Tölvurisinn Apple hefur sótt um einkaleyfi á tækni sem kannar stöðu kortareikninga og miðlar svo auglýsingum á vefnum til fólks eftir því hvað það hefur efni á að kaupa. Frá þessu var greint í dag.
Í einkaleyfisumsókninni segir að kostir þessarar tækni sé betra úrtak þegar auglýsingum er dreift á fólk á vefnum. Snjallsímar fólks virka orðið eins og gagnabanki um einstaklinga og þessar upplýsingar vill Apple nota til að markaðsherferðir skili betri árangri.
Í síðasta mánuði fékk Apple einkaleyfi á hugbúnaði sem dreifir með auglýsingum í tölvupósti, smáskilaboðum og samfélagsmiðlum efitr upplýsingum sem fást símanúmerum, tölvupóstföngum og öðrum persónulegum gögnum.
Svo auglýsingar framtíðarinnar í Apple-snjalltækjum munu aðeins kynna vörur sem eigandinn hefur efni á á hverri stundu.
Tim Cook, forstjóri Apple, hefur hins vegar lýst því yfir að hann kunni ekki við auglýsingar sem byggi á persónuupplýsingum. Hann undirstrikaði í ræðu fyrr á þessu ári að Apple hafi ekki áhuga á að breyta viðskiptavinum sínum í vöru fyrir markaðstjóra.
„Þeir grafa upp allan fróðleik um þig sem þeir geta og reyna að búa til peninga úr því,“ sagði Cook. „Okkur þykir það ekki réttlætanlegt og það er ekki það sem við viljum gera úr fyrirtækinu Apple.“
Bandaríski vefmiðillinn Mashable rekur hins vegar ástæður þess hvers vegna fólk ætti að taka þessum orðum Cook með fyrirvara því undanfarið hefur Apple átt viðskipti sem gætu bent til annars.