Arion banki hefur keypt ríflega helmningshlut, 51 prósent, í tryggingarfyrirtækinu Verði. Hömlur eru á viðskiptum með eftirstandandi hluti, að því er segir í tilkynningu, og hafa Arion banki og Vörður ákveðið að gefa út kaup- og sölurétt á útistandandi hlutum sem heimila Arion banka að festa kaup á hlutunum þegar hömlunum hefur verið lyft, eigi síðar en á árinu 2017.
Verðmæti félagsins er í viðskiptunum í heild sinni metið á 37,3 milljónir evra eða sem nemur um 5,3 milljörðum króna. Helmingshlutur er því um 2,67 milljarðar króna.
Arion banki hefur hug á að efla enn frekar vöxt og þróun Varðar á íslenskum tryggingamarkaði, bæði hvað varðar viðskipti við einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki, að því er segir í tilkynningu vegna viðskiptanna. Engar verulegar breytingar eru fyrirsjáanlegar á daglegum rekstri og breytt eignarhald ætti ekki að hafa áhrif á viðskiptavini félagsins.
„Vörður hefur verið hluti af samstæðu BankNordik síðan 2009 og á því tímabili hefur félagið aukið markaðshlutdeild sína verulega og bætt arðsemi. Við erum að selja mun sterkara félag en við keyptum árið 2009 og ég er handviss um að Arion banki muni halda áfram að styðja við þessa jákvæðu þróun,” segir forstjóri BankNordik Árni Ellefsen í tilkynningu.
Höskuldur Ólafsson, forstjóri Arion banka segir að samspil banka- og tryggingaþjónustu sé vel þekkt, ekki síst á Norðurlöndunum, og með þessum kaupum hyggist Arion banki styrkja starfsemi og alhliða þjónustu sem hann býður viðskiptavinum upp á. „Tryggingar eru, og hafa verið, mikilvægur þáttur í okkar kjarnastarfsemi og með kaupunum á Verði erum við að bæta skaðatryggingum við þjónustuframboð bankans. Vörður er öflugt og vaxandi fyrirtæki með sterkt vörumerki sem við höfum hug á að efla enn frekar í framtíðinni,” segir Höskuldur.
Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki viðkomandi yfirvalda og er gert ráð fyrir að salan á 51 prósent hlut verði fullfrágengin innan fárra mánaða, segir í tilkynningu.