Fjölbreytileiki er í fyrirrúmi í öllum störfum sem Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir tekur að sér. Hún situr í stjórnum smærri og stærri fyrirtækja og segir hlutverk stjórna það sama í öllum fyrirtækjum þótt viðfangsefnin séu ólík. Mikilvægt sé að fá fjölbreyttar raddir að borðinu, enda geti fólk ekki endurspeglað reynslu sem það hafi ekki sjálft.
Sigurlína er í viðtali í áramótablaði Vísbendingar. Í blaðinu er sjónum sérstaklega beint að fjölbreytni, jafnrétti og því hvernig unnt er að nýta hæfni og krafta breiðari hóps í viðskiptalífinu, ekki síst í stjórnum og stjórnunarstöðum, en ekki bara hæfni og krafta þeirra sem eru líkir þeim sem stýra fyrir. Sjálf er hún verkfræðingur en sneri nýlega heim til Íslands eftir 14 ára störf sem framleiðandi tölvuleikja í Svíþjóða, Kanada og Bandaríkjunum.
Öllum hagkerfum er nýsköpun nauðsynleg að mati Sigurlínu en nýsköpunin er ekkert endilega bundin við nýja tækni, ný tæki eða nýja hluti. Hún er líka í því að finna upp nýjar leiðir og nýjar lausnir á vel þekktum vandamálum.
„Ef við horfum til dæmis á mörg kerfi sem eru rík í okkar samfélagi, hvort sem það er heilbrigðiskerfi, menntakerfi eða stjórnkerfi, þegar þau komu fram þá eru þau alltaf börn síns tíma. Svo þróast samfélagið og þarfir þegnanna. Allt í einu kannski upplifum við að þau kerfi sem á einhverjum tíma virka ofsalega vel eru í dag orðin ákveðin hindrun á framþróun, af því þau hafa kannski ekki ekki þróast með samfélaginu sem nýta þau. Það er alls ekkert eitthvað íslenskt vandamál. Ég held að það sé dálítið alþjóðlegt,“ segir Sigurlína.
Þörf er á nýsköpun alls staðar í samfélaginu að hennar mati og finnst henni áhugavert að fylgjast með nýsköpun í tungumálinu og hvernig það þróast í takt við þarfir samfélagsins.
„Til dæmis þegar eru komin hugtök yfir hluti sem áður var erfitt að koma í orð. Ég nefni sem dæmi þegar það skemmtilega orð hrútskýringin kemur fram þá er þar komið orð sem nær fullkomlega að kjarna eitthvað sem margar konur höfðu kannast við en var erfitt að ræða því orðið var ekki til. Annað hugtak sem mér finnst mjög gagnlegt er þriðja vaktin, sem er hugtak sem nær yfir heimilisskipulag, eins og það að sjá um að panta læknistíma, eða skipuleggja barnaafmæli eða muna eftir gamalli frænku sem þarf að heimsækja á sjúkrahús eða hvað það nú er. Oft er þetta safn óskilgreindra hluta en öll heimili kannast við þetta og þetta eru verk sem þarf að vinna. Þegar þetta hugtak kemur upp, þriðja vaktin, þá nær það svo skemmtilega utan um það. Það er líka áhugavert að fylgjast með þeirri umræðu sem þessi nýsköpun í málinu skapar.“
Margoft verið eina konan í herbergi fullu af karlmönnum
Sá hugsunarháttur var lengi ríkjandi að tölvuleikir séu fyrir drengi og karlmenn og töluvleikjabransinn hefur lengi verið mjög karllægur. „Svo gerist það í raun og veru á þessum tímum sem ég hef unnið í tölvuleikjum að þeir sem taka ákvarðanir í bransanum átta sig á að tölvuleikir höfða til miklu stærri hóps. En til þess að geta náð til fleiri þá þarftu að hafa fjölbreyttara fólk sem býr til leikina,“ segir Sigurlína.
„Ég fer að kynna mér þetta og átta mig á að ég hef upplifað þetta á eigin skinni. Ég hef svo margoft verið eina konan í herbergi fullu af karlmönnum og kannski upplifað að það er einhver ríkjandi sýn, ég hef kannski haft aðrar hugmyndir. Mér hefur ekkert endilega liðið þannig að mínar hugmyndir væru sérstaklega velkomnar eða að ég hefði hreinlega kjark til að koma fram með einhverja hugmynd sem væri mjög ólík þeim sem var verið að ræða. Og ef umhverfið er þannig að ekki allir þora að leggja orð í belg þá ertu með umhverfi sem missir af fullt af hugmyndum.“
Íslendingar óhræddir og hafa kjark til að gera alls konar
Í viðtalinu talar Sigurlína einnig um kjarkinn sem einkennir íslenskt viðskiptalíf og segir hún gaman að vera komin heim og sjá Ísland með nýjum gleraugum.
„Það sem ég hef mjög gaman af hér á Íslandi er að við erum frjálsleg og við erum ekki að flækja hlutina of mikið fyrir okkur. Það er bæði styrkur en síðan þegar við erum Íslendingar í samskiptum við þessa erlendu félög þá skortir stundum skilninginn á þeirra umhverfi og við komum ekki alltaf nógu fagmannlega fram. Við áttum okkur ekki alltaf á því að við þurfum ekki bara að hugsa hvernig hlutirnir eru gerðir á Íslandi heldur líka að hugsa um það hvaða væntingar hefur þetta erlenda fyrirtæki til okkar.“
Hún segir hugmyndaauðgi einkenna okkar litla samfélag. „Íslendingar eru óhræddir og hafa kjark til að gera alls konar. Í þessum stærri samfélögum þá þarf fólk einhvern veginn að klifra lengra til þess að leyfa sér að vera stórhuga og gera nýja hluti. Miðað við hvað við erum lítil þjóð þá eigum við ótrúlega stórt safn af fólki sem hefur gert alla konar hluti og erum svona í alþjóðlegum samanburði svolítið einstök.“
Viðtalið við Sigurlínu má lesa í heild sinni í áramótablaði Vísbendingar.