Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að fulltrúum flokkanna hafi verið haldið upplýstum um gang mála varðandi vinnu við afnám hafta í gegnum pólitísku samráðsnefnd, en að trúnaðarbrestur hafi orðið eftir fund samráðsnefndarinnar í desember og í kjölfarið hafi upplýsingagjöf verið breytt. Ummæli forsætisráðherra vöktu mikla reiði stjórnarandstöðuþingmanna á Alþingi í dag.
Bæði Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, og Birgitta Jónsdóttir, leiðtogi Pírata, spurðu Sigmund Davíð um samráðsnefnd um losun fjármagnshafta í óundirbúnum fyrirspurnartíma í þinginu í dag.
Guðmundur sagði að hugmyndir um stöðugleikaskatt, sem Sigmundur Davíð sagði frá á landsþingi Framsóknarflokksins, hefðu komið honum á óvart þar sem hann hefði staðið í þeirri meiningu að enn væru mörg álitamál uppi. Hann spurði því hvort búið væri að ákveða stöðugleikaskatt og útiloka aðra kosti. Sigmundur sagði svo vera, en þetta taldi Guðmundur „fyndið“ þar sem samráðsnefnd stjórnmálaflokkanna um afnám hafta eigi að funda á föstudaginn og þar hafi átt að funda með sérfræðingum til að fara yfir stór álitamál tengd þessari leið. Það væri fyndið að fara í samráð ef búið væri að ákveða leiðina. Birgitta spurði Sigmund Davíð einnig um afnám hafta og sagði það skringilegt að ekki væri búið að boða formenn stjórnarandstöðuflokkanna á fund til þess að fara yfir málin.
Sigmundur Davíð sagði að fulltrúum flokka hafi verið haldið upplýstum í gegnum samráðsnefndina. „Hins vegar dreg ég enga dul á það að það setti töluvert strik í reikninginn þegar að eftir einn slíkan fund var farið að dreifa upplýsingum til fjölmiðla og farið í viðtöl jafnvel til þess að lýsa því sem gerðist á þessum fundi og í raun og veru dregin upp á margan hátt röng mynd af því. Það varð til þess að menn hlutu að endurskoða hvernig upplýsingagjöf á þessum fundum væri háttað,“ sagði forsætisráðherra.
Birgitta benti þá á að samráðsnefnd væri bundin trúnaði og hefði ekki fundað neitt frá því að stórar yfirlýsingar um stöðugleikaskatt voru settar fram á landsþingi Framsóknarflokksins. Sigmundur kom þá aftur í ræðustól og endurtók orð sín um að upplýsingar hefðu lekið út af fundinum. Í lok ræðu sinnar sagði Sigmundur svo: „Hér sé ég að háttvirtur þingmaður Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, biður um að ræða fundarstjórn forseta og það kemur mér ekki á óvart í þessu tilviki.“
Fullkomnlega ósæmileg framganga forsætisráðherra
Ummælin vöktu mikla reiði stjórnarandstöðuþingmanna sem komu svo upp hver af öðrum til að ræða þetta. Steingrímur J. Sigfússon gagnrýndi Sigmund harðlega og sagði hann nánast segja berum orðum að Árni Páll hefði gerst sekur um trúnaðarbrot. „Þetta er fullkomnlega ósæmileg framganga af hálfu hæstvirts forsætisráðherra, og röng.“
Hann sagði stjórnarandstöðuna, og Árna Pál sérstaklega, borinn röngum sökum „á lágkúrulegan hátt. Hið rétta er að dagana fyrir nefndan samráðsfund í byrjun desember voru að birtast upplýsingar aðallega í Morgunblaðinu um meðal annars að til stæði að leggja á 35 til 40 prósenta útgönguskatt og þar fram eftir götunum. Það komu engar nýjar upplýsingar fram eftir þennan fund, engar. Það er hægt að sanna með því að fara yfir umfjöllun fjölmiðla daganna á undan.“ Steingrímur segir að tölvupóstur um meintan trúnaðarbrest hafi verið sendur út „í einhverju geðvonskukasti starfsmanns í fjármálaráðuneytinu.“
Árni Páll kom svo í ræðustól og sagði ekki mikinn mannsbrag að því „að bera sakir á nafngreinda menn og flýja svo úr salnum þegar þeir bera hönd fyrir höfuð sér.“ Ríkisstjórnin sjálf hefði „lekið skipulega hugmyndum um útgönguskatt“. Þess vegna hefðu allir fjölmiðlar vitað um fundinn og hugmyndirnar og hann hefði svarað spurningum um hugmyndir um útgönguskatt almennt eftir fundinn.
Afturendi forsætisráðherra kunnuglegri en framhliðin
Birgitta Jónsdóttir sagði framgöngu Sigmundar til háborinnar skammar og að hann hefði ekki svarað neinum spurningum þingmanna. Guðmundur Steingrímsson sagði ekki hægt að leka hlutum jafnvel þótt einhver vildi, enda væri alltaf búið að koma málum í fjölmiðla áður. Eini maðurinn sem hefði í raun brotið trúnað væri Sigmundur Davíð, með því að segja frá því að búið væri að ákveða stöðugleikaskatt í ræðu á flokksþingi síns flokks.
Sigmundur Davíð fór úr þingsal eftir að óundirbúnum fyrirspurnum lauk, og við það voru stjórnarandstöðuþingmenn ósáttir. Fram kom þó að hann væri enn í húsinu og hlustaði á umræðuna í máli Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknar. „Fyrir okkur háttvirta þingmenn þá er okkur afturendi hæstvirts forsætisráðherra kunnuglegri en framhliðin því hann er alltaf á hlaupum hér út úr þessum sal í hvert sinn sem mikilvæg mál eru tekin til umræðu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Þetta væri ekki í lagi gagnvart Alþingi, forsætisráðherra leyfði sér að koma með dylgjur og ásakanir á hendur stjórnarandstöðuþingmönnum. Það væri til einskis að halda áfram að taka þátt í „sýndarsamráði“ þegar hann tilkynni ákvarðanir sínar á landsþingum en ekki í samráðshópnum eða á Alþingi. Þetta væri vegna þess að hann sýndi þinginu enga virðingu.
Viðbót 17:39: Umræðunni um málið lauk með annarri ræðu forsætisráðherra, þar sem hann gerði athugasemd við ummæli Steingríms um starfsmann fjármálaráðuneytisins, sem væri formaður nefndarinnar sem um ræðir. Það er Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri í ráðuneytinu. Sigmundur sagði að hann hafi gert fulltrúum nefndarinnar grein fyrir því að í ljósi leka upplýsinga úr nefndinni væri ekki tilefni til að halda aðra fundi.