„Almennt má segja að skólastarf hafi gengið ágætlega frá skólabyrjun. Áherslan hefur verið á sem eðlilegast skólastarf eins og kostur er á öllum skólastigum, og almennt hefur ekki verið mikið um smit í mörgum leik- og grunnskólum á landsvísu, þó vissulega hafi nokkrir skólar í Reykjavík og Akureyri þurft að glíma við endurtekin smit.“
Þetta kemur fram í svari mennta- og menningarmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans en Lilja Alfreðsdóttir ráðherra menntamála lagði fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem farið yfir hvernig skólastarf í leik- og grunnskólum hefði gengið í haust.
Í svarinu segir að nýlega hafi ráðuneytið óskað eftir upplýsingum frá stærstu sveitarfélögunum um hvernig framkvæmd skólastarfs hafi verið til þessa hjá þeim.
„Af svörum þeirra að dæma er lagt mikið upp úr því að fara í einu og öllu eftir ráðleggingum smitrakningarteymis og að vinna eftir þeim leiðbeiningum sem gefnar voru út í ágúst. Einnig hefur fram komið í máli sveitarfélaga að skapast hefur umtalsvert álag á stjórnendur skóla í tengslum við ábyrgð á smitrakningu innan hvers skóla en afar knappur tími hefur verið ætlaður í þá vinnu, og hefur hún oft farið fram á kvöldin,“ segir í svari ráðuneytisins.
Í kjölfarið átti sóttvarnarlæknir fund með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, almannavörnum, fulltrúum fræðsluskrifstofa sveitarfélaga og rakningateymis í lok síðustu viku.
Samkvæmt ráðuneytinu var farið yfir stöðu mála með það að markmiði að draga úr álagi innan skólanna tengdu smitrakningum. Fram kemur í svarinu að einnig sé samráð haft við forystu skólastjórnenda og kennara. Horft verði til þess að stytta sóttkví og einangrun, efla upplýsingamiðlun og ráðgjöf af hálfu almannavarna og smitrakningarteymis til skóla, og styðja frekar við smitrakningu. Í samráði við skólasamfélagið og sóttvarnarlækni verði því áfram unnið að skilvirkari og einfaldari framkvæmd sóttvarnaráðstafana og smitrakningar.