Einungis 13 ríki af 226 gerðu aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi að ríkjandi stefnu í aðgerðaráætlunum sínum vegna COVID-19 faraldursins og 0,0002 prósent af því fjármagni sem fór í viðbragðsáætlanir fóru í að uppræta kynbundið ofbeldi.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem UN Women og Þróunarsamvinnustofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) hafa tekið saman um viðbragðsáætlanir ríkja heimsins við COVID-19 faraldrinum. Sérstaklega er fjallað um viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna kynbundins ofbeldis gegn konum og börnum í skýrslunni.
Unnið var með gögn frá 226 ríkjum heims og var niðurstaðan sú að almennt hafi ekki verið hugað að kynjasjónarmiðum eða -hlutverkum í viðbragðsáætlunum ríkja.
Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að ríki sem eiga sterka feminíska hreyfingu hafi verið talsvert líklegri til að taka tillit til kynjasjónarmiða í COVID-19 áætlunum sínum en þau ríki þar sem engin eða veik femínísk hreyfing er við lýði.
Jafnframt að 12 prósent af efnahagsáætlunum ríkja hafi stutt beint við efnahagslegt öryggi kvenna og 82 prósent af aðgerðarteymum þessara 226 ríkja hafi verið skipuð karlmönnum að mestu. Aðeins 7 prósent aðgerðateyma hafi verið með jafnt kynjahlutfall en 11 prósent voru skipuð konum að mestu.
Úrræðin þóttu takast vel til hér á landi
Í skýrslunni er einnig farið yfir úrræði sem þóttu vel til takast, líkt og úrræði íslenskra stjórnvalda til að sporna geng kynbundnu ofbeldi og auka þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á tímum COVID-19. Sérstaklega er fjallað um aðgerðarteymi sem skipað var af stjórnvöldum í þeim tilgangi að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi.
Meðal þess sem teymið lagði til var að koma á fót upplýsingatorgi, opna kvennaathvarf á Akureyri, auka stuðning við börn í viðkvæmri stöðu og auka fjárveitingar til frjálsra félagasamtaka og sveitarfélaga til að halda úti þjónustu.
Þannig fékk Kvennaathvarfið 100 milljónir til að bæta húsakost sinn og aðgengi; Stígamót fengu 20 milljónir til að bregðast við auknu álagi og draga úr biðtíma og Reykjavíkurborg fékk styrk til að fjármagna tímabundið húsnæði fyrir heimilislausar konur.
Landið verið í stakk búið til að takast á við aukninguna í ofbeldi gegn konum og stúlkum
Í skýrslunni segir að þegar heimsfaraldurinn skall á hafi ríkisstjórn Íslands verið fljót að stofna vinnuhóp undir forystu kvenna sem hafði það á sinni könnu að innleiða og stýra forvarnaraðgerðum á móti ofbeldi gegn konum og stúlkum, fjármagnaðan með 1,6 milljónum evra. Forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir, hafi ásamt öðrum kvenleiðtogum verið ausin lofi fyrir framúrskarandi viðbrögð sín við COVID-19.
„Hvað varðar ofbeldi gegn konum og stúlkum sér í lagi hrinti landið í framkvæmd átta aðgerðum sem náðu yfir ýmis svið, til dæmis með því að auka við húsrými til að skýla fólki, styrkja þann vettvang þar sem sagt er frá brotum og veita félags- og sálfræðistuðning.
Árin sem fóru í að bæta starfsgetu stuðningsþjónustuaðila stuðluðu að því að landið var í stakk búið til að takast á við aukninguna í ofbeldi gegn konum og stúlkum. Árið 2020, rétt áður en faraldurinn skall á, var Ísland eina Evrópulandið sem stóðst þær kröfur sem voru samþykktar á Istanbúl ráðstefnunni um að útvega bæði neyðarlínu fyrir konur á öllu landinu og kvennaathvörf. Bæði ríkisstyrkir og framlög til stuðningsþjónustu sérhæfðra aðila fyrir konur jukust á meðan á faraldrinum stóð og féð var notað til dæmis til að flýta fyrir byggingu húsnæðis fyrir þolendur ofbeldis og draga úr biðtíma á Stígamótum, ráðgjafar- og stuðningsmiðstöð fyrir þolendur kynferðisofbeldis,“ segir meðal annars í skýrslunni.
Ísland með sterka og sjálfstæða kvenréttindahreyfingu
Þá er það sérstaklega tekið fram að Ísland sé með sterka og sjálfstæða kvenréttindahreyfingu sem knýi á um umbætur í löggæslu og dómskerfinu sem skipt hafi sköpum á meðan á faraldrinum stóð. Árið 2016 hafi Kvenréttindafélag Íslands farið að kalla eftir því að konur ættu að eiga fleiri fulltrúa í lögreglunni sem varð til aukningar úr tæplega 13 prósentum árið 2014 í um það bil 40 prósent árið 2021. „Lögreglan á Íslandi lenti einnig undir smásjánni árið 2019 þegar níu konur höfðuðu mál gegn ríkinu vegna þess að komið var fram við þær af kvenfyrirlitningu þegar heimilisofbeldismál þeirra voru tekin fyrir.“
Þá kemur fram í skýrslunni að þegar heimsfaraldurinn skall á hafi ríkislögreglustjóri bætt verkferla og sérhæfða þjálfun fyrir lögreglu til að bregðast við aukningunni á heimilisofbeldi og gefið þannig til kynna að lögreglan tæki ofbeldi gegn konum og stúlkum alvarlega.
„Fyrir utan tilteknar aðgerðir til að veita viðspyrnu á móti ofbeldi gegn konum og stúlkum ber að taka með í reikninginn heildarárangur íslensku ríkisstjórnarinnar í að halda faraldrinum í skefjum. Ókeypis skimanir, heildstætt rakningarkerfi og síðar almenn bólusetning gerðu landinu kleift að halda smittölum lágum og forðast samfélagslokanir og drógu þannig úr aðstæðum sem gátu aukið hættuna á ofbeldi innan heimilisins,“ segir í þeim hluta skýrslunnar sem fjallar um Ísland.