Fulltrúar Amnesty International kusu í dag með tillögu um að samtökin styðji afglæpavæðingu vændis. Tillagan sem var samþykkt á aðalfundi samtakanna í dag kveður jafnframt á um að einstaklingar í kynlífsiðnaði njóti fullra og jafnra mannréttinda og verndar gegn ofbeldi, misnotkun og mansali. Málið fer nú til stjórnar Amnesty International sem mun móta og innleiða nýja stefnu samtakanna.
Þetta kemur fram á vefsíðu Amnesty International í dag en aðalfundur samtakanna hefur farið fram síðustu daga í Dyflinni. Umdeildasta málið á dagskrá var tillaga um að samtökin styðji afglæpavæðingu vændis. Amnesty International hefur til þessa ekki haft afgerandi skoðun á málaflokkinum. Greint var frá tillögunum sem lágu fyrir fundinn í Kjarnanum í lok júlí.
Samkvæmt ályktuninni, sem var samþykkt af fulltrúum Amnesty International á fundinum, skal yfirstjórn samtakanna nú móta stefnuna frekar. Stefnan skal tala fyrir afglæpavæðingu hvers kyns kynlífsstarfsemi. Auk þess á stefna samtakanna að tala fyrir fullum réttindum einstaklinga sem starfa við kynlífsiðnað. Það er mat Amnesty að með þessu móti séu mannréttindi fólks í kynlífsiðnaði best tryggð og að afglæpavæðing dragi úr áhættu á misnotkun og ofbeldi sem fólkið býr við.
„Við vitum að þetta mikilvæga mannréttindavandamál er geysilega flókið og þess vegna höfum við fjallað um vandamálið út frá sjónarhorni alþjóðlegum mannréttindum. Við leituðum einnig eftir sjónarmiðum frá ólíkum heimshornum innan samtakanna til að fá ólík sjónarmið,“ segir Salil Shetty, yfirmaður Amnesty International, á vefsíðu samtakanna.
Umdeild stefnumótun Amnesty
Það vakti hörð viðbrögð og deilur í síðasta mánuði þegar fréttist að Amnesty International hyggðust taka fyrir stefnubreytingu um lögleiðingu vændis og kynlífsstarfsemi á aðalfundi sínum. Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um málið, meðal annars BBC sem birti í dag fréttaskýringu um kosti og galla fylkinganna tveggja, það eru þeir sem eru fylgjandi afglæpavæðingu vændis annars vegar og þeir sem eru á móti því hins vegar. Bent er á að báðar fylkingar telja sig berjast fyrir mannréttindum þeirra sem eru í kynlífsiðnaðinum.
Á Íslandi sendu sjö kvennasamtök frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þær lýstu sig andvígar boðaðri stefnu Amnesty International um afglæpavæðingu. „Ef Amnesty International mælir með að því að vændi verði gefið frjálst, er dólgum og vændiskaupendum þar með gefin friðhelgi og mannréttindi kvenna í vændi fótum troðin. Slík stefna myndi skaða þann mikilvæga trúverðugleika og það traust sem Amnesty nýtur í dag. Það má ekki gerast,“ sagði í yfirlýsingunni.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, tjáði sig einnig um málið um liðna helgi og sagðist hugsi yfir tillögunum „Samkvæmt tillögunni verða kaup, sala, milliganga um vændi og rekstur vændishúsa látinn óátalinn, eins og tíðkast bæði í Hollandi og Þýskalandi þar sem vændisiðnaðurinn blómstrar og mannsal áfram vandamál. Er það slíkt sem heimsbyggðin þarfnast? Á Íslandi hefur sænska leiðin verið valin og það sama á við um þó nokkur ríki í kringum okkur. Sú leið er ekki án galla en forsendurnar eru skýrar, að banna vændiskaup en ekki að refsa þeim sem neyðast til að stunda vændi. Vændi er ekki atvinnugrein og á ekki að fá að þrífast sem slík. Mér finnst hryggilegt til þess að hugsa að á sama tíma og við hvetjum karla um allan heim til að leggja sitt af mörkum til #heforshe og koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og tryggja kynjajafnrétti þá skulu ein stærstu og virtustu mannréttindasamtök heims leggja þessar tillögur fram,“ sagði hann.