„Hafa ber í huga að álverð hefur hríðfallið frá áramótum og hefur ekki verið lægra í ein sex ár. Afleiðingin er að ISAL er nú rekið með tapi frá degi til dags og tapið fer vaxandi,“ segir í opnu bréfi sem Rannveig Rist hefur sent á starfsmenn álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Vitnað er til þess frétt á vef Viðskiptablaðsins.
Í bréfinu fjallar Rannveig meðal annars um kjaradeilur fyrirtækisins við starfsmenn en Rio Tinto Alcan á Íslandi hefur boðið starfsmönnum sínum launahækkun sem nemur 18,7 prósentum til ársloka 2018, að því er fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins. Til viðbótar standi starfsmönnum til boða nýir bónusar sem hækki laun enn frekar, eða um allt að átta prósent.
Í bréfinu segir Rannveig að hvergi verði kvikað frá kröfum fyrirtækisins, um að tilteknir þættir í starfseminni verði boðnir út í verktöku. „Að sjálfsögðu stendur sú krafa áfram að ISAL fái heimild til að bjóða út áður tilgreinda verkþætti, en í þeim efnum býr ISAL við mestu fjötra allra fyrirtækja á Íslandi. Eins og fram hefur komið erum við tilbúin að ræða hvernig koma megi til móts við starfsmenn sem þetta hefði áhrif á,“ segir í bréfinu, sem vitnað er til á vef Viðskiptablaðsins.
Kjaradeilur starfsmanna Rio Tinto Alcan á Íslandi, við fyrirtækið, hafa verið óleystar mánuðum saman og hafa forsvarsmenn starfsmanna sagt stjórnendur álversins hóta starfsfólki, verði ekki gengið að kröfum. Yfirvinnubann hefur staðið yfir í sex vikur og segir Rannveig í bréfinuu að það hafi haft alvarleg áhrif. „Aðgerðirnar svipta fyrirtækið sölutekjum, þær svipta starfsmenn launum, þær skaða orðspor ISAL meðal viðskiptavina okkar og þær valda töfum í rekstrinum sem geta haft mjög alvarleg áhrif.“