Thomas Bach, forseti Alþjóða Ólympíunefndarinnar, segir að engin miskunn verði sýnd ef staðfest verður að notkun ólöglegra lyfja til þess að bæta árangur sé eins útbreidd og rannsóknargögn gefa til kynna, sem The Sunday Times og þýska sjónvarpsstöðin ARD/WRD hafa gert grein fyrir. Samkvæmt þeim var sjöundi hver keppandi í frjálsum íþróttum, af um fimm þúsund manns sem sýni voru tekin úr, með merki um ólöglega lyfjanotkun.
Blóðprufurnar, sem voru andlag rannsóknarinnar, voru tólf þúsund talsins og eru frá árabilinu 2001 til 2012. Gögnin eiga rætur sínar að rekja til Alþjóða frjálsíþróttasambandsins.
Leaked blood tests reveal one-third of Olympic distance medalists are suspected of doping http://t.co/7ArPV8na15 pic.twitter.com/nHgHHGGg3X
Auglýsing
— Sports Illustrated (@SInow) August 3, 2015
Bach segir, í viðtali við BBC, að eins og málin standi núna, sé aðeins um óstaðfestar ásakanir að ræða. Fara þurfi ítarlega í gegnum rannsóknargögnin og fá niðurstöður fram áður en gripið verði til aðgerða. En eitt sé alveg öruggt: engin miskunn verði sýnd, og að Alþjóða Ólympíunefndin mun gera allt sem í hennar valdi standi til þess að vernda heiðarlega íþróttaástundun.