Alls sögðust 45 prósent landsmanna vera ánægðir með áramótaskaup Ríkisútvarpsins vegna ársins 2021 sem sýnt var að venju á gamlárskvöld, samkvæmt könnun Maskínu.
Það er mikill samdráttur á ánægju með skaupið frá fyrra ári en áramótaskaupið 2020 mældist það besta í áratug og sögðust 85 prósent aðspurðra þá að þeim hefði fundist það gott. Ánægja með áramótaskaupið hefur ekki mælst minni frá árinu 2014 og einungis tvisvar síðan árið 2011. Á árunum 2015 til 2020 sögðust á bilinu 62 til 85 prósent hafa verið ánægð með skaupið.
Munur á afstöðu eftir stjórnmálaskoðunum
Marktækur munur er á afstöðu fólks til skaupsins eftir stjórnmálaskoðunum. Kjósendum Sósíalistaflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins voru líklegastir til að finnast það ekki gott og kjósendur Framsóknarflokksins voru ekki langt undan. Kjósendur Viðreisnar og Flokks fólksins voru við meðatal þegar kom að afstöðu til gæða skaupsins.
Konur hlógu meira en karlar
Þá virðist skaupið hafa náð betur til þeirra sem eru með hæstu launin en þeirra sem þiggja þau lægstu. Hjá efsta tekjuhópnum, þeim sem eru með 1,2 milljónir krónur á mánuði í heimilistekjur eða meira, sagðist um helmingur að þeim hafi þótt áramótaskaupið gott en hjá lægstu tekjuhópunum, þeim sem eru með minna en 400 þúsund krónur eða á milli 400 og 549 þúsund krónur í mánaðartekjur, mældist ánægjan um og rétt yfir 40 prósent.
Þá jókst ánægjan með skaupið samhliða aukinni menntun aðspurðra. Hjá þeim sem lokið hafa framhaldsnámi í háskóla mældist ánægjan með áramótaskaupið tæp 58 prósent en hjá þeim sem hafa lokið mest grunnskólaprófi mældist hún 40 prósent. Þá fannst konum skaupið marktækt fyndnara en körlum.