurinn hefur í dag. Verði þetta niðurstaðan mun Sjálfstæðisflokkurinn fá sína verstu niðurstöðu í höfuðborginni í sögu flokksins.
Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem bætir mestu við sig. Hann mælist með 12,4 prósent fylgi og næði inn þremur borgarfulltrúum að óbreyttu, en flokkurinn hefur engan sem stendur. Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins myndu halda sitthvorum borgarfulltrúanum sínum.