Alþingismenn eiga ekki að kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni og þeir eiga að greina frá öllum hagsmunum sem máli skipta og varða opinbert starf þeirra. Þetta er meðal þess sem kemur fram í þingsályktunartillögu um siðareglur fyrir alþingismenn, sem lögð var fram á Alþingi í dag. Tilgangurinn með siðareglunum er að efla gagnsæi í störfum þingmanna og ábyrgðarskyldu þeirra, og jafnframt að efla „tiltrú og traust almennings á Alþingi.“
Allir forsetar Alþingis og þingflokksformenn allra flokka standa að tillögunni, sem á sér langan aðdraganda. Alþingi samþykkti breytingar á þingsköpum í júní árið 2011, og þar kom meðal annars fram að leggja ætti fram tillögu að siðareglum fyrir þingmenn. Forsætisnefnd hóf vinnu við slíkar reglur og skilaði tillögum rétt fyrir þinglok árið 2013, þá var þegar ljóst að ekki myndi nást samkomulag um að afgreiða málið. Ný forsætisnefnd fjallaði um siðareglur strax sumarið 2013 og Einar K. Guðfinnsson lagði til að horft yrði til siðareglna Evrópuráðsþingsins, sem hefur verið gert í nýju reglunum.
Samkvæmt siðareglunum eiga þingmenn að rækja störf sín af ábyrgð, ráðvendni og heiðarleika, taka ákvarðanir í almannaþágu, ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra og efla og styðja siðareglurnar með því að sýna frumkvæði og fordæmi, að því er fram kemur í tillögunni. „Þingmenn skulu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu og fylgja meginreglum um hátterni og aðhafast ekkert með athöfnum sínum sem kann að skaða orðspor, tiltrú og traust almennings á Alþingi,“ segir einnig.
Taka ákvörðun og geta birt hana opinberlega
Forsætisnefnd skipar þriggja manna nefnd til þess að fjalla um brot á siðareglunum. Tveir nefndarmenn eiga að vera tilnefndir af samstarfsnefnd háskólastigsins og annar þarf að hafa embættis- eða meistarapróf í lögfræði og hinn meistarapróf í heimspeki eða hagnýtri siðfræði. Forseti tilnefnir formann nefndarinnar, en hann á að hafa þekkingu á störfum þingsins og þingmanna, en aðrar kröfur eru ekki gerðar.
Siðareglunefndin tekur ákvörðun um það hvort hún telji athafnir þingmanna brjóta í bága við reglurnar. Nefndin lætur forsætisnefnd í té álit sitt, og ef forsætisnefnd fellst á álitið tilkynnir hún þingmanni um niðurstöðuna og ákveður, ef ástæða þykir til og nefndin er einhuga um það, hvort birta skuli álitið á vef Alþingis. Engin önnur viðurlög eru við broti á siðareglunum. Siðareglunefndin á svo að taka saman árlega skýrslu um fjölda erinda sem henni hafa borist og hún haft til umfjöllunar, og birta hana á vef þingsins.