Guðlast er ekki lengur refsivert á Íslandi eftir að Alþingi samþykkti lagafrumvarp Pírata um að 125 gr. almennra hegningarlaga yrði felld brott. Á bloggi Pírata er dagurinn í dag kallaður „mikill gleðidagur fyrir bæði húmorista og alla vini tjáningarfrelsins.“
Í almennum hegningarlögum frá árinu 1940 var það gert heimilt að fangelsa og sekta hvern þann sem smánaði trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegra trúarbragðafélaga. Í greinargerð með lagabreytingartillögu Pírata segir að tilefni þessa frumvarps sé árásin á ritstjórn Charlie Hebdo í París í janúar.
„[...] er talið að tilefni árásarinnar sé m.a. það að útgáfan hefur birt teikningar af Múhameð spámanni,“ segir í greinagerðinni og að flutningsmenn frumvarpsins vilji með þessu biðja Alþingi að leggja sitt af mörkum við að koma þeim skilaboðum á framfæri að tjáningarfrelsið muni „aldrei lúta fyrir manndrápum, ofbeldi eða hótunum.“
Píratar benda jafnframt á að íslensk löggjöf hafi verið gagnrýnd af alþjóðastofnunum fyrir ýmsa vankanta, þar á meðal það að svipta megi fólk frelsi fyrir „ólögmæta tjáningu, þar á meðal guðlast.“
Lagagreinin sem nú hefur verið felld á brott var svohljóðandi í almennum hegningarlögum (125 gr. í lögum nr. 19 frá árinu 1940): „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum]. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“