Mynd: Alvogen

„Andsetnar strategíur“ í stríðinu innan Alvogen

Frá lokum marsmánaðar hafa skeytasendingar gengið fram og til baka á milli fyrrverandi samstarfsmanna í framkvæmdastjórn lyfjafyrirtækisins Alvogen. Ásakanir eru alvarlegar og innihalda ávirðingar um ofbeldi, hótanir, trúnaðarbrot og græðgi.

Þann 6. október 2020 sendi blaðamaður sem sagðist vinna í lausamennsku fyrir miðla á borð við FOX, Dow Jones og ýmsa aðra miðla tölvupóst til Eef Schimmelpennink, fyrrverandi forstjóra Alvotech. 

Í póstinum sagðist blaðamaðurinn vera að vinna að frétt um Alvogen og forstjóra þess fyrirtækis, Róbert Wessman. Meginþemað var að stjórnartíð Róberts væri „umdeild“ og að hegðun hans gagnvart öðrum stjórnendum og starfsmönnum væri athugunarverð. Blaðamaðurinn vildi fá að ræða við Scimmelpennink, sem nú stýrir lyfjafyrirtækinu Pfenex, um reynslu hans á meðan að hann starfaði hjá Alvotech, systurfyrirtæki Alvogen. Sambærilegir póstar voru sendir á ýmsa aðra sem tengjast Alvogen/Alvotech, meðal annars stjórnarmenn. 

Róbert velktist ekki í vafa um hver stæði á bakvið fyrirspurnina. Í tölvupósti sem hann sendi nánustu samstarfsmönnum sínum skrifaði hann: „Björgólfur er búinn að borga þessum til að skrifa um mig[...]ljóst að Björgólfur og hans stm hafa engin vandamál að ljúga upp á menn í fjölmiðlum frekar en réttarsölum.“ Skammstöfunin „stm“ stendur að öllum líkindum fyrir „starfsmenn“ í þessu tilfelli. 

Sá Björgólfur sem þarna er rætt um er Björgólfur Thor Björgólfsson, ríkasti Íslendingurinn og fyrrverandi samstarfsmaður Róberts frá þeim tíma þegar sá síðarnefndi var forstjóri Actavis en sá fyrrnefndi helsti eigandi þess fyrirtækis. Það slettist illa upp á vinskapinn hjá þeim árið 2007. Björgólfur Thor segist hafa rekið Róbert en Róbert segist hafa hætt út af Björgólfi Thor. Síðan þá hafa þeir rifist, og tekist á, með oft barnalegum hætti. Þær orrustur hafa verið háðar í réttarsölum, með því að dæla samanlagt milljörðum króna í fjölmiðlafyrirtæki að einhverju leyti með það fyrir augum að koma höggi á hinn og með allskyns opinberum skeytasendingum sem óvanalegt er að sjá milljarðamæring í Bandaríkjadölum talið og forstjóra alþjóðlegs lyfjafyrirtækis stunda. 

Auglýsing

Kjarninn hafði samband við umræddan blaðamann. Ekkert bendir til annars en að hann hafi verið að vinna að frétt sem hann ætlaði sér að fá birta á viðurkenndum fjölmiðli. Hann hefur engin sýnileg tengsl við Björgólf Thor Björgólfsson.

Af birtingu fréttarinnar hefur þó ekki orðið, meðal annars vegna þess að þáverandi samskiptastjóri Alvogen, með hjálp lögmanns- og almannatengslastofa, hótaði honum lögsókn ef af yrði. 

„Hef enga trú á að Bingi sé í þessu….Hann þekkir enga“

Á meðal þeirra sem Róbert sendi póstinn á innan Alvogen var Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, og samskiptastjóri fyrirtækisins, Halldór Kristmannsson. Hann hafði starfað að mestu við hlið Róberts í 18 ár, allt frá Actavis-árunum, og á milli þeirra hafði líka verið persónuleg vinátta. 

Halldór sendi Róberti og Árna tölvupóst 7. október 2020 þar sem hann lagði til að reynt yrði að taka símtal við blaðamanninn í gegnum þriðja aðila, að þar yrði gefið í skyn að möguleiki væri á að fá hjá viðkomandi upplýsingar og að símtalið yrði tekið upp. Tilgangurinn væri að komast að því hvað blaðamaðurinn raunverulega vissi. „Hvaðan kemur þetta – ef búið að tala við Mark eða ef hann hefur sms eins og þú hélst Árni þá vitum við að Novator er á bakvið þetta. Hef enga trú á að Bingi sé í þessu….Hann þekkir enga“.

Halldór Kristmannsson starfaði náið með Róberti Wessman í 18 ár. Hér sjást þeir saman árið 2004 þegar nafni Pharmaco var breytt í Actavis.
Mynd: Golli

„Bingi“, sem Halldór hafði enga trú á að stæði á bakvið málið er fjölmiðlamaðurinn Björn Ingi Hrafnsson. Sá Mark sem þarna er minnst á er Mark Keatley, fyrrverandi fjármálastjóri Actavis, og sms-in eru nú orðin vel þekkt á Íslandi, eftir að hafa verið birt í fjölmiðlum í síðasta mánuði. Þau sendi Róbert Wessman á Keatley og Claudio Albrecht, fyrrverandi forstjóra Actavis, eftir að sá fyrrnefndi hafði borið vitni í skaðabótamáli sem Björgólfur Thor hafði höfðað á hendur Róberti, sem mislíkaði mjög vitnisburðurinn. Smáskilaboðin sem hann sendi á mennina tvo urðu á endanum 33 talsins og í þeim hótaði hann þeim meðal annars dauða. Á meðal skilaboða sem Keatley fékk var: „Halló skíthæll ég mun rústa þér og fjölskyldu þinni“ og „Ég mun drepa þig“. Albrecht fékk meðal annars sent: „Bottomlænið er að þú ert dauður ég lofa“.

Andsetin strategía

En þarna, í október í fyrra, höfðu þessi skilaboð ekki komið fyrir sjónir almennings. Örfáir höfðu séð þau, þótt stærri hópur hefði vitneskju um tilveru þeirra. Á meðal þeirra sem vissu af skilaboðunum voru stjórnarmenn í Alvogen. Þeim hafði verið greint frá þeim strax eftir að þau voru send 2016 og Róbert hafði beðið alla hlutaðeigandi, jafnt þá sem fengu skilaboðin og stjórnarmenn, afsökunar á framferði sínu. Skoðun fór fram á framferðinu á vettvangi stjórnar á þeim tíma. Og þeir Keatley og Albrecht höfðu samþykkt að gleyma málinu. 

Auglýsing

Að kvöldi þriðjudagsins 13. október var málið enn á dagskrá. Ekkert hafði birst eftir blaðamanninn og stjórnendur Alvogen voru að velta fyrir sér næstu skrefum. Halldór sendi póst á Árna og Róbert þar sem hann reyndi „að setja mig inn í svona andsetna strategíu þá myndi þetta vinnast ca svona:

A. Blaðamaður fær greitt fyrir að þyrla ryki, hringja út og suður og sjá hvað hann finnur. Fær gögn og upplýsingar sem við vitum ekki ennþá hvers eðlis eru og verkefnið er að skrifa meiðandi grein um RW og Alvogen/Alvotech. 

B. Greinin birtist á platformi eins og hann hefur skrifað á sem hefur engan trúverðugleika og lítinn lestur.

C. Hann deilir á Twitter hjá sér og vinir og vandamenn deila og má alveg ímynda sér nokkur hundruð manns að deila og gefa comment en allt einhverjir apakettir.

D. En svo munu þeir mögulega senda þessa frétt á stjórnarmenn, partners og aðra til að skaða ímynd RW og þau verkefni sem við erum að vinna í. 

a. Hér mæli ég með því að um leið og greinin birtist látum við berast boð á nokkra vel valda staði að láta okkur vita osfrv.

E. Viðkomandi sendir þetta svo á haug af blaðamönnum og enginn pikkar þetta upp – nema það sé einher alvöru source í þessu eða gögn sem ekki hafa sést áður osfrv.

Það er ýmistlegt sem við getum gert til að undirbúa okkur og best að byrja á morgun. Possum samt að gera þetta allt yfirvegað og ekki láta neinn heyra að þetta gæti verið BTB osfrv.....höldum því öllu bara fyrir okkur í bili amk því markmiðið með þessu er væntanlega að skoða process og koma okkur úr jafnvægi og við látum það ekki gerast.“

Halldór hittir Björgólf Thor

Um mánuði síðar, í nóvember 2020, fór Halldór Kristmannsson á fund Björgólfs Thors Björgólfssonar. Sá fundur var hluti af vegferð Halldórs sem í fólst að setja sig í samband við alla meinta óvildarmenn Róberts Wessman, sem Róbert hafði borið þungum sökum og vildi að sögn Halldórs koma höggi á. 

Björgólfur Thor Björgólfsson og Róbert Wessman hafa verið ósáttir frá því fyrir hrun.
Mynd: Revista Capital

Eitthvað hafði gerst í millitíðinni, frá byrjun október og fram í nóvember, sem gerði það að verkum að Halldór taldi sig þurfa að eiga slíka fundi. Sjálfur hefur Halldór síðar sagt, í yfirlýsingu sem hann sendi á fjölmiðla 29. mars 2021, að það hafi myndast alvarlegur ágreiningur milli hans og Róberts í september 2020 „þegar Róbert bar háttsetta embættismenn á Íslandi, alþjóðlegan fjárfesti og blaðamann þungum sökum. Í tugum tölvupósta og textaskilaboða Róberts eru umræddir óvildarmenn bornir þungum sökum, sem ég tel að hafi í senn verið algjörlega ósannar og svívirðilegar.“

Síðar hefur verið upplýst um að embættismennirnir sem um ræðir eru Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, og Páll Winkel, fangelsismálastjóri. Alþjóðlegi fjárfestirinn er Björgólfur Thor en ekki hafa fengist óyggjandi upplýsingar um hver blaðamaðurinn sé, en fyrir liggur staðfesting um að hann er íslenskur og starfi á íslenskum fjölmiðli.

Einn þeirra sem Róbert Wessman á að hafa hafa borið þungum sökum er Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér 7. apríl sagðist Halldór hafa hitt Björgólf Thor til að spyrja hann um „ósæmilega hegðun Róberts, þegar hann var forstjóri Actavis. Hann hafi staðfest við mig ákveðna atburðarás í ágúst 2008, sem ég taldi mikilvægt að upplýsa um. Á þessum tíma hafi Róbert hringt í Sigurð Óla Ólafsson, aðstoðarforstjóra Actavis og gert tilraun til að segja honum upp störfum undir áhrifum áfengis. Ég staðfesti við nefndina að Björgólfur Thor hafi umsvifalaust rekið Róbert frá Actavis fyrir þessa ósæmilegu hegðun. Ég taldi þessar upplýsingar mikilvægar fyrir rannsókn málsins og sýni að ósæmileg hegðun Róberts nái yfir að minnsta kosti 12 ára tímabil. Björgólfur Thor virðist því vera eini maðurinn sem hafi sýnt kjark til að stöðva ósæmilega hegðun Róberts“.

Í veikindaleyfi

Þann 16. desember 2020 fór Halldór Kristmannsson svo í veikindaleyfi um óákveðinn tíma frá störfum hjá Alvogen. Í læknisvottorði sem fylgdi með tölvupósti sem Halldór sendi til yfirmanna voru ekki gefnar nánari skýringar á ástæðum þess að þörf væri á slíku leyfi. Í stefnu Alvogen á hendur Halldóri, sem birt var honum nýverið fyrir utan líkamsræktarstöðina World Class í Kópavogi, kemur þó fram að hann hafi upplýst í tölvupóstinum að hann hefði höfuðkúpubrotnað í febrúar 2020 og að það hafi haft heilsufarslegar afleiðingar. 

Auglýsing

Í stefnunni segir að næsta dag, 17. desember, hafi Halldór farið með tveimur undirmönnum sínum út að borða á veitingastað í Reykjavík. „Yfir kvöldmatnum fór stefndi að bera upp ýmsar sakir á forstjóra stefnanda og stjórnunarhætti hans.“

Þar segir enn fremur að sem lykilstarfsmaður hjá Alvogen í meira en áratug hafi Halldór haft „aðgang að ýmsum viðkvæmum trúnaðarupplýsingum um bæði fjárhagsmálefni og önnur innri mál stefnanda [Alvogen]“. 

Fjölmiðlaumsvifin

Róbert Wessman hafði tekið þátt í fjármögnun á fjölmiðlarekstri á Íslandi á bakvið tjöldin árum saman. Sú fjármögnun hófst þegar félag í hans eigu ákvað að leigja Pressunni, netfjölmiðli undir stjórn áðurnefnds Björns Inga Hrafnssonar, skrifstofur í Turninum í Kópavogi skömmu eftir bankahrunið. Viðmælendur Kjarnans sem þekkja til segja að leigugreiðslur hafi reglulega ekki skilað sér og þeirri skuld hafi síðar verið breytt í hlutafé. 

Á næstu árum, sérstaklega á milli 2014 og 2017, tók Róbert þátt í fjármögnun á sístækkandi fjölmiðlaveldi Björns Inga. Eftir að það veldi hrundi sátu þeir eftir með tímaritaútgáfuna Birting og ákváðu að hefja útgáfu á fríblaðinu Mannlífi, sem reyndist mjög kostnaðarsamt.

Alls telja viðmælendur Kjarnans að kostnaður Róberts og samstarfsmanna hans vegna fjölmiðlaþátttöku þeirra síðastliðinn rúma áratug nemi nálægt milljarði króna. 

Þessu ævintýri lauk í lok júní 2020 með því að útistandandi rimlagjöld voru hreinsuð upp og framkvæmdastjóri Birtings tók yfir fyrirtækið án greiðslu. Samhliða var gerður samstarfssanningur um rekstur vefsvæðisins Mannlífs.is, sem þá var í ritstjórn Reynis Traustasonar, sem yrði í eigu og umsjón Halldórs Kristmannssonar.

Í stefnu Alvogen á hendur Halldóri er tilgreint að daganna 16. til 19. janúar 2021 hafi birst nokkrar fréttir um Róbert Wessman á Mannlíf.is sem að mati lögmanns fyrirtækisins báru flestar það með sér „að verið væri að reyna að kasta rýrð á persónulegt mannorð forstjóra stefnanda og stuðla að neikvæðri ímynd hans, með tilheyrandi skaðlegum áhrifum“.

Umræddar fréttir fjölluðu um að Róbert hefði fjármagnað málarekstur fyrrverandi hluthafa Landsbanka Íslands gegn Björgólfi Thor. Kjarninn hafði opinberað í meginatriðum sama mál í fréttaskýringu í október 2015. 

Bréf sent til stjórnar

Daginn eftir að síðasta fréttin í þessari seríu Mannlífs birtist, 20. janúar 2021, sendi Halldór fjögur bréf í gegnum lögmenn sína í Bretlandi og Bandaríkjunum til stjórnarmanna móðurfélags Alvogen, stjórnarmanna Alvotech, stjórnarmanna í Lotus Pharmaceuticals sem tengist samstæðunni og á Róbert Wessman sjálfan.

Halldór vill lagalega stöðu sem uppljóstrari

Í byrjun árs 2021 tók gildi ný lög um vernd uppljóstrara á Íslandi. Þau gilda um starfs­menn sem greina í góðri trú frá upp­lýs­ingum eða miðla gögnum um brot á lögum eða aðra ámæl­is­verða hátt­semi í starf­semi vinnu­veit­enda þeirra. Frum­varpið var upp­haf­lega samið af nefnd um umbætur á lög­gjöf á sviði tján­ing­ar-, fjöl­miðla- og upp­lýs­inga­frelsis sem for­sæt­is­ráð­herra skip­aði þann 16. mars 2018.Í frum­varp­inu er greint á milli innri og ytri upp­ljóstr­unar og miðað við að hið síð­ar­nefnda sé jafnan ekki heim­ilt nema hið fyrr­nefnda hafi verið reynt til þrautar og um sé að ræða brot sem varðar fang­els­is­refs­ingu eða í húfi séu afar brýnir almanna­hags­mun­ir.

Sam­kvæmt lög­unum telst miðlun upp­lýs­inga eða gagna, að upp­fylltum skil­yrðum frum­varps­ins, ekki brot á þagn­ar- eða trún­að­ar­skyldu starfs­manns. Hún leggi hvorki refsi- né skaða­bóta­byrgð á hann og geti ekki heldur leitt til stjórn­sýslu­við­ur­laga eða íþyngj­andi úrræða að starfs­manna­rétti. Þá er lagt sér­stakt bann við því að láta hvern þann sæta órétt­látri með­ferð sem miðlað hefur upp­lýs­ingum eða gögnum sam­kvæmt skil­yrðum lag­anna. Lögð er sönn­un­ar­byrði á atvinnu­rek­anda á þann hátt að ef líkur eru leiddar að órétt­látri með­ferð skal hann sýna fram á að sú sé ekki raunin og greiða skaða­bætur ef það tekst ekki.

Halldór Kristmannsson skilgreinir sig sem uppljóstrara á grundvelli þessara laga. Í fyrstu yfirlýsingunni sem hann sendi frá sér vegna málsins segir meðal annars: „Ég er bundinn trúnaði um flest þau atriði sem ég lagði fram fyrir stjórnir fyrirtækjanna, en tel mig þó vera í fullum rétti sem uppljóstrara að greina frá persónulegum atriðum, sem ekki varða beinlínis hagsmuni fyrirtækjanna.“

Í stefnu Alvogen á hendur Halldóri er sérstaklega reynt að rökstyðja að hann eigi ekki að njóta sérstakrar verndar sem uppljóstrari sem setji fyrirtækinu skorður við „riftun og uppsögn ráðningarsambands uppljóstrara“. Það er gert með því að segja að Halldór hafi brotið alvarlega gegn trúnaðarskyldum sínum og því megi Alvogen segja honum upp, sem fyrirtækið hefur þegar gert.

Það hafi Halldór meðal annars gert með upplýsingaleka til fjölmiðla. Þeir fjölmiðlar sem eru nefndir í stefnunni eru Bloomberg News, Mannlíf og Stundin. Þá segir í henni að svo virðist „jafnframt sem fréttaskýringaþátturinn Kveiku á RÚV hafi fengið afrit af bréfum stefnda frá 20. janúar 2021. Þannig hafa fréttamenn þáttarins haft samband við starfsmenn stefndana með nákvæmar fyrirspurnir um atriði sem hafa vert getað komið annars staðar frá en úr bréfum stefnda“.

Hina „mikilvægu vernd laganna megi ekki hagnýta sér án tilefnis í persónulegum tilgangi eins og hér um ræðir“.

Í einu bréfinu, sem Kjarninn hefur undir höndum, eru settar fram alvarlegar ásakanir á hendur Róberti. Hann er sagður hafa orðið upp­vís að morð­hót­un­um, lík­ams­árásum, sví­virði­legum ásök­unum og æru­meið­ingum í garð meintra óvild­ar­manna. Þá hafi Róbert lagt á ráðin um rógs­her­ferðir í fjöl­miðlum gegn ýmsu fólki sem hann hafi borið kala til. Þar á meðal hafi verið alþjóðlegur fjárfestir, tveir embættismenn og blaðamaður. Sjálfur segir Hall­dór að hann hafi verið „kýldur kald­ur“ í vitna við­ur­vist. 

Í bréfinu sem stílað er á Róbert sjálfan, er fjallað um persónulegar skuldbindingar Róberts við Halldór. Þar er farið fram á að Róbert segi af sér sem forstjóri Alvogen og að Halldóri verði gert kleift að snúa aftur í sitt starf hjá fyrirtækinu. Auk þess segir að Halldór búist við því að Róbert geri honum umtalsvert tilboð um fjárhagslega greiðslu vegna þess skaða sem Halldór taldi sig hafa orðið fyrir. Engin upphæð er þó nefnd í því sambandi. 

Auglýsing

Halldór hefur ætið haldið því fram að hann hafi geri engar fjárhagslegar kröfur á hendur Alvogen eða Alvotech. Hann hafi þó áskilið sér rétt til að sækja bætur til Róberts persónulega.

Ekkert að sjá hér

Málið hafði strax þær afleiðingar að skipuð var nefnd sem sögð var mönnuð óháðum stjórnendum auk þess sem bandaríska lögmannsstofan White & Case LLP var ráðin til að framkvæma athugun á ásökunum Halldórs. Thomas Ekman, einn af eigendur CVC Capital Partners (eins stærsta hluthafa Alvogen) leiddi umrædda rannsókn fyrir hönd stjórnar fyrirtækisins. 

Niðurstaðan lá fyrir í síðasta mánuði, átta vikum eftir að rannsóknin hófst. Í yfirlýsingu sem stjórn Alvogen sendi frá sér vegna þessa sagði að efni kvartanna Halldórs ætti sér ekki stoð. „Ekk­ert bend­ir til þess að starfs­hætt­ir Rób­erts Wessman séu þess eðl­is sem greint er frá í bréf­in­u og eng­in á­stæð­a er til þess að að­haf­­ast neitt vegn­a þess­a máls.“ 

Kjarninn hefur ekki fengið aðgang að gögnum rannsóknarinnar.

Í kjölfarið fór allt opinberlega upp í háa loft. Halldór sendi frá sér yfirlýsingu þar sem efni þeirra atriða sem hann lagði fyrir stjórnir Alvogen og Alvotech var opinberað að mestu. Auk smáskilaboðanna voru settar fram ásakanir um vilja Róberts Wessman til að vega að æru og mannorði manna sem hann taldi sig hafa átt eitthvað sökótt við með misnotkun á fjölmiðlum sem hópurinn stýrði og um líkamsárásir sem Róbert átti að hafa framið undir áhrifum áfengis. Önnur þeirra átti að vera gegn Halldóri sjálfum og hin gegn ónafngreindum stjórnanda innan samstæðunnar á viðburði í Austurríki fyrir nokkrum árum síðan fyrir framan tugi vitna. 

Engin vitni hafa þó gefið sig fram opinberlega þrátt fyrir umleitanir fjölmiðla hérlendis og erlendis. Halldór hefur sjálfur kallað eftir því að öll gögn sem tengist yfirheyrslum sem ráðist var í vegna rannsóknar á málinu verði gerð aðgengileg fjölmiðlum. 

Við því hefur ekki verið orðið. 

Fórnarlambið sendi póst og mærði Róbert

Hér ofar var minnst á Mark Keatley, annan þeirra manna sem urðu fyrir hrinu smáskilaboða frá Róberti Wessman árið 2016 þar sem hann hótaði þeim meðal annars lífláti. Sá sendi tölvupóst til Tomas Ekman, sem situr í stjórn Alvogen fyrir hönd stærsta hluthafa fyrirtækisins CVC Capital Partners, sem er dagsettur 1. apríl 2021.

Pósturinn, sem Kjarninn hefur undir höndum og er á ensku, var sendur sem viðbragð við þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í íslenskum fjölmiðlum síðustu vikur.

Í honum segir Keatley að hann sé hissa á því að fjölmiðlar séu að opna á þetta gamla mál með smáskilaboðin sem Róbert hefði sent honum snemma árs 2016. „Eins og þú veist þá bað Róbert mig samstundis og af mikilli tilfinningu afsökunar fyrir það orðbragð sem hann notaði í skilaboðunum. Þótt orðin hafi verið óviðeigandi – sem hann hefur gengist við – þá setti ég þau í samhengi við þær heitu tilfinningar sem voru uppi á þessum tíma. Hafandi þekkt Róbert vel síðan 2005 þá tók ég orðum hans ekki sem hótun gagnvart mér eða fjölskyldu minni. Ég féllst á afsökunarbeiðni hans og við erum fyrir löngu búnir að setja málið fyrir aftan okkur.“

Síðar í tölvupóstinum mærir Keatley Róbert Wessman fyrir viðskiptasnilld og segir að hann og Róbert hafi unnið saman að ýmsum verkefnum frá því að skilaboðin voru send. Það væri ósanngjarnt ef að fjölmiðlar væru að gefa fyrrverandi starfsmanni Alvogen sem væri að reyna að skaða fyrirtækið trúverðugleika.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar