Faraldur apabólu hefur verið skilgreindur sem heilsufarsvandamál sem heimsbyggðinni stafar hætta af. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi af þessum sökum en mikil fjölgun hefur orðið á greindum tilfellum apabólu að undanförnu.
Neyðarnefnd WHO kom saman í annað sinn vegna faraldurs apabólu og hækkaði viðbúnaðarstig sitt í kjölfar fundarins. Að sögn Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóra WHO, hafa yfir 16 þúsund tilfelli nú verið greind í 75 löndum. Fimm hafa látist af völdum apabólu.
Evrópubúum meiri hætta búin en öðrum
Á vef BBC segir að ekki hafi ríkt einhugur innan neyðarnefndarinnar um að færa viðbúnaðarstig í hæsta flokk. Dr. Ghebreyesus taldi það aftur á móti nauðsynlegt vegna þess hversu hröð dreifing veirunnar hefur verið og vegna þess að málið snerti heimsbyggðina alla.
„WHO metur það sem svo að hætta af apabólu sé í meðallagi á öllum svæðum heimsins, fyrir utan Evrópu, en þar metum við hættuna vera mikla,“ er haft eftir Dr. Ghebreyesus. Hætta sé á að dreifing muni aukast en í kjölfar aukins viðbúnaðar er viðbúið að þróun bóluefna verði hraðari auk þess sem viðbúnaðarstigið stuðli að því að teknar verði upp takmarkanir sem hefti för veirunnar.
Smánun og mismunun geti verið hættuleg
WHO mun gefa út leiðbeiningar varðandi takmarkanir og vonast stjórnendur WHO til þess að lönd taki þær upp til að vernda viðkvæma hópa og koma í veg fyrir mikla útbreiðslu veirunnar.
Dr. Ghebreyesus sagði að mest væri um smit meðal karla sem hafa átt í nánum samböndum við karla og þá sérstaklega meðal karla sem eigi marga rekkjunauta. Hann bætti því við að lönd heimsins þyrftu ráðast í aðgerðir til þess að vernda heilsu þeirra, mannréttindi og virðingu. „Smánun og mismunun geta verið alveg jafn hættuleg og hver önnur veira,“ sagði Dr. Ghebreyesus.
Níu smitast á Ísland
Í það minnsta níu manns hafa greinst með apabólu hér á landi. Á miðvikudag sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við fréttastofu RÚV að engar vísbendingar væru um að faraldur apabólu væri í rénun og að von væri á bóluefni gegn veirunni frá Danmörku.
„Við erum að fá bóluefni sem Danir eru að lána okkur, 40 skammta, og Landspítalinn mun sjá um bólusetninguna. Síðan erum við ennþá að bíða eftir fleiri skömmtum frá Evrópusambandinu. Það er ekki ljóst hvenær þeir koma en ég held að það farist nú að styttast mjög í það,“ sagði Þórólfur í viðtali við RÚV.