Alma D. Möller landlæknir minnti á að bólusetning gagnvart COVID-19 dregur sem betur fer mikið úr þeim veikindum sem sjúkdómurinn getur valdið og ekki síst alvarlegum veikindum, á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Hún sagðist vonast til þess að myndin af stöðu mála hérlendis myndi skýrast „innan fárra vikna“ og þá þyrfti að skoða viðbrögð og varnir til lengri tíma.
„Svörin fást á næstu vikum,“ sagði Alma, en þeirra verður ekki einungis leitað hérlendis heldur einnig hjá öðrum þjóðum þar sem bólusetningar eru vel á veg komnar, einkum Bretum og Ísraelum.
Einungis tveir eru innlagðir á sjúkrahús með COVID-19 sem stendur, af þeim 695 einstaklingum sem eru í einangrun með staðfest smit. Mikill meirihluti þeirra sem hafa verið að greinast undanfarna daga er ungt fólk, undir fertugu.
Alma sagði að núna á næstu dögum og vikum yrði fylgst með þróuninni. Enn væri óvissa um það hvernig hversu margir sem eru óbólusettir, af einhverjum ástæðum, myndu veikjast alvarlega og einnig það hvernig veiran myndi leggjast í þá sem eru bólusettir, en væru aldraðir eða með bælt ónæmiskerfi.
Óvissan sneri að því hvernig delta-afbrigði veirunnar myndi hegða sér hjá þjóð sem væri nánast fullbólusett. „Við erum auðvitað öll komin með leið á þessari veiru,“ sagði Alma og ítrekaði að verkefnið framundan snerist um að leita að þekkingu til þess að ákveða hvaða skref ætti að taka næst og síðan til framtíðar.
Að minnsta kosti 96 smit í gær
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir sérfræðingur hjá sóttvarnalækni greindi frá því á fundinum að 96 innanlandssmit hið minnsta hefðu greinst með COVID-19 innanlands í gær og að enn væri verið að vinna úr sýnum sem hefðu verið tekin, en þau voru mörg.
Á vefnum covid.is var í morgun sagt frá því að 82 hefðu greinst innanlands, en Kamilla sagði líklegt að sú tala yrði uppfærð þegar liði á daginn.
Kallað eftir bakvörðum í sýnatökur og fleira
Landlæknir sagði heilbrigðiskerfið okkar vera viðkvæmt, vegna smæðar, langvarandi mönnunarvanda, húsnæðismála og núna vegna langvarandi álags sökum faraldursins.
Hún minnti á bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar, sem hefur nú verið virkjuð í þriðja sinn í faraldrinum. Heilbrigðisstarfsmenn sem vinna ekki í heilbrigðiskerfinu eru hvattir til að skrá sig og einnig verður opnað á skráningar þeirra sem ekki eru heilbrigðisstarfsmenn, því það vantar í „ýmis önnur störf“, til dæmis starfsfólk til að sinna sýnatökum, í eldhússtörf og fleira.