Mynd: Alvogen

„Andsetnar strategíur“ í stríðinu innan Alvogen

Frá lokum marsmánaðar hafa skeytasendingar gengið fram og til baka á milli fyrrverandi samstarfsmanna í framkvæmdastjórn lyfjafyrirtækisins Alvogen. Ásakanir eru alvarlegar og innihalda ávirðingar um ofbeldi, hótanir, trúnaðarbrot og græðgi.

Þann 6. októ­ber 2020 sendi blaða­maður sem sagð­ist vinna í lausa­mennsku fyrir miðla á borð við FOX, Dow Jones og ýmsa aðra miðla tölvu­póst til Eef Schimmelpenn­ink, fyrr­ver­andi for­stjóra Alvot­ech. 

Í póst­inum sagð­ist blaða­mað­ur­inn vera að vinna að frétt um Alvogen og for­stjóra þess fyr­ir­tæk­is, Róbert Wessm­an. Meg­in­þemað var að stjórn­ar­tíð Róberts væri „um­deild“ og að hegðun hans gagn­vart öðrum stjórn­endum og starfs­mönnum væri athug­un­ar­verð. Blaða­mað­ur­inn vildi fá að ræða við Scimmelpenn­ink, sem nú stýrir lyfja­fyr­ir­tæk­inu Pfenex, um reynslu hans á meðan að hann starf­aði hjá Alvot­ech, syst­ur­fyr­ir­tæki Alvogen. Sam­bæri­legir póstar voru sendir á ýmsa aðra sem tengj­ast Alvogen/Al­vot­ech, meðal ann­ars stjórn­ar­menn. 

Róbert velkt­ist ekki í vafa um hver stæði á bak­við fyr­ir­spurn­ina. Í tölvu­pósti sem hann sendi nán­ustu sam­starfs­mönnum sínum skrif­aði hann: „Björgólfur er búinn að borga þessum til að skrifa um mig[...]­ljóst að Björgólfur og hans stm hafa engin vanda­mál að ljúga upp á menn í fjöl­miðlum frekar en rétt­ar­söl­u­m.“ Skamm­stöf­unin „stm“ stendur að öllum lík­indum fyrir „starfs­menn“ í þessu til­felli. 

Sá Björgólfur sem þarna er rætt um er Björgólfur Thor Björg­ólfs­son, rík­asti Íslend­ing­ur­inn og fyrr­ver­andi sam­starfs­maður Róberts frá þeim tíma þegar sá síð­ar­nefndi var for­stjóri Act­a­vis en sá fyrr­nefndi helsti eig­andi þess fyr­ir­tæk­is. Það slett­ist illa upp á vin­skap­inn hjá þeim árið 2007. Björgólfur Thor seg­ist hafa rekið Róbert en Róbert seg­ist hafa hætt út af Björgólfi Thor. Síðan þá hafa þeir rifist, og tek­ist á, með oft barna­legum hætti. Þær orr­ustur hafa verið háðar í rétt­ar­söl­um, með því að dæla sam­an­lagt millj­örðum króna í fjöl­miðla­fyr­ir­tæki að ein­hverju leyti með það fyrir augum að koma höggi á hinn og með allskyns opin­berum skeyta­send­ingum sem óvana­legt er að sjá millj­arða­mær­ing í Banda­ríkja­dölum talið og for­stjóra alþjóð­legs lyfja­fyr­ir­tækis stunda. 

Auglýsing

Kjarn­inn hafði sam­band við umræddan blaða­mann. Ekk­ert bendir til ann­ars en að hann hafi verið að vinna að frétt sem hann ætl­aði sér að fá birta á við­ur­kenndum fjöl­miðli. Hann hefur engin sýni­leg tengsl við Björgólf Thor Björg­ólfs­son.

Af birt­ingu frétt­ar­innar hefur þó ekki orð­ið, meðal ann­ars vegna þess að þáver­andi sam­skipta­stjóri Alvogen, með hjálp lög­manns- og almanna­tengsla­stofa, hót­aði honum lög­sókn ef af yrð­i. 

„Hef enga trú á að Bingi sé í þessu….Hann þekkir enga“

Á meðal þeirra sem Róbert sendi póst­inn á innan Alvogen var Árni Harð­ar­son, aðstoð­ar­for­stjóri Alvogen, og sam­skipta­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins, Hall­dór Krist­manns­son. Hann hafði starfað að mestu við hlið Róberts í 18 ár, allt frá Act­a­vis-ár­un­um, og á milli þeirra hafði líka verið per­sónu­leg vin­átta. 

Hall­dór sendi Róberti og Árna tölvu­póst 7. októ­ber 2020 þar sem hann lagði til að reynt yrði að taka sím­tal við blaða­mann­inn í gegnum þriðja aðila, að þar yrði gefið í skyn að mögu­leiki væri á að fá hjá við­kom­andi upp­lýs­ingar og að sím­talið yrði tekið upp. Til­gang­ur­inn væri að kom­ast að því hvað blaða­mað­ur­inn raun­veru­lega vissi. „Hvaðan kemur þetta – ef búið að tala við Mark eða ef hann hefur sms eins og þú hélst Árni þá vitum við að Novator er á bak­við þetta. Hef enga trú á að Bingi sé í þessu….Hann þekkir enga“.

Halldór Kristmannsson starfaði náið með Róberti Wessman í 18 ár. Hér sjást þeir saman árið 2004 þegar nafni Pharmaco var breytt í Actavis.
Mynd: Golli

„Bing­i“, sem Hall­dór hafði enga trú á að stæði á bak­við málið er fjöl­miðla­mað­ur­inn Björn Ingi Hrafns­son. Sá Mark sem þarna er minnst á er Mark Keat­ley, fyrr­ver­andi fjár­mála­stjóri Act­a­vis, og sms-in eru nú orðin vel þekkt á Íslandi, eftir að hafa verið birt í fjöl­miðlum í síð­asta mán­uði. Þau sendi Róbert Wessman á Keatley og Claudio Albrecht, fyrr­ver­andi for­stjóra Act­a­vis, eftir að sá fyrr­nefndi hafði borið vitni í skaða­bóta­máli sem Björgólfur Thor hafði höfðað á hendur Róberti, sem mis­lík­aði mjög vitn­is­burð­ur­inn. Smá­skila­boðin sem hann sendi á menn­ina tvo urðu á end­anum 33 tals­ins og í þeim hót­aði hann þeim meðal ann­ars dauða. Á meðal skila­boða sem Keatley fékk var: „Halló skít­hæll ég mun rústa þér og fjöl­skyldu þinni“ og „Ég mun drepa þig“. Albrecht fékk meðal ann­ars sent: „Bott­om­lænið er að þú ert dauður ég lof­a“.

And­setin stra­tegía

En þarna, í októ­ber í fyrra, höfðu þessi skila­boð ekki komið fyrir sjónir almenn­ings. Örfáir höfðu séð þau, þótt stærri hópur hefði vit­neskju um til­veru þeirra. Á meðal þeirra sem vissu af skila­boð­unum voru stjórn­ar­menn í Alvogen. Þeim hafði verið greint frá þeim strax eftir að þau voru send 2016 og Róbert hafði beðið alla hlut­að­eig­andi, jafnt þá sem fengu skila­boðin og stjórn­ar­menn, afsök­unar á fram­ferði sínu. Skoðun fór fram á fram­ferð­inu á vett­vangi stjórnar á þeim tíma. Og þeir Keatley og Albrecht höfðu sam­þykkt að gleyma mál­in­u. 

Auglýsing

Að kvöldi þriðju­dags­ins 13. októ­ber var málið enn á dag­skrá. Ekk­ert hafði birst eftir blaða­mann­inn og stjórn­endur Alvogen voru að velta fyrir sér næstu skref­um. Hall­dór sendi póst á Árna og Róbert þar sem hann reyndi „að setja mig inn í svona and­setna stra­tegíu þá myndi þetta vinn­ast ca svona:

A. Blaða­maður fær greitt fyrir að þyrla ryki, hringja út og suður og sjá hvað hann finn­ur. Fær gögn og upp­lýs­ingar sem við vitum ekki ennþá hvers eðlis eru og verk­efnið er að skrifa meið­andi grein um RW og Alvogen/Al­vot­ech. 

B. Greinin birt­ist á plat­formi eins og hann hefur skrifað á sem hefur engan trú­verð­ug­leika og lít­inn lest­ur.

C. Hann deilir á Twitter hjá sér og vinir og vanda­menn deila og má alveg ímynda sér nokkur hund­ruð manns að deila og gefa comment en allt ein­hverjir apa­k­ett­ir.

D. En svo munu þeir mögu­lega senda þessa frétt á stjórn­ar­menn, partners og aðra til að skaða ímynd RW og þau verk­efni sem við erum að vinna í. 

a. Hér mæli ég með því að um leið og greinin birt­ist látum við ber­ast boð á nokkra vel valda staði að láta okkur vita osfrv.

E. Við­kom­andi sendir þetta svo á haug af blaða­mönnum og eng­inn pikkar þetta upp – nema það sé ein­her alvöru source í þessu eða gögn sem ekki hafa sést áður osfrv.

Það er ýmist­legt sem við getum gert til að und­ir­búa okkur og best að byrja á morg­un. Possum samt að gera þetta allt yfir­vegað og ekki láta neinn heyra að þetta gæti verið BTB osfr­v.....höldum því öllu bara fyrir okkur í bili amk því mark­miðið með þessu er vænt­an­lega að skoða process og koma okkur úr jafn­vægi og við látum það ekki ger­ast.“

Hall­dór hittir Björgólf Thor

Um mán­uði síð­ar, í nóv­em­ber 2020, fór Hall­dór Krist­manns­son á fund Björg­ólfs Thors Björg­ólfs­son­ar. Sá fundur var hluti af veg­ferð Hall­dórs sem í fólst að setja sig í sam­band við alla meinta óvild­ar­menn Róberts Wess­man, sem Róbert hafði borið þungum sökum og vildi að sögn Hall­dórs koma höggi á. 

Björgólfur Thor Björgólfsson og Róbert Wessman hafa verið ósáttir frá því fyrir hrun.
Mynd: Revista Capital

Eitt­hvað hafði gerst í milli­tíð­inni, frá byrjun októ­ber og fram í nóv­em­ber, sem gerði það að verkum að Hall­dór taldi sig þurfa að eiga slíka fundi. Sjálfur hefur Hall­dór síðar sagt, í yfir­lýs­ingu sem hann sendi á fjöl­miðla 29. mars 2021, að það hafi mynd­ast alvar­legur ágrein­ingur milli hans og Róberts í sept­em­ber 2020 „þegar Róbert bar hátt­setta emb­ætt­is­menn á Íslandi, alþjóð­legan fjár­festi og blaða­mann þungum sök­um. Í tugum tölvu­pósta og texta­skila­boða Róberts eru umræddir óvild­ar­menn bornir þungum sök­um, sem ég tel að hafi í senn verið algjör­lega ósannar og sví­virði­leg­ar.“

Síðar hefur verið upp­lýst um að emb­ætt­is­menn­irnir sem um ræðir eru Har­aldur Johann­essen, fyrr­ver­andi rík­is­lög­reglu­stjóri, og Páll Win­kel, fang­els­is­mála­stjóri. Alþjóð­legi fjár­festir­inn er Björgólfur Thor en ekki hafa feng­ist óyggj­andi upp­lýs­ingar um hver blaða­mað­ur­inn sé, en fyrir liggur stað­fest­ing um að hann er íslenskur og starfi á íslenskum fjöl­miðli.

Einn þeirra sem Róbert Wessman á að hafa hafa borið þungum sökum er Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í yfir­lýs­ingu sem hann sendi frá sér 7. apríl sagð­ist Hall­dór hafa hitt Björgólf Thor til að spyrja hann um „ósæmi­lega hegðun Róberts, þegar hann var for­stjóri Act­a­v­is. Hann hafi stað­fest við mig ákveðna atburða­rás í ágúst 2008, sem ég taldi mik­il­vægt að upp­lýsa um. Á þessum tíma hafi Róbert hringt í Sig­urð Óla Ólafs­son, aðstoð­ar­for­stjóra Act­a­vis og gert til­raun til að segja honum upp störfum undir áhrifum áfeng­is. Ég stað­festi við nefnd­ina að Björgólfur Thor hafi umsvifa­laust rekið Róbert frá Act­a­vis fyrir þessa ósæmi­legu hegð­un. Ég taldi þessar upp­lýs­ingar mik­il­vægar fyrir rann­sókn máls­ins og sýni að ósæmi­leg hegðun Róberts nái yfir að minnsta kosti 12 ára tíma­bil. Björgólfur Thor virð­ist því vera eini mað­ur­inn sem hafi sýnt kjark til að stöðva ósæmi­lega hegðun Róberts“.

Í veik­inda­leyfi

Þann 16. des­em­ber 2020 fór Hall­dór Krist­manns­son svo í veik­inda­leyfi um óákveð­inn tíma frá störfum hjá Alvogen. Í lækn­is­vott­orði sem fylgdi með tölvu­pósti sem Hall­dór sendi til yfir­manna voru ekki gefnar nán­ari skýr­ingar á ástæðum þess að þörf væri á slíku leyfi. Í stefnu Alvogen á hendur Hall­dóri, sem birt var honum nýverið fyrir utan lík­ams­rækt­ar­stöð­ina World Class í Kópa­vogi, kemur þó fram að hann hafi upp­lýst í tölvu­póst­inum að hann hefði höf­uð­kúpu­brotnað í febr­úar 2020 og að það hafi haft heilsu­fars­legar afleið­ing­ar. 

Auglýsing

Í stefn­unni segir að næsta dag, 17. des­em­ber, hafi Hall­dór farið með tveimur und­ir­mönnum sínum út að borða á veit­inga­stað í Reykja­vík. „Yfir kvöld­matnum fór stefndi að bera upp ýmsar sakir á for­stjóra stefn­anda og stjórn­un­ar­hætti hans.“

Þar segir enn fremur að sem lyk­il­starfs­maður hjá Alvogen í meira en ára­tug hafi Hall­dór haft „að­gang að ýmsum við­kvæmum trún­að­ar­upp­lýs­ingum um bæði fjár­hags­mál­efni og önnur innri mál stefn­anda [Al­vogen]“. 

Fjöl­miðlaum­svifin

Róbert Wessman hafði tekið þátt í fjár­mögnun á fjöl­miðla­rekstri á Íslandi á bak­við tjöldin árum sam­an. Sú fjár­mögnun hófst þegar félag í hans eigu ákvað að leigja Press­unni, net­fjöl­miðli undir stjórn áður­nefnds Björns Inga Hrafns­son­ar, skrif­stofur í Turn­inum í Kópa­vogi skömmu eftir banka­hrun­ið. Við­mæl­endur Kjarn­ans sem þekkja til segja að leigu­greiðslur hafi reglu­lega ekki skilað sér og þeirri skuld hafi síðar verið breytt í hluta­fé. 

Á næstu árum, sér­stak­lega á milli 2014 og 2017, tók Róbert þátt í fjár­mögnun á sístækk­andi fjöl­miðla­veldi Björns Inga. Eftir að það veldi hrundi sátu þeir eftir með tíma­rita­út­gáf­una Birt­ing og ákváðu að hefja útgáfu á frí­blað­inu Mann­lífi, sem reynd­ist mjög kostn­að­ar­samt.

Alls telja við­mæl­endur Kjarn­ans að kostn­aður Róberts og sam­starfs­manna hans vegna fjöl­miðla­þátt­töku þeirra síð­ast­lið­inn rúma ára­tug nemi nálægt millj­arði króna. 

Þessu ævin­týri lauk í lok júní 2020 með því að útistand­andi rimla­gjöld voru hreinsuð upp og fram­kvæmda­stjóri Birt­ings tók yfir fyr­ir­tækið án greiðslu. Sam­hliða var gerður sam­starfs­s­ann­ingur um rekstur vef­svæð­is­ins Mann­lífs.is, sem þá var í rit­stjórn Reynis Trausta­son­ar, sem yrði í eigu og umsjón Hall­dórs Krist­manns­son­ar.

Í stefnu Alvogen á hendur Hall­dóri er til­greint að dag­anna 16. til 19. jan­úar 2021 hafi birst nokkrar fréttir um Róbert Wessman á Mann­líf.is sem að mati lög­manns fyr­ir­tæk­is­ins báru flestar það með sér „að verið væri að reyna að kasta rýrð á per­sónu­legt mann­orð for­stjóra stefn­anda og stuðla að nei­kvæðri ímynd hans, með til­heyr­andi skað­legum áhrif­um“.

Umræddar fréttir fjöll­uðu um að Róbert hefði fjár­magnað mála­rekstur fyrr­ver­andi hlut­hafa Lands­banka Íslands gegn Björgólfi Thor. Kjarn­inn hafði opin­berað í meg­in­at­riðum sama mál í frétta­skýr­ingu í októ­ber 2015. 

Bréf sent til stjórnar

Dag­inn eftir að síð­asta fréttin í þess­ari seríu Mann­lífs birtist, 20. jan­úar 2021, sendi Hall­dór fjögur bréf í gegnum lög­menn sína í Bret­landi og Banda­ríkj­unum til stjórn­ar­manna móð­ur­fé­lags Alvogen, stjórn­ar­manna Alvot­ech, stjórn­ar­manna í Lotus Pharmaceut­icals sem teng­ist sam­stæð­unni og á Róbert Wessman sjálf­an.

Halldór vill lagalega stöðu sem uppljóstrari

Í byrjun árs 2021 tók gildi ný lög um vernd uppljóstrara á Íslandi. Þau gilda um starfs­menn sem greina í góðri trú frá upp­lýs­ingum eða miðla gögnum um brot á lögum eða aðra ámæl­is­verða hátt­semi í starf­semi vinnu­veit­enda þeirra. Frum­varpið var upp­haf­lega samið af nefnd um umbætur á lög­gjöf á sviði tján­ing­ar-, fjöl­miðla- og upp­lýs­inga­frelsis sem for­sæt­is­ráð­herra skip­aði þann 16. mars 2018.Í frum­varp­inu er greint á milli innri og ytri upp­ljóstr­unar og miðað við að hið síð­ar­nefnda sé jafnan ekki heim­ilt nema hið fyrr­nefnda hafi verið reynt til þrautar og um sé að ræða brot sem varðar fang­els­is­refs­ingu eða í húfi séu afar brýnir almanna­hags­mun­ir.

Sam­kvæmt lög­unum telst miðlun upp­lýs­inga eða gagna, að upp­fylltum skil­yrðum frum­varps­ins, ekki brot á þagn­ar- eða trún­að­ar­skyldu starfs­manns. Hún leggi hvorki refsi- né skaða­bóta­byrgð á hann og geti ekki heldur leitt til stjórn­sýslu­við­ur­laga eða íþyngj­andi úrræða að starfs­manna­rétti. Þá er lagt sér­stakt bann við því að láta hvern þann sæta órétt­látri með­ferð sem miðlað hefur upp­lýs­ingum eða gögnum sam­kvæmt skil­yrðum lag­anna. Lögð er sönn­un­ar­byrði á atvinnu­rek­anda á þann hátt að ef líkur eru leiddar að órétt­látri með­ferð skal hann sýna fram á að sú sé ekki raunin og greiða skaða­bætur ef það tekst ekki.

Halldór Kristmannsson skilgreinir sig sem uppljóstrara á grundvelli þessara laga. Í fyrstu yfirlýsingunni sem hann sendi frá sér vegna málsins segir meðal annars: „Ég er bundinn trúnaði um flest þau atriði sem ég lagði fram fyrir stjórnir fyrirtækjanna, en tel mig þó vera í fullum rétti sem uppljóstrara að greina frá persónulegum atriðum, sem ekki varða beinlínis hagsmuni fyrirtækjanna.“

Í stefnu Alvogen á hendur Halldóri er sérstaklega reynt að rökstyðja að hann eigi ekki að njóta sérstakrar verndar sem uppljóstrari sem setji fyrirtækinu skorður við „riftun og uppsögn ráðningarsambands uppljóstrara“. Það er gert með því að segja að Halldór hafi brotið alvarlega gegn trúnaðarskyldum sínum og því megi Alvogen segja honum upp, sem fyrirtækið hefur þegar gert.

Það hafi Halldór meðal annars gert með upplýsingaleka til fjölmiðla. Þeir fjölmiðlar sem eru nefndir í stefnunni eru Bloomberg News, Mannlíf og Stundin. Þá segir í henni að svo virðist „jafnframt sem fréttaskýringaþátturinn Kveiku á RÚV hafi fengið afrit af bréfum stefnda frá 20. janúar 2021. Þannig hafa fréttamenn þáttarins haft samband við starfsmenn stefndana með nákvæmar fyrirspurnir um atriði sem hafa vert getað komið annars staðar frá en úr bréfum stefnda“.

Hina „mikilvægu vernd laganna megi ekki hagnýta sér án tilefnis í persónulegum tilgangi eins og hér um ræðir“.

Í einu bréf­inu, sem Kjarn­inn hefur undir hönd­um, eru settar fram alvar­legar ásak­anir á hendur Róberti. Hann er sagður hafa orðið upp­­­vís að morð­hót­­un­um, lík­­ams­árásum, sví­virð­i­­legum ásök­unum og æru­­meið­ingum í garð meintra óvild­­ar­­manna. Þá hafi Róbert lagt á ráðin um rógs­her­­ferðir í fjöl­miðlum gegn ýmsu fólki sem hann hafi borið kala til. Þar á meðal hafi verið alþjóð­legur fjár­fest­ir, tveir emb­ætt­is­menn og blaða­mað­ur. Sjálfur segir Hall­­dór að hann hafi verið „kýldur kald­­ur“ í vitna við­­ur­vist. 

Í bréf­inu sem stílað er á Róbert sjálfan, er fjallað um per­sónu­legar skuld­bind­ingar Róberts við Hall­dór. Þar er farið fram á að Róbert segi af sér sem for­stjóri Alvogen og að Hall­dóri verði gert kleift að snúa aftur í sitt starf hjá fyr­ir­tæk­inu. Auk þess segir að Hall­dór búist við því að Róbert geri honum umtals­vert til­boð um fjár­hags­lega greiðslu vegna þess skaða sem Hall­dór taldi sig hafa orðið fyr­ir. Engin upp­hæð er þó nefnd í því sam­band­i. 

Auglýsing

Hall­dór hefur ætið haldið því fram að hann hafi geri engar fjár­hags­legar kröfur á hendur Alvogen eða Alvot­ech. Hann hafi þó áskilið sér rétt til að sækja bætur til Róberts per­sónu­lega.

Ekk­ert að sjá hér

Málið hafði strax þær afleið­ingar að skipuð var nefnd sem sögð var mönnuð óháðum stjórn­endum auk þess sem banda­ríska lög­manns­stofan White & Case LLP var ráðin til að fram­kvæma athugun á ásök­unum Hall­dórs. Thomas Ekman, einn af eig­endur CVC Capi­tal Partners (eins stærsta hlut­hafa Alvogen) leiddi umrædda rann­sókn fyrir hönd stjórnar fyr­ir­tæk­is­ins. 

Nið­ur­staðan lá fyrir í síð­asta mán­uði, átta vikum eftir að rann­sóknin hófst. Í yfir­lýs­ingu sem stjórn Alvogen sendi frá sér vegna þessa sagði að efni kvart­anna Hall­dórs ætti sér ekki stoð. „Ekk­ert bend­ir til þess að starfs­hætt­ir Rób­erts Wessman séu þess eðl­is sem greint er frá í bréf­in­u og eng­in á­stæð­a er til þess að að­haf­­­ast neitt vegn­a þess­a máls.“ 

Kjarn­inn hefur ekki fengið aðgang að gögnum rann­sókn­ar­inn­ar.

Í kjöl­farið fór allt opin­ber­lega upp í háa loft. Hall­dór sendi frá sér yfir­lýs­ingu þar sem efni þeirra atriða sem hann lagði fyrir stjórnir Alvogen og Alvot­ech var opin­berað að mestu. Auk smá­skila­boð­anna voru settar fram ásak­anir um vilja Róberts Wessman til að vega að æru og mann­orði manna sem hann taldi sig hafa átt eitt­hvað sök­ótt við með mis­notkun á fjöl­miðlum sem hóp­ur­inn stýrði og um lík­ams­árásir sem Róbert átti að hafa framið undir áhrifum áfeng­is. Önnur þeirra átti að vera gegn Hall­dóri sjálfum og hin gegn ónafn­greindum stjórn­anda innan sam­stæð­unnar á við­burði í Aust­ur­ríki fyrir nokkrum árum síðan fyrir framan tugi vitna. 

Engin vitni hafa þó gefið sig fram opin­ber­lega þrátt fyrir umleit­anir fjöl­miðla hér­lendis og erlend­is. Hall­dór hefur sjálfur kallað eftir því að öll gögn sem teng­ist yfir­heyrslum sem ráð­ist var í vegna rann­sóknar á mál­inu verði gerð aðgengi­leg fjöl­miðl­u­m. 

Við því hefur ekki verið orð­ið. 

Fórnarlambið sendi póst og mærði Róbert

Hér ofar var minnst á Mark Keatley, annan þeirra manna sem urðu fyrir hrinu smáskilaboða frá Róberti Wessman árið 2016 þar sem hann hótaði þeim meðal annars lífláti. Sá sendi tölvupóst til Tomas Ekman, sem situr í stjórn Alvogen fyrir hönd stærsta hluthafa fyrirtækisins CVC Capital Partners, sem er dagsettur 1. apríl 2021.

Pósturinn, sem Kjarninn hefur undir höndum og er á ensku, var sendur sem viðbragð við þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í íslenskum fjölmiðlum síðustu vikur.

Í honum segir Keatley að hann sé hissa á því að fjölmiðlar séu að opna á þetta gamla mál með smáskilaboðin sem Róbert hefði sent honum snemma árs 2016. „Eins og þú veist þá bað Róbert mig samstundis og af mikilli tilfinningu afsökunar fyrir það orðbragð sem hann notaði í skilaboðunum. Þótt orðin hafi verið óviðeigandi – sem hann hefur gengist við – þá setti ég þau í samhengi við þær heitu tilfinningar sem voru uppi á þessum tíma. Hafandi þekkt Róbert vel síðan 2005 þá tók ég orðum hans ekki sem hótun gagnvart mér eða fjölskyldu minni. Ég féllst á afsökunarbeiðni hans og við erum fyrir löngu búnir að setja málið fyrir aftan okkur.“

Síðar í tölvupóstinum mærir Keatley Róbert Wessman fyrir viðskiptasnilld og segir að hann og Róbert hafi unnið saman að ýmsum verkefnum frá því að skilaboðin voru send. Það væri ósanngjarnt ef að fjölmiðlar væru að gefa fyrrverandi starfsmanni Alvogen sem væri að reyna að skaða fyrirtækið trúverðugleika.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar