Arion banki hefur ákveðið að tryggja starfsfólki sínu 80 prósent launa í fæðingarorlofi í sex mánuði. Það þýðir að bankinn skuldbindur sig til að greiða starfsfólki sínu sem er með hærri laun en 600 þúsund krónur á mánuði (hámarksgreiðsla á mánuði úr fæðingarorlofssjóði) sérstakan viðbótarstyrk svo það haldi 80 prósent af kjörum sínum.
Í tilkynningu frá bankanum segir að styrkurinn komi til viðbótar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og kjarasamningsbundnum styrkjum svo að laun í fæðingarorlofi komist sem næst 80% launa. Jafnframt hvetur bankinn starfsfólk til að nýta fæðingarorlofsrétt sinn að fullu.
Laun starfsmanna í bönkum eru mismunandi eftir því hvaða verkefnum þau sinna. Mánaðarlaun starfsfólks í ráðgjöf og sölu verðbréfa, meðal annars þeirra sem starfa við slíkt hjá Arion banka, voru til að mynda yfir 1,7 milljónir króna á mánuði í fyrra. Meðalverðbréfasali sem starfar hjá Arion banka myndi samkvæmt þessu fá 1.360 þúsund krónur á mánuði í laun í fæðingarorlofi eða 760 þúsund krónum meira en hann fengi ef viðkomandi fengi einungis greiðslur úr fæðingaorlofssjóði.
Vilja auðvelda starfsfólki að taka orlof
Aðgerðin er hluti af áætlun Arion banka við að jafna hlut kynjanna innan bankans. Í tilkynningu bankans segir að meðallaun karla, bæði í Arion banka og samfélaginu öllu, séu hærri en meðallaun kvenna og feður nýti að jafnaði síður fæðingarorlofsrétt sinn en mæður. „Með því að tryggja starfsfólki 80 prósent launa í fæðingarorlofi er foreldrum, óháð kyni eða annarri stöðu, auðveldað að nýta fæðingarorlofsrétt sinn. Þannig miðar aðgerðin m.a. að því að fjölga þeim feðrum sem nýta fæðingarorlofsrétt sinn og til lengri tíma litið getur hún verið liður í að jafna annars vegar meðallaun kynjanna og hins vegar hlut kynjanna í hópi stjórnenda og í ólíkum starfaflokkum, en konur eru í dag 44 prósent stjórnenda bankans.“
Benedikt hvetur starfsfólk sitt í sömu tilkynningu að nýta fæðingarorlofsrétt sinn, óháð kyni eða annarri stöðu. „Við viljum auðvelda starfsfólki okkar að taka fæðingarorlof með því að tryggja öllum nýbökuðum foreldrum 80 prósent af launum sínum á þessum dýrmæta og mikilvæga tíma í lífi þeirra og barna þeirra. Jafnframt viljum við með þessu gera Arion banka að enn eftirsóknarverðari vinnustað fyrir ungt og hæfileikaríkt fólk.“