Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki annað geta gert en að andmæla því harðlega þegar því er haldið fram að Ísland stefni í að vera með hörðustu útlendingastefnu í Evrópu.
Þetta kom fram í máli ráðherrans í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag þegar Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar spurði hana meðal annars út í það hvort hún ætlaði að beita sér fyrir því að það fólk, sem hér hefur dvalið, unnið og fest rætur í talsverðan tíma en á nú að senda til Grikklands, fengi dvalarleyfi.
Logi Einarsson benti á í upphafi fyrirspurnar sinnar að Silja Bára Ómarsdóttir formaður Rauða krossins hefði sagt að hér væri verið að taka upp útlendingastefnu sem yrði með þeim harðari í Evrópu og hefði bent á að flóttafólki væri mismunað eftir uppruna.
„Við sáum þessa stefnu í síðustu viku þegar fram kom hjá hæstvirtum dómsmálaráðherra að til standi að vísa hátt í 300 manns til Grikklands. Þetta gerist á sama tíma og þörf fyrir vinnufúsar hendur hefur aukist hér á landi vegna aukins ferðamannastraums. Okkur vantar fólk og ríkisstjórnin hyggst senda úr landi 300 manns,“ sagði hann.
Greindi Logi frá því að í þeim hópi væri 22 ára sómölsk stúlka sem starfaði sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og hennar biði hræðileg örlög í Grikklandi. „Þarna er líka Palestínumaður sem hefur dvalið hér í tvö ár og starfað í ferðaþjónustu og vinnuveitandi hans skilur ekki af hverju ríkisstjórnin hyggst senda hann úr landi. Hvert og eitt í þessum hópi á sína sérstöku sögu en hæstvirtur dómsmálaráðherra talaði einungis um ólögmæta dvöl eins og að hér séu á ferð glæpamenn en ekki fólk á flótta undan óbærilegum aðstæðum, fólk sem ekkert hefur til saka unnið annað en að reyna að brjótast út úr ómannúðlegum aðstæðum.“
Vísaði þingmaðurinn í frétt sem birtist á visi.is þar sem Katrín sagði að það þyrfti að horfa á stóru myndina og kenndi síðan skorti á heildarstefnumótun í málaflokknum um. Benti hann á að þessir 300 einstaklingar sem nú eiga yfir höfði sér brottvísun væru í vanda og þeim gagnaðist ekki heildarstefnumótun sem enginn vissi hver væri og enginn gengist við. Spurði hann Katrínu hvort hún ætlaði að beita sér fyrir því að það fólk sem hér hefur dvalið, unnið og fest rætur í talsverðan tíma en á nú að senda til Grikklands, fengi dvalarleyfi.
Mikilvægt að horfa til þess hverjar aðstæður eru í Grikklandi áður en fólk er sent þangað
Katrín svaraði og þakkaði Loga fyrir að taka þessi mál upp. „Það er þrennt sem mig langar að nefna af því að það voru þrjú atriði sem hann kom inn á í sinni fyrirspurn. Í fyrsta lagi er því haldið fram að Ísland stefni í það að vera með hörðustu innflytjenda- og flóttafólksstefnu í Evrópu. Ég get ekki annað en andmælt því harðlega þegar við skoðum einfaldlega þróun síðustu ára þar sem einmitt hefur verið tekið á móti fleirum en nokkru sinni fyrr, hlutfallslega fleirum líka af þeim sem hafa sótt um.
Ef við berum okkur saman til að mynda við Norðurlönd hefur Ísland verið með mun frjálslyndari stefnu þar sem aðilar í þessari stöðu, sem háttvirtur þingmaður gerir hér að umtalsefni, eru geymdir í lokuðum búðum áður en þeir eru sendir úr landi. Við heyrum núna fregnir frá Danmörku þar sem Danmörk hefur í huga að útvista þjónustu sinni við fólk með alþjóðlega vernd til Rúanda, sem er það sama fyrirkomulag og Bretar hafa kynnt,“ sagði ráðherrann og bætti því við að hún hlyti að andmæla því þegar Logi héldi þessu fram í sinni fyrirspurn.
„Í öðru lagi er spurt líka: Eru einhverjar sérreglur um suma? Væntanlega er þá verið að vitna til fólks sem hingað leitar frá Úkraínu, hvort það gildi aðrar reglur um það en aðra flóttamenn. Auðvitað hefur fjöldinn einn og sér, í ljósi þess að hingað hafa núna meira en 1.000 manns óskað eftir alþjóðlegri vernd frá Úkraínu og aðstæður eru mjög sérstakar í Evrópu, gert það að verkum að það hefur verið brugðið á sérstök úrræði og ég vil nefna sérstaka móttökustöð í Domus Medica, tímabundnar aðgerðir vegna móttöku barna í skóla. Það eru engar sérreglur sem gilda um réttindi og þjónustu við einstaklinga af einu þjóðerni umfram annað en það var gripið til ákveðinna aðgerða til að bregðast við fordæmalausum fjölda.
Þá hvað varðar þennan hóp núna. Ég legg á það áherslu að sjálfsögðu að við horfum til þess að þetta eru auðvitað einstaklingar. Þetta er ekki einsleitur hópur. Aðstæður fólks eru mismunandi. Ég veit það hins vegar að þau eiga það sammerkt að hafa beðið hér vegna COVID. Ég hef ekki fengið svör við því en ég veit að dómsmálaráðuneytið er að afla sér upplýsinga um það hvort það sé verið að senda fólk til Grikklands sem stendur. Ég hef ekki fengið það staðfest. En mér finnst mjög mikilvægt að við horfum til þess hverjar aðstæður eru þar áður en slíkar ákvarðanir eru teknar. Ég kem nánar að þessu í seinna svari,“ sagði hún.
Ætlar Katrín að beita sér?
Logi kom aftur í pontu og sagði að auðvitað ætti sér stað mismunun. „Hér er til dæmis verið að veita börnum af einu þjóðerni töluvert meiri stuðning en öðrum. Það þarf náttúrlega bara sérstaka útskýringu á því.“
Spurði hann í framhaldinu út í orð Katrínar um heildarmyndina. Væri stóra myndin sú að samþykkja útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra sem þrengdi enn að möguleikum flóttafólks? „Er forsvaranlegt að vísa 300 manns úr landi til Grikklands í aðstæður sem mannúðar- og mannréttindasamtök telja óöruggar?“
Hann spurði enn fremur hvort Katrín ætlaði að beita sér sérstaklega fyrir þennan 300 manna hóp sem hér hefur fest rætur. Og ef hún hefði tíma þá langaði þingmanninn að vita hvort hún styddi útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra.
Þyrfti að móta stefnu sem byggir á lögunum
Katrín sagði að samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hefði fengið frá dómsmálaráðherra þá hefði meirihluti þeirra sem sendir verða út landi á næstunni fengið vernd í öðru Evrópuríki, þar af 80 í Grikklandi.
„Ég hef óskað eftir upplýsingum um það hvort önnur Evrópuríki séu að senda til Grikklands miðað við aðstæður þar, því að það er eitt af því sem er bent á, að aðstæður þar séu ekki fullnægjandi, og ég hef ekki fengið svör við því. Mér finnst skipta miklu máli að við kynnum okkur þau mál til hlítar áður en slíkar ákvarðanir eru teknar,“ sagði hún.
Hún sagði jafnframt að henni hefði þótt skorta, og þætti enn, „á það að við – eftir að hafa komið okkur saman um lög um málefni útlendinga sem voru samþykkt í mikilli sátt en höfum hins vegar reglulega verið að bregðast við ýmissi þeirri gagnrýni sem hefur komið upp, meðal annars með breytingum á málsmeðferðartíma og fleira – gerum atlögu að því að móta okkur einhverja stefnu sem byggir á þessum lögum“.
Katrín sagðist að lokum vita til þess að Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra væri að undirbúa slíka stefnumótun og að ljóst væri að ekki hefði ríkt full sátt um framkvæmd þessara laga.