Guðmundur Jónsson, skipstjóri hjá Samherja, sendi inn greinina „Hálfkveðnar vísur Kjarnans“ til birtingar á síðum Kjarnans í byrjun september í fyrra. Samskiptagögn innan úr Samherja sýna fram á að Guðmundur, sem í dag er orðinn skipstjóri á nýjasta skipinu í flota Samherja, Vilhelmi Þorsteinssyni, skrifaði ekki umrædda grein.
Höfundar hennar, samkvæmt skipstjóranum Páli Steingrímssyni, eru hann sjálfur og lögmaðurinn og almannatengslaráðgjafinn Þorbjörn Þórðarson. Þetta kemur fram í spjallþræði á milli þeirra Páls og Örnu McClure, lögmanns Samherja.
„...það var ég sem átti hugmyndina að þeirri grein og skrifaði hana með Þorbirni...“ sagði Páll við Örnu þegar þau ræddu um þátttöku annarra skipstjóra en Páls í að halda uppi vörnum fyrir fyrirtækið á opinberum vettvangi. Arna minntist þá á að Guðmundur hefði skrifað eina grein og það væri „meira en margur“. Páll hélt því í kjölfarið til haga að greinin væri í reynd hans smíð og Þorbjörns í sameiningu.
Ritstjórn Kjarnans hefur ákveðið að rétt viðbrögð við þessari vitneskju séu þau að leyfa greininni að standa, þrátt fyrir að í ljós hafi komið að höfundur hennar séu aðrir en sá sem sendi hana inn og er skrifaður er fyrir henni. Fyrirvari hefur þó verið settur inn í greinina, sem hljóðar svo:
Komið hefur í ljós að þessi grein er ekki skrifuð af þeim höfundi sem skrifaður er fyrir henni. Það sést í gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum og sýna að raunverulegir höfundar greinarinnar eru Þorbjörn Þórðarson, ráðgjafi Samherja í upplýsingamálum, og Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja. Eftir yfirlegu hefur ritstjórn Kjarnans ákveðið að greinin fái að haldast í birtingu þrátt fyrir að hafa verið send inn undir fölskum forsendum en að gera þurfi lesendum grein fyrir því að hér sé annað á ferðinni en áður var talið. Það er hér með gert með þessari athugasemd.
Greinar Páls munu standa á Vísi sem minnisvarði um „sögulega framvindu Samherjamálsins“
Eins og Kjarninn og Stundin opinberuðu síðasta föstudag hefur komið í ljós að æði margar greinar sem birst hafa í nafni Páls Steingrímssonar á mest lesna vefmiðli landsins, Vísi, hafa hreint ekki verið skrifaðar af Páli heldur öðrum, oft Þorbirni Þórðarsyni fyrrverandi fréttamanni og núverandi almannatengslaráðgjafa Samherja.
Tölvupóstar sýna fram á að Þorbjörn hefur borið að minnsta kosti sumar greinarnar undir þá sem hann kallar „mennina“, yfirmenn hjá Samherja, áður en Páll hefur síðan fengið „grænt ljós“ á að senda þær inn til Vísis til birtingar undir sínu nafni.
Kjarninn beindi fyrirspurn til Þóris Guðmundssonar, ritstjóra fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis, um það hvort – og þá hvernig – miðillinn ætlaði að bregðast við þeim upplýsingum um uppruna þeirra greina sem hafa verið settar fram í nafni Páls Steingrímssonar á undanförnum misserum sem hafa komið fram í umfjöllunum Kjarnans og Stundarinnar.
Þórir segir í skriflegu svari að það sé stefna ritstjórnarinnar að taka ekki greinar af Vísi sem þar hafa verið birtar. Þar muni þær standa í sama formi og þegar þær voru upphaflega birtar.
„Fréttaflutningur undanfarna daga sýnir vel hvernig þessar greinar urðu til og það verður í framtíðinni hluti af sögulegri framvindu Samherjamálsins,“ segir ritstjórinn í svari sínu til Kjarnans.