Í eftirlitsflugi í gær mældist allt að 15 metra lækkun á miðju öskjunnar í Bárðarbungu. Radarhæðarmæli flugvélar Ísavia var beitt til þess að greina stöðuna. Rúmmálasbreytingin nemur um 0,25 ferkílómetrum, samkvæmt stöðuskýrslu almannavarndardeildar Ríkislögregljustjóra frá því í morgun. „Sig af þessari stærðargráðu hefur ekki orðið á Íslandi síðan mælingar á jarðskorpuhreyfingum hófust hérlendis um miðja síðustu öld. Engin merki sjást um eldgos eða aukinn jarðhita í Bárðarbunguöskjunni. Sennilegasta skýringin er að þetta sig sé í tengslum við mikla jarðskjálftavirkni undanfarið og kvikustreymi neðanjarðar til norðausturs,“ segir í stöðuskýrslunni.
Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra er sem fyrr í viðbragðsstöðu ef gosvirkni eykst á svæðinu, með tilheyrandi áhrifum.
Í eftirlitsfluginu sást einnig breið og grunn sigdæld í Dyngjujölkli um 10 kílómetra frá jökuljaðri. Önnur dæld, um sex kílómetra frá sporði Dyngjujökluls sem fylgst hefur verið náið með undanfarna daga, hefur farið dýpkandi og mældist með radarahæðarmæli um 35 metra djúp.
Ekkert dregur úr gosinu í Holuhrauni, samkvæmt stöðuskýrslu almannavarna. Gosvirkni er á tveimur sprungum. „Megingosið er á sömu sprungu og verið hefur virk frá upphafi. Auk þess er enn gosvirkni á sprungu sem opnaðist í gærmorgun. Hrauntungan nær nú 10 kílómetra til ANA og á tæpan km eftir í Jökulsá á Fjöllum,“ segir í stöðuskýrslunni.
Dregið hefur úr skjálftavirkni á svæðinu síðan í gær. Um 90 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Einn jarðskjálfti 5 að stærð mældist við Bárðarbunguöskjuna kl. 05:40 í morgun. 14 skjálftar hafa orðið stærri en 5 við Bárðarbungu síðan 16. ágúst.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur fjallað ítarlega um gang mála í og við Bárðarbungu frá því jarðhræringar hófust á bloggi sínu. Hann veltir því upp í nýjustu færslunni hvort mesta hættan á gosstöðvunum stafi af útstreymi brennisteinsgass.
Jarvísindastofnun Háskóla Íslands hefur verið með virka upplýsingagjöf á Facebook síðu sinni og meðal annars birt frásagnir af vinnuaðstæðum vísindafólks á svæðinu.
Í stöðuskýrslunni er áréttað að lokanir á svæðinu fyrir umferð fólks og farartækja eru enn í fullu gildi. „Rétt er að árétta að lokun lögreglustjóranna á Húsavík og Seyðisfirði á hálendinu norðan Vatnajökuls eru enn í gildi. Allir vegir inn á svæðið eru einnig lokaðir og er tekið strangt á tilraunum óviðkomandi til að komast að eldstöðvunum og þeir geta búist við að verða kærðir og sektaðir. Fjölmiðlar og vísindamenn hafa haft aðgang að svæðinu með sérstökum skilmálum eftir að gos hófst en lokað hefur verið fyrir hann að svo stöddu en aðgangur þeirra er í stöðugri endurskoðun. Ákvörðunin er fyrst og fremst í varúðarskyni vegna hættu á jökulhlaupi ef gosið kemur upp undir Vatnajökli,“ segir í skýrslunni.
Meðfylgjandi mynd er fengin frá Jarðvísindstofnun Háskóla Íslands, og er frá 6. september. Þetta er LANDSAT 8 nærinnrauð gervitunglamynd frá NASA & USGS, unnin á Jarðvísindastofnun. Þessi samsetning á böndum (geislunarmælingum) hentar ágætlega til að skoða yfirborð jökla, en grannt er nú fylgst með öllum breytingum á kötlum og sprungum á jöklinum. Þétt gróðurþekja kemur fram sem rauður litur á myndinni.