Alvotech, sem ætlar að setja á markað samheitalyf innan tveggja ára og hefur byggt lyfjaverksmiðju í Vatnsmýrinni, tapaði 91 milljón Bandaríkjadala, ellefu milljörðum króna á gengi dagsins í dag, á árinu 2020. Það er minna tap en var á rekstri félagsins árið 2019 þegar það tapaði 141 milljónum Bandaríkjadala, rúmlega 17 milljörðum króna á núverandi gengi.
Tap á rekstri félagsins var mun meira áður en skattar voru reiknaðir inn, en tap Alvotech fyrir skatta á síðasta ári var tæplega 26 milljarðar króna. Árið áður nam það tap um 17 milljörðum króna og því nemur samanlagt tap Alvotech fyrir skatta á tveimur árum um 43 milljörðum króna. Ástæða þess að heildarafkoma Alvotech er mun skaplegri en afkoma fyrir skatta er sú að félagið nýtti sér mikið uppsafnað og yfirfæranlegt skattalegt tap vegna reksturs fyrri ára.
Þetta kemur fram í ársreikningi Alvotech sem birtur var í ársreikningaskrá á föstudag.
Stór áform
Stærsti hluthafinn í Alvotech er Aztiq Pharma, sjóður sem er undir stjórn Róberts Wessman. Í fyrirtækjaskrá er Róbert skráður óbeinn endanlegur eigandi að 38,6 prósent hlut í Alvotech, sem gefur til kynna að það sé eignarhluturinn sem hann stýrir. Næst stærsti hluthafinn er svo systurfélagið Alvogen, sem er í meirihlutaeigu alþjóðlegu fjárfestingarsjóðanna CVC Capital Partners og Temasek. Róbert á óbeint um fimmtung í Alvogen í gegnum áðurnefnt Aztiq Pharma.
Í viðtali við Kastljós í mars 2021 sagði Róbert að útflutningstekjur Alvotech muni nema um 20 prósentum vergrar landsframleiðslu innan fárra ára.
Sóttu sér fjármagn innanlands
Stefnt er að skráningu Alvotech í alþjóðlega kauphöll síðar á þessu ári eða að skráningu í Bandaríkjunum í gegnum sameiningu við annað lyfjafyrirtæki, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Alvotech vantaði hins vegar fjármagn til að geta starfað fram að þessum tímamótum og sótti það fjármagn ekki alþjóðlega. Þess vegna komu forsvarsmenn fyrirtækisins „heim“ í leit að peningum.
Í mars síðastliðnum greindi Fréttablaðið frá því að Alvotech hafi alls náð að sækja sér um 100 milljónir dala, um 12 milljarða króna, í nýtt hlutafé á fjórum mánuðum. Síðast bættust TM, fjárfestingarfélagið Hvalur og tveir sjóðir Stefnis, sjóðstýringarfyrirtækis Arion banka, í hópinn.
Í ársreikningnum segir að Alvotech muni hafa aðgang að frekari fjármögnun á fyrri hluta ársins 2021 og að hlutafjárútboð félagsins muni verða lokið fyrir árslok. Hið nýja hlutafé muni tryggja nægjanlega fjármögnun til framtíðar.